16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég þarf í rauninni ekki miklu við það að bæta sem hefur komið hér fram áður, en þó vildi ég koma inn á örfá atriði í sambandi við það mál sem hér er til umræðu. Hv. 4. þm. Norðurl. v., formaður fjh.- og viðskn., hefur rakið álit meiri hl. nefndarinnar þannig að ég þarf ekki miklu við það að bæta.

Þegar þessi mál eru rædd kemur fyrst í hugann hvernig hefur verið staðið við hin almennu markmið sem ríkisstj. hefur sett sér um stöðvun skuldasöfnunar við útlönd. Það er eitt brýnasta málið í efnahagslífi okkar nú um þessar mundir að stöðva þessa skuldasöfnun og draga úr henni vegna þess að vextir og afborganir af erlendum lánum eru að sliga efnahagskerfi okkar.

Það hefur komið hér fram gagnrýni frá stjórnarandstöðunni um að erlend skuldasöfnun sé ekki stöðvuð og erlendar skuldir aukist samkvæmt frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir. Það má geta þess að ríkisstj. setti sér það markmið að lántökur opinberra aðila færu ekki fram úr afborgunum af erlendum langtímalánum. Samkvæmt frv. til lánsfjárlaga eru heildarlántökur opinberra aðila 2964 millj. kr., en afborganir opinberra aðila af langtímalánum eru 2935 millj. kr. Af þessu sést að við þetta markmið hefur verið staðið.

Eins og hér hefur komið fram hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. lagt til breytingar á frv. á milli 2. og 3. umr. og þar hefur verið tekið tillit til ýmissa brýnna mála sem úrlausnar bíða, eins og t.d. fiskeldismála, skipaviðgerða og reksturs hitaveitna. Allt eru þetta mál sem þarf að taka á og verður ekki undan því vikist. Það hefur verið ákveðið að freista þess að afla innlends fjármagns til húsnæðislánakerfisins, eins og hér hefur fram komið, og beina þeim vanda til lífeyrissjóðanna. Það hafa komið hér fram efasemdir um að lífeyrissjóðirnir séu færir um að uppfylla þetta en ég hef trú á því að svo sé.

Ég vil drepa á brtt. sem fluttar hafa verið og vil geta um till. Helga Seljan, hv. 2. þm. Austurl., um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum. Ég er sammála honum um að hér er um ákaflega brýnt mál að ræða sem getur skilað hagnaði þegar til lengdar lætur. Nú er fjárhagsleg afkoma fiskimjölsverksmiðja vafalaust betri en hún hefur verið vegna meiri verkefna. Því þykir meiri hl. rétt að binda þetta ekki við ákveðna upphæð heldur beina málinu til langlánanefndar og taka þetta inn í þá upphæð sem atvinnuvegunum er ætluð til erlendrar lántöku. Við tökum undir það að hér er um brýnt úrlausnarefni að ræða og vonum að á það verði litið sem slíkt og ég vil undirstrika það úr þessum ræðustól.

Það hefur verð rætt hér allnokkuð um skerðingarákvæði frv. Þau þykja harkaleg og vissulega eru þau það. Undir það ber að taka. Þau eru harkaleg vegna þess að menn hafa viljað standa við þau markmið sem hér hafa verið sett fram.

Ég vil taka það fram að ég er ekki í þeirra hópi sem telja að það hafi verið of í lagt í Framkvæmdasjóð fatlaðra og vissulega er sársaukafullt að geta ekki uppfyllt þar ýtrustu óskir. En því miður verður svo að vera því að það hefur, eins og hér hefur komið fram, verið tekið til hendinni í þessum málaflokki þó að mörg brýn verkefni bíði úrlausnar.

Ég er þeirrar skoðunar að beina verði erlendum lántökum til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu. Það er grundvallaratriði til þess að atvinnulífið geti skilað okkur arði og til þess að við getum notað þann arð til að vinna að ýmsum brýnum og þörfum félagslegum verkefnum.

Það verður að leita allra ráða til að auka útflutningstekjur okkar. Við megum ekki útiloka erlenda stóriðju í því sambandi eins og Kvennalistinn vill gera og eins og Alþb. vill gera þegar það er í stjórnarandstöðu, eins og hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason kom inn á áðan. Við verðum að horfa eftir öllum möguleikum í því efni, m.a. þeim að stækka álverið ef það þykir hagkvæmur kostur. Og við verðum að vinna að því af fullum krafti að fá erlenda aðila til samstarfs um kísilmálmverksmiðju eins og unnið er að. Ég held að þetta séu grundvallaratriði. Þó að erlend stóriðja verði aldrei burðarásinn í atvinnulífi okkar, og á ekki að vera það, held ég að við verðum að halda þessum möguleikum opnum því að einhæft atvinnulíf er mjög hættulegt fyrir efnahagslíf okkar eins og hér hefur verið tekið fram.

Ég tek ekki undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnari Arnalds að 16 millj. kr. séu smáupphæð. 16 millj. kr. eru allnokkur upphæð og þó að Kvikmyndasjóður sé góðra gjalda verður munar um þessa upphæð í því dæmi sem hér um ræðir.

Það hefur verið fjallað nokkuð um aðgerðir okkar í orkumálum á undanförnum árum og hefur verið deilt hart um þau mál. Við höfum verið taldir halda mikla orkuveislu. Ég ætla ekki að fara að deila um þau mál úr þessum ræðustól nú. Hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan sagði að það hefði verið deilt á fyrrv. iðnrh. fyrir dauða hönd aðgerðarleysis í orkumálum. Ég vil ekki taka undir það. Það var ekki aðgerðarleysi í orkumálum. Menn framkvæmdu mikið, en það sem vantaði í þeim efnum var að sala á orku fylgdi ekki virkjunarframkvæmdum. Við höfum virkjað mjög mikið á undanförnum árum án þess að huga nægilega að því hvort sú orka seldist á viðunandi verði. Ég vil ekki skrifa það á reikning fyrrv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar frekar en annarra. Þessi stefna var uppi í þjóðfélaginu. Menn geta deilt um það endalaust hver beri ábyrgðina í þessum efnum. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að ræða þau mál. Það gefst áreiðanlega tækifæri til þess síðar.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Ég tel að með þessu lánsfjárlagafrv. sé staðið við það markmið ríkisstj. að stöðva skuldasöfnun opinberra aðila við útlönd. Það hefur kostað að við höfum þurft að skera niður framlög til ýmissa þarfra mála. Menn kveinka sér eðlilega undan því. En þetta er nauðsynlegt og það er grundvallaratriði í efnahagslífi okkar að snúið verði ofan af, erlendar skuldir minnkaðar frá því sem nú er og að hið opinbera gangi þar á undan með góðu fordæmi.