16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fyrr í þessari umræðu er ekki um endanlega afgreiðslu lánsfjáráætlunar frá deildinni að ræða nú við 3. umr. því málið á örugglega eftir að koma aftur til deildarinnar. Lánsfjáráætlun er sem sagt hálfköruð enn og alls ekki sýnt hverjar verða niðurstöðutölur hennar að lokum.

Þegar frv. til lánsfjárlaga var fyrst sýnt hér í deildinni var bersýnilega stefnt að erlendum lántökum að upphæð rétt um 2000 millj. kr. Þessi upphæð lækkaði síðan allnokkuð við 2. umr. og voru þá erlendar lántökur taldar vera milli 1200 og 1300 millj. kr. Nú er bætt við á nýjan leik þannig að erlendar lántökur hækka um tæpar 300 millj. og eru þá komnar upp í rétt um 1600 millj. kr. Þessar lántökufyrirætlanir eiga örugglega eftir að hækka enn við meðferð málsins í Nd. Hversu mikið er ekki hægt að segja til um á þessu stigi en fer eftir niðurstöðutölu fjárlagafrv. Auk þessa er svo áformað að aukning skammtímalána á næsta ári verði um 2200 millj. kr. þannig að raunveruleg nettóaukning á erlendum lántökum er bersýnilega rétt um 4000 millj. kr. að minnsta kosti.

Þarf ekki að orðlengja um að þetta er að sjálfsögðu í talsverðu ósamræmi við þær yfirlýsingar sem þessi ríkisstj. hafði áður gefið um að dregið yrði úr erlendum lántökum, en þegar ég nefni 4000 millj. er ég að tala um aukningu á erlendum langtímalánum að viðbættum áætluðum skammtímalánum og aukningu þeirra.

Á því tímabili sem leið frá því að 2. umr. málsins fór fram varð það niðurstaða í sérstakri nefnd sem fjallaði um húsnæðismálin að a.m.k. 350 millj. kr. vantaði til húsnæðismálanna. Ríkisstj. féllst á að svo væri og hefur gert ráð fyrir, a.m.k. á yfirborðinu, að þessar 350 millj. kr. verði til reiðu. En það er kannske til marks um léttúðina í meðferð talna í þessu frv. að þegar fjmrh. og ríkisstjórnarmeirihlutann vantaði 350 millj. kr. í húsnæðismálin og menn samþykktu að útvega þær leystu þeir það dæmi bara með því að færa til tölur í áætluninni án þess að gera neinar nýjar ráðstafanir til að afla fjár. 200 millj. af þessum 350 eru fengnar þannig að það er ósköp einfaldlega sagt við okkur alþm.: Ja, það koma bara 200 millj. til viðbótar frá lífeyrissjóðunum, umfram það sem við höfðum áætlað við 2. umr. - Það uppgötvast sem sagt þarna allt í einu 200 millj., mjög óvænt og skemmtilega, sem leysa meginhlutann af vandanum. En að gerðar hafi verið einhverjar ráðstafanir til þess að um verði að ræða raunverulega aukningu kannast ég ekki við, og það kannast enginn við, og hvort þetta skilar sér veit auðvitað enginn. Lífeyrissjóðafjáröflunin var ósköp einfaldlega hækkuð um 200 millj. án þess að lagaskyldur lífeyrissjóðanna væru á nokkurn hátt breyttar eða endurbættar. Reyndar er nú búið að breyta þessum tölum enn vegna þess að nú er sagt að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að koma með 200 millj. heldur 230 millj. til viðbótar, en 120 millj. eiga að koma af þeim lið sem nefnist: Til orkusparandi aðgerða á vegum húsnæðismálastjórnar. Það verða því aðeins 30 millj. til orkusparandi aðgerða, enda þótt ráð hafi verið fyrir því gert að 150 millj. yrðu til þess þáttar. Það er að vísu rétt að eftirspurn eftir þessum orkusparandi lánum hefur ekki orðið eins mikil og menn höfðu áður gert ráð fyrir. Þörfin er fyrir hendi. Nauðsynin á þessum orkusparandi aðgerðum er öllum ljós. En af einhverri ástæðu, kannske vegna ókunnugleika almennings, kannske af einhverri annarri ástæðu, hefur eftirspurnin ekki verið nægilega mikil. Það kynni svo sannarlega að vera að hún yrði allt önnur og miklu meiri á næsta ári þegar þetta er komið virkilega vel í gang, en þá verður greinilega ekki fé fyrir hendi til þess að mæta þeirri eftirspurn. Það verða bara til 30 millj., enda þótt menn hefðu áður gert ráð fyrir því að til þessa verkefnis væri þörf á nokkrum hundruðum milljóna.

Hv. frsm. fjh.- og viðskn. nefndi hérna eitt fyrirtæki, Vallhólm hf., en það fyrirtæki hafði sent erindi til nefndarinnar um að mega taka lán vegna þess að fyrirtækið var með skammtímalán á ýmsum fjárfestingarvörum sem það tók lán til fyrir nokkrum árum síðan og vegna fjárhagsörðugleika. Það er ljóst að þetta fyrirtæki stendur ekki nægilega vel. Eigið fé fyrirtækisins virðist upp urið. Þó er staðan ekki verri en svo að það er áreiðanlega ekki langt frá lagi að eignir og skuldir standist nokkurn veginn á. Þetta fyrirtæki er að 75 hundraðshlutum í eigu ríkisins og á miklar birgðir af heykögglum sem er ekki alveg ljóst á hvaða verði munu seljast. Hins vegar hef ég heimildir fyrir því að sala á heykögglum hafi gengið ákaflega vel á fyrstu mánuðum þessa vetrar.

Ég ætla ekki að fara að krefja hæstv. fjmrh. sagna um þetta fyrirtæki því ég veit ekki hvort hann hefur haft aðstöðu eða tíma til að kynna sér málefni þess, en ég mundi mjög eindregið skora á hann að taka málefni þessa fyrirtækis til meðferðar og veita því úrlausn af einhverju tagi. Ég hygg nú að ekki verði undan því vikist að auka eigið fé fyrirtækisins allverulega og mér þykir ótrúlegt annað en að heimaaðilar vildu taka þátt í því. Ég skil vel að málið er ekki nægilega mikið unnið til að unnt sé að ganga frá því við afgreiðslu lánsfjárlaga að þessu sinni en læt nægja að skora mjög eindregið á hæstv. fjmrh. að líta á vandamál þessa fyrirtækis því það heyrir alfarið undir fjmrh.

Að lokum vil ég segja það eitt um frv. að ég tel efni þess óraunhæft. Ég er sannfærður um að erlendar lántökur verða töluvert miklu meiri en þar er gert ráð fyrir og ég er sammála því, sem svo margir hafa sagt á undan mér, að erlendar skuldir þjóðarinnar eru vissulega orðnar langt úr hófi fram.

Ég vek á því athygli eins og hv. seinasti ræðumaður, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, að orkuframkvæmdir hafa verið langt umfram þarfir. Ég tel að enn mætti skera verulega niður lánsfjáröflun til Landsvirkjunar og tel seinni málsgr., sem varðar Landsvirkjun og snertir stækkun álversins, algerlega óþarfa. Þarna mætti enn lækka lánsfjáráætlun verulega.

Ég tel hins vegar skerðingarákvæðin mörg hver mjög ósanngjörn og miskunnarlaus og tek alveg sérstaklega undir það sem seinasti ræðumaður sagði um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem bersýnilega stefnir í miklar breytingar sem munu hafa það í för með sér að öllu óbreyttu að lán til hvers einstaks námsmanns verður miklu lægra hlutfall af umframfjárþörf hans en verið hefur um tíu ára skeið. Það vantar þarna mjög stórar upphæðir til þess að landshlutarnir geti haldið raungildi sínu áframhaldandi. Þetta er sannarlega mjög mikið áhyggjuefni fyrir alla þá sem telja það eitt þýðingarmesta stefnuatriðið í íslenskum menntamálum að jafnrétti sé ríkjandi til náms og að allir eigi þess kost að stunda framhaldsnám án tillits til fjárhags, þeir eigi þess kost að taka lán hjá ríkinu til að brúa það bil sem á vantar. Ég óttast að ef ekki verður að gert verði þessi stefna nú með afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar brotin niður. Það væri sannarlega býsna stórt skref aftur á bak sem þá væri stigið.

Ég hef áður nefnt málefni Kvikmyndasjóðs og ætla ekki að endurtak það. Þar er um smáupphæð að ræða sem ekki skiptir stóru máli í þessu mikla dæmi en getur hins vegar ráðið úrslitum um hvort innlendur kvikmyndaiðnaður fær áfram að vaxa og dafna eða hvort hann brotnar niður vegna fjárskorts.

Áður hefur verið minnst á Framkvæmdasjóð fatlaðra sem svo sannarlega er ekki þess eðlis að þar sé við hæfi að beita hnífnum af þeirri grimmd sem gert er.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri við þessa umræðu, enda á málið örugglega eftir að koma aftur til deildarinnar.