16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

186. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. sem felur í sér nánast leiðréttingu á lögum sem samþykkt voru á Alþingi að vori til 1984. Þá var samþykkt breyting á almannatryggingalögum til að tryggja mæðrum fleirbura lengra fæðingarorlof en öðrum. Það hefur komið í ljós við framkvæmd þessa að þegar svo stendur á að börnin eru veik eða það er um sérstök veikindi að ræða fram yfir þau forföll sem tilheyra sjálfri barnsfæðingunni hefur þessi lenging haft í för með sér að móðirin missir réttinn til þessa aukamánaðar vegna veikinda. Þetta hefur ekki komið í ljós fyrr en á slíkt tilfelli reyndi, sem mun hafa verið nú í haust. Til að leiðrétta það misrétti sem skapast af þessum ástæðum og var alls ekki ætlunin þegar þessi lög voru samþykkt er þetta frv. flutt nú. Ég leyfi mér að beina því til hv. nefndar sem málið fær að hún afgreiði það nú fyrir jólahlé.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.