16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

145. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar kvótalögin voru sett í upphafi gagnrýndi ég harðlega lögin og alla málsmeðferð. Nú hefur verið komið að nokkru til móts við þessa gagnrýni þannig að innan marka þeirra laga sem hér eru til umræðu ætti að vera unnt að koma við óhjákvæmilegum sveigjanleika. Engu að síður vil ég ekki greiða þessu máli atkvæði. Ég tel eðlilegt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessu máli í heild og greiði því ekki atkvæði. Jafnframt vil ég með afstöðu minni mótmæla stefnu sjútvrh. í sjávarútvegsmálum almennt. Þar er rekstrargrundvöllur að bresta, stórfellt tap blasir við, nauðungaruppboð á skipum eru mánaðarlegur viðburður og kaup fiskverkunarfólks er lægra en nokkru sinni fyrr. Hefur aldrei blasað við hrikalegri mynd í sjávarútvegi landsmanna en nú þrátt fyrir vaxandi afla og mikla eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir útflutningsvörum Íslendinga. Þessari stefnu ríkisstjórnarinnar vil ég í þessari greinargerð mótmæla sérstaklega. Ég greiði ekki atkvæði.

Frv. afgr. til Ed.