14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

177. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Því miður er ekki hægt að ræða þetta mál í ítarlegri máli þar sem þingsköp leyfa ekki nema átta mínútna ræðu, en ástæða hefði verið til að fjalla í lengra máli um þá till. sem hér liggur frammi og er til umræðu. Það vekur samt athygli að aðeins tveir hv. þm. sátu í þessum sal þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti sína ræðu og sýnir að sjálfsagt er mestur vindur úr mönnum í þessu máli sem hefur einkennst upp á síðkastið af slagsmálum stjórnarandstöðuflokkanna um með hverjum hætti eigi að skipa rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð til þess að rökstyðja afstöðu mína og Sjálfstfl. til þess máls. Það hafa þeir gert, hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldór Blöndal og Birgir Ísl. Gunnarsson í umræðum um aðra nefnd af þessu tagi, en þær umræður fóru fram í útvarpi.

Það vekur hins vegar sérstaka athygli að 1. flm. þessa máls var hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson og af einhverjum sérkennilegum ástæðum situr hann ekki í þingsölum í dag heldur hefur hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson tekið sæti sitt aftur og ég býð hann velkominn til þings. Það fagna því flestir þm. að fá að sjá framan í hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, en ég verð að segja að ég hefði helst kosið að hann hefði leyft varaþm. sínum að sitja eins og einn dag í viðbót og gefa honum tækifæri til að standa fyrir máli sínu. Þannig er nefnilega mál með vexti og vita allir að hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson var hér með sérstöku leyfi hv. 7. þm. Reykv. vegna þess að hann þurfti að flytja þessa till., sem nú er til umræðu, morguninn eftir að hann hefur horfið úr sölum Alþingis. Ég beini þeim tilmælum til hv. 7. þm. Reykv. að næst þegar svo stendur á leyfi hann hv. varaþm. sínum að sitja eins og hálfan dag í viðbót þannig að honum gefist tækifæri til að standa fyrir máli sínu.

Það er nefnilega að koma æ skýrar í ljós að hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið að skamma Albaníu í þessu máli. Það eiga sér nefnilega stað innanflokksátök í Alþb. og þegar ráðist er að Útvegsbankanum og bankaráði hans er ekki fyrst og fremst verið að ráðast að hæstv. iðnrh. Það er verið að ráðast að einum þm. Alþb., hv. þm. Garðari Sigurðssyni, sem á sæti í Útvegsbankaráðinu, og þetta er liður í herferð hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar til að losna við hv. þm. Garðar Sigurðsson úr bankaráði Útvegsbankans. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort fylking hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar sigrar í þeirri orrustu eða hvort hv. þm. Garðar Sigurðsson stendur þetta af sér. Það sjáum við þegar kosið verður í bankaráð Útvegsbankans í næstu viku.

Hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði orð á því að hann hefði haft rétt fyrir sér þegar hann var að ræða á sínum tíma um Flugleiðamálið og Eimskipsmálið. Ef við rifjum aðeins upp hvað Ólafur Ragnar Grímsson sagði um þau mál kemur í ljós í umræðum á sínum tíma að hann lagði í fyrsta lagi höfuðáherslu á þjóðnýtingu fyrirtækja í samgöngum, í öðru lagi sagði hann frá því að Íslendingar töpuðu stórkostlega vegna lágra farmgjalda fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og í þriðja lagi dylgjaði hann um stórkostlega fjármagnsflutninga Flugleiða til útlanda til pappírsfyrirtækja sem þar störfuðu. Þetta var uppistaðan í málflutningi Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1978. Það kemur í ljós að ekki stendur steinn yfir steini í þeim málflutningi. En menn mega ekki gleyma því að Alþb. er á móti einkarekstri í þessum greinum. Því hefur Ólafur Ragnar Grímsson lýst yfir í blaðaviðtali. Það gerði hann þegar umræður stóðu yfir 1978 þegar hann dylgjaði um þessi stóru fyrirtæki, Eimskip og Flugleiðir. Sá sem hér stendur í ræðustól stóð þá upp og gerði sitt ýtrasta til að verja t.a.m. Eimskipafélag Íslands fyrir þeim málflutningi sem hv. þáv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði í frammi gagnvart því fyrirtæki.

Ég ætla ekki, þar sem hann er ekki viðstaddur, að ræða málflutning hans. Það gæti verið að hv. varaþm. kasti steinum úr glerhúsi. Ég ætla ekki að ræða um það hér, en mér gefst vonandi tækifæri til að eiga orðastað við hann síðar.

Það gerðist, herra forseti, í útvarpsumræðum um daginn að einn af flm. till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um rannsóknarnefnd, hv. þm. Guðmundur Einarsson, slátraði þessum till. báðum. Hann sagði nefnilega í umræðunni, sem er ugglaust rétt, að á meðan ekki væri gerður skýrari greinarmunur hér á landi á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins væri tómt mál að tala um að hægt sé að notast við rannsókn skv. 39. gr. stjskr. Það var meiningin í því sem hann sagði. Þetta er afar skiljanlegt. Það er þess vegna sem BJ hefur lagt til ýmsar breytingar, þar á meðal þær að viðskrh. skipi bankaráð viðskiptabankanna. Þetta er rökrænn málflutningur, en slær um leið vopn úr höndum þeirra sem vilja fara aðrar leiðir en hæstv. ríkisstj. hefur lagt til til að rannsaka þetta mál sem auðvitað þarf að rannsaka á þeim stað sem ætlast er til samkvæmt íslenskum lögum.

Skiptaréttur mun fá víðtækt rannsóknarvald. Lögum hefur verið breytt til að gera skiptaréttinum enn þægilegra að annast þessa skyldu sína. Ef upp koma atriði sem telja verður að séu saknæm og refsiverð eru þau send ríkissaksóknara.

Hæstv. iðnrh. bað um sérstaka rannsókn á sínum þætti. Hann hefur nú verið hvítþveginn í raun þannig að hann er jafnvel hreinni en þeir hreinustu sem komu út af Alþýðubandalagsfundinum um daginn, en ritstjóri Þjóðviljans lýsti því yfir að landsfundur Alþb. hefði líkst eins konar hundahreinsunarstöð. (Gripið fram í: Er verið að segja að hæstv. iðnrh. hafi verið hreinsaður?) Það er verið að halda því fram, eins og kemur fram í bréfi saksóknara, að ekkert hafi komið fram og engar ásakanir komið um að um refsiverðan verknað hefði verið að ræða. Það kemur fram í því. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. formaður Alþb. er í vandræðum með hvorum hann eigi að bjóða í flokkinn. (Forseti: Það er óheppilegt að stunda mikil frammíköll því að tímatakmarkanir eru miklar í umræðunum um ályktunartillögur. )

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég vissi það reyndar fyrir fram að tíminn var örstuttur og enn þá styttri verður hann þegar fleiri eru um ræðutímann. En það sem skiptir máli er, og síðar er hægt að ræða það, að fyrir liggur frv. ríkisstj., en samkvæmt því á auðvitað að rannsaka þetta mál, og þar segir skýrt og greinilega að rannsaka eigi sérstaklega þau mál sem ekki eru rannsökuð af opinberum rannsóknaraðilum lögum samkvæmt. Á það viljum við leggja áherslu að með þetta mál sé farið með eðlilegum hætti, þar sé jafnréttis gætt og að það sé tilgangur rannsóknarinnar fyrst og fremst að fá fram hver sé sannleikurinn og hverjar séu staðreyndirnar í málinu, en ekki sé byggt á dylgjum eins og gert hefur verið hingað til.

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið fram úr mínum tíma um hálfa mínútu, en ég kenni frammíköllum um það.