16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna anna þingsins skal ég ekki eyða miklum tíma í að lýsa því hér hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Við umræðu um sams konar mál á síðasta þingi gerði ég ítarlega grein fyrir skoðun minni á þessu máli. En ég get verið að því leyti sammála hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að vitaskuld ber að fara eftir lögum um heilsugæslukerfið hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, annars þarf að breyta þeim.

Við umræðu á síðasta þingi lagði hæstv. þáv. heilbrrh. áherslu á að þessu máli yrði ekki frestað einu sinni enn, en efndirnar eru eins og hér blasir við. Ég sé ekki annað en að við séum neydd til að hleypa þessu frv. í gegn. Það er auðvitað enginn tími héðan af til að koma skipan á þessi mál. En það er alveg ljóst að það verður að fara að ganga eftir því hvort fyrirætlun hæstv. ráðh. sé að fara að lögum eða ekki.