23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. 1. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Kjaradeila þessi milli flugfreyja og Flugleiða hf. kom í kjölfar samninga Flugleiða við flugmenn í ársbyrjun 1985 sem báðir deiluaðilar hafa upplýst að jafngildi um það bil 43% launahækkunum á samningstímabilinu. Í greinargerð frá Flugleiðum hf. segir að félagið hafi í kjölfar þeirra samninga boðið flugfreyjum sambærilegar hækkanir, en Flugfreyjufélag Íslands hafi hafnað því tilboði og lagt fram kröfu um meiri launahækkanir. Fulltrúar flugfreyja vísa þessu algerlega á bug, staðfesta að umrætt tilboð hafi að vísu komið fram, en verið dregið til baka af hálfu Flugleiða skömmu síðar. Aðilar að þessari deilu eru því ósammála um sjálft upphaf hennar og auk þess eru þeir ósammála um mörg meginatriði í gangi mála síðan. M.a. eru þeir í veigamiklum atriðum ósammála hvað varðar kröfugerðina sjálfa og mat á henni, svo og um þau tilboð sem gerð hafa verið til lausnar á þessari kjaradeilu. Fyrir liggur þó að Flugleiðir hf. hafa boðist til að hækka laun flugfreyja um 19,2% auk beinna greiðslna fyrir liðinn tíma og eru aðilar báðir í stórum dráttum sammála um að þetta tilboð sé til samræmis við almennar meðaltalshækkanir á vinnumarkaði. Auk þess segjast forsvarsmenn Flugleiða hafa boðið nokkrar lagfæringar á öðrum kjaraatriðum og lýst sig reiðubúna til þess að ræða hugsanlegar starfsaldurs- og launaflokkahækkanir án þess að hafa lagt fram endanlegt eða ákveðið tilboð um slíkt og hefur þetta verið staðfest rétt af fulltrúum Flugfreyjufélags Íslands. Mikill ágreiningur er hins vegar um það milli deiluaðila hvort þetta tilboð sé í samræmi við þá kjarasamninga sem Flugleiðir hafa áður gert við aðra flugliða og þá einkum flugmenn. Flugleiðir hf. segja að svo sé, en flugfreyjur að flugmenn hafi fengið meiri launahækkanir en þessu tilboði nemur.

Þá er einnig upplýst í málinu að mikill ágreiningur er milli deiluaðila um þá kröfu Flugfreyjufélags Íslands að vaktaálag verði greitt á laun flugfreyja til samræmis við þann hátt sem hafður er á slíkum greiðslum almennt á vinnumarkaðinum. Af hálfu Flugleiða er fullyrt að slíkar greiðslur séu inntar af hendi af félaginu og vaktaálagsgreiðslurnar innifaldar í launum flugfreyja, en þær vísa þeirri fullyrðingu hins vegar á bug og benda á að kröfur þeirra um slíkar greiðslur verði að vera innifaldar eigi að samræma laun flugfreyja launagreiðslum til annarra aðila í þjóðfélaginu, eins og rætt hefur verið um. Þannig er ágreiningur milli þessara aðila um flestöll málsatvik, bæði um sjálf efnisatriðin annars vegar og um mat á ágreiningsefnunum hins vegar. Það liggur aðeins fyrir nú að mikið og stórt djúp er staðfest á milli deiluaðila og engar hugmyndir eru nú uppi um efnislega lausn. Sáttatillaga var t.d. ekki gerð og mun það hafa verið samdóma álit beggja deiluaðila að það væri ekki efni til þess að slík tillaga yrði lögð fram.

Ég hef hér aðeins lýst nokkrum ágreiningsatriðum þessara aðila og á þeim stutta tíma sem Alþingi hefur haft til að fjalla um málið er ógerningur að meta eða taka efnislega afstöðu til þessara ágreiningsatriða. Vandamálið sem Alþingi horfist í augu við er að leita að þeim farvegi sem hægt sé að fella deilumál þetta í þannig að lausn geti fundist á grundvelli mats á ágreiningsefnunum og með hliðsjón af þeim launabreytingum sem orðið hafa í landinu og þá einkum þeim launabreytingum sem orðið hafa hjá öðrum flugliðum hjá Flugleiðum og ágreiningur er um hverjar séu. Auðvitað er ljóst að fáir kostir eru góðir í þeim efnum þegar svo er komið að verkfall er hafið. Engar sérstakar hugmyndir virðast vera uppi hjá deiluaðilum sjálfum um hugsanlega lausn á málinu og sáttasemjari, meðalgöngumaður deiluaðilanna, hefur ekki treyst sér til að gera neina sáttatillögu vegna þess hve mikið skilur á milli aðila í deilunni.

Um n.k. áramót verða kjarasamningar almennt lausir og kemur þá til kasta flestallra aðila vinnumarkaðarins að móta stefnu í launamálum í samningum, stefnu sem nauðsyn ber til að verði samræmd af hálfu bæði verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda. Langæskilegt er því að sem allra flestir aðilar á vinnumarkaðinum hafi þá samninga sína lausa og geti mótað launastefnuna þannig að samræmi geti orðið í mótun launastefnu í landinu fyrir allar stéttir og alla starfshópa. Er þetta ekki síst mikilvægt fyrir lægst launaða fólkið sem allir segjast vera sammála um að beri að standa sérstakan vörð um. Út frá því sjónarmiði einu saman er bæði æskilegt og nauðsynlegt að launaákvarðanir fyrir sem flesta starfshópa geti þá farið saman.

Eins og málin standa nú í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf., þar sem engin hugmynd virðist vera til um efnislega lausn, getur þingflokkur Alþfl. eftir atvikum fallist á að óhjákvæmilegt sé að fresta aðgerðum til n.k. áramóta þegar almenn stefnumótun í kjaramálum skal hvort eð er fram fara og að hlutlausum gerðardómi verði falið að leggja vandað og hlutlægt mat á ágreiningsefni deiluaðila og fella bráðabirgðaúrskurð sem gildi þangað til almenn launastefnumótun fer fram í landinu og tryggi flugfreyjum ótvírætt sambærilegar launahækkanir og aðrir starfshópar hafa þegar fengið og einkum og sérstaklega aðrir flugliðar hjá Flugleiðum eins og sérstaklega er tekið fram í frv. Þannig verði flugfreyjum tryggðar sambærilegar kjarabætur og aðrir hafa fengið uns launþegar og vinnuveitendur þurfa í viðræðum eftir örfáar vikur að marka sameiginlega og samræmda heildarlaunastefnu fyrir hinar ýmsu stéttir og starfshópa. Þingflokkur Alþfl. hefur því ákveðið að styðja frv. með þessum rökstuðningi sem óhjákvæmilega bráðabirgðalausn á djúpstæðu ágreiningsefni, sem engin hugmynd um lausn finnst á hjá deiluaðilum né sáttasemjara, og legg ég því til að frv. verði samþykkt.

Ég skal taka það sérstaklega fram að ekki var um þessa afstöðu samstaða í þingflokki Alþfl. Þetta var hins vegar meirihlutaálit þar, en Jóhanna Sigurðardóttir hefur, eins og fram hefur komið, aðra afstöðu en ég hér lýsi.

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem slíkt neyðarúrræði hefur verið tekið í kjaradeilum flugliða. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að allir eldri stjórnmálaflokkarnir, sem eiga sæti á þingi, hafa átt hlut að slíkum aðgerðum sem m.a. voru ráðgerðar af samsteypustjórn Alþfl., Framsfl. og Alþb. á árunum 1978-1979 og þá nutu þær aðgerðir stuðnings þm. allra þeirra flokka.

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að hér er Alþingi ekki beðið að fella efnislegan úrskurð. Hér liggur ekki fyrir tillaga um lögfestingu á sáttatillögu. Hér liggur heldur ekki fyrir tillaga um að Alþingi taki sér úrskurðarvald í málinu og gerist sá gerðardómur sem frv. gerir ráð fyrir að skipaður verði. Eina úrlausnarefni Alþingis er því ekki á þessu stigi málsins að fella neinn efnislegan úrskurð, hvorki um réttmæti né sanngirni launakrafna flugfreyja né heldur neinn efnislegan úrskurð á mati aðila, hvort heldur á kröfunum eða á þeim tilboðum sem fram hafa verið sett. Aðeins er leitað til Alþingis þegar svo er komið að vinnustöðvun er hafin og allir málsaðilar, bæði deiluaðilarnir tveir og meðalgönguaðilinn sem er sáttasemjari, eru um það sammála að það verði ekki séð að nein samningslausn sé finnanleg á málinu eins og nú standa sakir. Það er aðeins þetta vandamál sem fyrir Alþingi liggur en ekki efnislegur úrskurður í þessu deilumáli. Og þegar jafnframt er horft til þess að eftir aðeins örfáar vikur munu flestallir launþegar landsins og vinnuveitendur þeirra taka við því verkefni að reyna að móta launastefnu, sem væntanlega verður mótuð og vonandi af þessum aðilum þannig að eitthvert eðlilegt samræmi komist í launapólitíkina í landinu, er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að Alþingi grípi til þess ráðs, sem hér er lagt til, að fresta lausn þessa sérstaka deiluefnis þannig að lausn þess geti farið saman við mótun heildarstefnu launamála hjá öðrum stéttum í landinu og geri það með þeim hætti að fela óhlutdrægum gerðardómi að úrskurða á meðan um launakjör flugfreyja til samræmis við það sem þegar hefur verið samið um við aðrar stéttir í landinu, þar á meðal við aðra flugliða hjá Flugleiðum.

Rætt hefur verið um að nauðsynlegt sé að fá mat óhlutdrægra aðila bæði á kröfunum og tilboðum o.fl. Ef það væri hlutverk Alþingis að fella efnislegan úrskurð í því máli væri það að sjálfsögðu skylda Alþingis að kalla til slíkan óvilhallan úrskurðaraðila. En nú er það ekki hlutverk Alþingis að fella þennan efnislega úrskurð, heldur gerðardóms sem skipa skal óvilhöllum aðilum, og að sjálfsögðu mun sá gerðardómur kalla eftir öllum þeim upplýsingum sem hér hefur verið rætt um að nauðsynlegt sé að fyrir liggi áður en afstaða er tekin og ég vil ítreka að sjálfsögðu að nauðsynlegt er að tekin verði.

Það er aðeins eitt atriði að lokum, herra forseti, sem ég vil vekja athygli á og það er að í 1. gr. frv. þessa er svo mælt fyrir að kjaradómurinn, sem Hæstiréttur eigi að tilnefna, á aðeins að fjalla um þann þátt í kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. sem lýtur beinlínis að kaup- og kjaramálum. Í slíkum kjarasamningum eru að sjálfsögðu ýmis önnur atriði, m.a. ákvæði um uppsagnarfrest og ákvæði um hvernig að verkfallsboðun skuli standa. Frv. tekur, auk þess að fela kjaradómi að ákveða kaup og kjör, einnig til uppsagnarfrestsins á þessum kjaraliðum, en frv. breytir í engu þeim ákvæðum sem fylgt hefur verið og fullnægt hefur verið um sjálfa verkfallsboðunina, þannig að þegar ákvæði þessa frv. falla úr gildi um n.k. áramót eins og lagt er til í frv., síðustu grein þess, stendur verkfallið óhaggað sem verið er að fresta með þessu frv. Það er mitt álit að þá þurfi ekki að koma til ný verkfallsboðun, ný fundarboðun og ný verkfallssamþykkt því að þeirri röð og þeirri reglu og þeim ákvæðum samninga breytir þetta frv. ekki. Menn skulu því gera sér fulla grein fyrir því, eins og frá frv. er gengið, að á miðnætti þann 1. janúar árið 1986 tekur gild verkfallsboðun Flugfreyjufélagsins aftur gildi án þess að til nýrrar ákvörðunar þurfi að koma um verkfallsboðun o.s.frv. Þetta er e.t.v. algert aukaatriði í þessu máli því að verkfallsboðunarfrestur er ekki nema ein vika og eins og gengið er frá frv. geta flugfreyjur út af fyrir sig haft nægan tíma til að endurboða verkfallið ef þurfa þykir. En það er mín skoðun að verkfallið standi, þó svo því sé frestað, fram til þess tíma og eigi ekki til verkfalls að koma á miðnætti þann 1. janúar n.k. þurfi Flugfreyjufélagið með eðlilegum hætti að aflýsa því verkfalli.