23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það sakar kannske ekki að geta þess hvaða mál er á dagskrá. Það er frv. til l. um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Menn eru beðnir um að taka afstöðu til þess hvort þeir veita afbrigði til þess að þetta mál sé á dagskrá. Síðan eru þm. beðnir um að taka afstöðu til þess með jái eða neii hvort þeir samþykki þetta mál eða hafni. Menn eru ekki beðnir um að leggja efnislegt mat á deiluefnin út af fyrir sig í tilefni af flutningi þessa frv.

Um leið og þetta mál var birt hér á Alþingi notuðu þingflokkarnir væntanlega allir þinghléstímann til að kalla fyrir sig á þingflokksfundi fulltrúa beggja deiluaðila. Það sem kom út úr þeim viðræðum og það sem þær viðræður leiddu í ljós var að ágreiningsefnin eru ekki um eitt heldur um allt. Deiluaðila greinir á um forsögu málsins, aðdraganda þessarar deilu, þá greinir á um hvert tölulegt mat er á framsettum kaupkröfum, þá greinir á um þau tilboð sem fram hafa verið sett af hálfu vinnuveitenda og tölulegt mat á þeim.

Reyndar er ofmælt að þá greini á um ekki eitt heldur allt. Þeir eru sammála um eitt. Þeir eru sammála um að ekki ein einasta tillaga liggur fyrir um lausn málsins og þeir eru sammála um að ekki stoði, meðan kjaradeilan er á þessu stigi, að sáttasemjari leggi fram sáttatillögu. Ég endurtek: Það er engin tillaga til lausnar málinu og hefur ekki komið fram í þessum umræðum önnur en sú sem fram kemur í 2. gr. og hv. formaður samgn. las áðan, m.ö.o. að bjóða upp á kjaradóm og fela honum ákveðnar viðmiðunarreglur. Hverjar eru þær? Að „hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamning, almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf.“.

Þetta er ekki hægt að skilja á annan veg en þann að þegar kjaradómur hefur kveðið þennan úrskurð sinn upp sé flugfreyjum a.m.k. tryggt að þær fái í sinn hlut þau boð sem best voru boðin, þ.e. almennar kjarabreytingar og reyndar öllu heldur - það verður að metast af líkum - að þarna verði farið eitthvert bil beggja milli þess tilboðs og svo mats á þeim kjarabótum sem aðrir flugliðar, flugstjórar og flugvélstjórar, hafa fengið skv. samningnum frá 28. febrúar.

Miðað við þær aðstæður að upplýst er af deiluaðilum að engin sáttatillaga er í bígerð, að verkfallið er skollið á, að engin tillaga liggur fyrir önnur um lausn, geta menn að sjálfsögðu lagt mismunandi mat á þetta. En áhættan, sem tekin er af hálfu flugfreyja að því er þetta varðar, virðist að mínu mati ekki vera mikil.

Hinn kosturinn er áframhaldandi verkfall. Menn geta auðvitað sagt eins og einn talsmaður BJ sagði: „Okkur kemur það ekkert við.“ Ég tek ekki undir þau orð að okkur komi það ekkert við. Við erum hér fulltrúar á löggjafarsamkundu þjóðar sem er sokkin í skuldir. Við erum hér að tala um atvinnuveg við flutninga og ferðaþjónustu sem er gjaldeyrisskapandi.

Við skulum aðeins líta á það hvaða vinnulagsreglur eru hafðar uppi skv. íslenskri löggjöf til að leysa þessi mál. Upplýst er að þessir 6-700 starfsmenn Flugleiða skiptast í 38 stéttarfélög. Upplýst er að kjarasamningar, sem í gildi eru og kveða á um mismunandi kaup og kjör, eru hátt á annað hundrað. Það liggur ljóst fyrir að hver einasti starfshópur, hvert einasta stéttarfélag af þessum 38 hefur út af fyrir sig samningsrétt og rétt til að stöðva þennan atvinnurekstur með verkfallsboðun. Fræðilega séð er ekkert ofmælt að það geti gerst 38 vikur af 52.

Stundum er verið að spyrja um grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingar. Í ræðu, sem reyndar var rökleysa frá upphafi til enda og hv. þm. Steingrímur Sigfússon flutti hér áðan, reyndi hann að vitna til einhverra grundvallarsjónarmiða, grundvallarsjónarmiðs um frjálsan samningsrétt. Hvað er maðurinn að tala um? Fyrir því eru fordæmi - þau eru ekki eitt og þau eru ekki tvö, þau eru fleiri - að allar ríkisstjórnir, með aðild allra þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem hafa átt aðild að ríkisstjórnum, hafa oftar en einu sinni gripið til lagasetningar og íhlutunar um kjaradeilur. Það getur gerst á mismunandi forsendum. Það getur auðvitað ekki gerst ef menn segja að það sé óbrigðult grundvallaratriði að aldrei eigi að hlutast til um kjarasamninga. En hv. þm. getur ekki haft það sér til afbötunar sem málsvörn fyrir sinn flokk, allra síst af öllum ræðumönnum og af öllum flokkum, vegna þess að. fyrir liggur sem söguleg staðreynd að sá flokkur, í hvers nafni hann talar, hefur hlutast til um kjarasamninga á stuttum ríkisstjórnarferli sennilega hlutfallslega oftar en nokkur annar stjórnmálaflokkur. Er fljótlegt að rifja það upp að 14 sinnum hlutuðust þeir til um ákvæði kjarasamninga um vísitölukerfi launa og þeir hafa átt aðild að því með lagasetningu að stöðva verkföll. Þetta getur stuðst við rök. (Gripið fram í: Þrettán sinnum.) Fjórtán sinnum. Þetta getur stuðst við rök.

Hvaða grundvallarsjónarmið erum við að tala um? Er það eitthvert grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingar, hv. þm., að sjálfgefið sé að styðja undir öllum kringumstæðum, í öllum tilvikum, hvar sem er og hvenær sem er, hvaða kaupkröfur sem fram koma, hversu fámennan hóp sem um er að ræða og hver sem málsatvik eru? Auðvitað er það ekki og hefur aldrei verið neitt grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingar.

Mætti ég taka fráleitt dæmi? Þegar upplýst var hér á hinu háa Alþingi um kjarakröfur og kjaramál forréttindahóps hér í þjóðfélaginu - ég vænti þess að enginn vilji snúa út úr orðum mínum nú með því að þar með sé ég að leggja efnislegt mat á það að kjarakröfur flugfreyja séu sambærilegar vegna einhverra forréttinda, en ég nefni dæmi. Þegar við ræddum hér á hv. Alþingi kjaramál bankastjóra sem voru augljóslega dæmi um forréttindi, dæmi um það að bæta átti þeim upp einhverja missu við bílaforréttindi þeirra með því að skenkja þeim 450 þús. kr. á ári þegar upplýst var að þessi fámenni hópur manna hafði búið við þau forréttindi að njóta fullkominna lífeyrisréttinda, halda háum launum sínum þegar þeir láta af störfum án þess að greiða í lífeyrissjóði. Ég bara spyr: Af því að þessi klúbbur, bankastjórar ríkisbanka, nýtur slíkra forréttinda, á það að vera eitthvert grundvallarsjónarmið launþegasamtaka hvar sem er og hvenær sem er að taka undir slíka hluti? Auðvitað er hægt að nefna slík dæmi til að sýna fram á hversu fráleitt það er.

Þetta er röksemdafærsla ad absurdum, hún er fráleit. (GJG: Eru bankastjórar í launþegasamtökum?) Við getum orðað það svo, hv. formaður Verkamannasambands Íslands, að við séum að taka hér dæmi af forréttindahópi sem að vísu semur um kaup sín og kjör við þingkjörin bankaráð. Mig minnir reyndar, hv. formaður Verkamannasambands Íslands, að það hafi verið sjónarmið þess flokks sem heitir Alþýðubandalag að setja ætti þau mál í kjaradóm. Ég var persónulega andvígur því og taldi að bankaráðin ættu að ráða fram úr þessu sjálf en sjónarmið flokks hv. formanns Verkamannasambandsins var að þessu máli ætti að vísa til kjaradóms.

Það er ekkert sjálfgefið við það að núverandi skipan samningamála og kjaramála, skipulag verkalýðshreyfingar, sé í samræmi við grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar og samheldni fólks og „solidaritet“. Auðvelt er að leiða að því rök í þessu þjóðfélagi. Þegar láglaunafólkið í þessu þjóðfélagi, fólkið í fiskvinnslunni, iðnaðinum og versluninni sem er margt að tölu til og er fjöldinn í hinum fjölmennu samtökum eins og Verkamannasambandinu, hefur lagt á sig þungbærar verkfallsfórnir til að knýja fram hlutfallslega litlar kjarabætur getur það gerst að í kjölfarið komi tiltölulega fámennir hópar og í skjóli sterkari markaðsaðstöðu tryggi sér mun betri kjarabætur en þessi fjöldi. Hversu oft hafið þið ekki heyrt talsmenn verkalýðshreyfingarinnar lýsa þessu sjónarmiði og leggja á það áherslu að þarna sé um að ræða grundvallarsjónarmið sem varði „solidaritet“, samstöðu fólks?

Við vitnum til þess að nú um áramótin eru kjarasamningar lausir, nær allir kjarasamningar allra launþega á Íslandi. Í raun og veru er þess vegna hér verið að segja: Miðað við þær aðstæður að ekki er einu sinni samkomulag aðila um að sáttatillaga sé líkleg til lausnar er um það að ræða að fresta þessari kjaradeilu þessar vikur, mánuði til áramóta. Um leið þýðir það að á þessum tíma gefst launþegahreyfingunni í heild, verkalýðshreyfingunni, starfsmönnum í þessum þjónustu- og ferðamannaiðnaði, sem heitir m.a. flutningastarfsemi Flugleiða, ráðrúm til að reyna að skapa einhverja samstöðu um það hver skal vera launastefna launþegasamtakanna, hvar þeirra „solidaritet“-sjónarmið er.

Við skulum taka dæmi af þessum ferðamannaiðnaði og þessum flutningaiðnaði sem við erum hér að ræða. Ég sagði: 38 stéttarfélög, eitthvað á annað hundrað kjarasamningar. Hver er launamunurinn innan þessarar atvinnugreinar? Mér sýnist í fljótu bragði að hann sé ekki minni en einn á móti níu, þ.e. það starfsfólk í þessum iðnaði, sem ber minnst úr býtum, hefur væntanlega laun innan við 16 þús. kr. á mánuði en upplýst var á þessum fundum að flugstjórar, væntanlega þeir hæst launuðu, hefðu oft og iðulega laun yfir 130 þús. kr. á mánuði. Ég spyr: Er það skv. grundvallarsjónarmiðum verkalýðshreyfingar og launþega í þessum iðnaði að viðhalda launamun upp á 1 á móti 9?

Það er fárra kosta völ. Einn kostur er sá að halda þessu verkfalli áfram nokkra daga, jafnvel lengur. Mitt mat er að það muni ekki leiða til neins árangurs, m.a. vegna þess að innan skamms tíma eru allir kjarasamningar lausir. Flugfreyjur munu ekki ná á þeim tíma, með þeim aðferðum og við þessar aðstæður fram sínum kröfum. Ég efa reyndar að þrátt fyrir þær fórnir næðu þær fram betri niðurstöðu til skamms tíma en fælist í úrskurði kjaradóms sem byggðist á því að tryggja þeim sambærilegar launahækkanir, ekki aðeins við hinn almenna launamarkað heldur líka miðað við gerða samninga við flugstjóra og aðra flugáhafnarmeðlimi.

Ég vísa á bug sem fjarstæðu því sjónarmiði að það sé eitthvert grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingar eða þeirra flokka sem sprottnir eru úr þeim j arðvegi að taka undir öllum kringumstæðum undir allar kröfur, hvar sem er og hvenær sem er. Ég er alveg reiðubúinn til að leggja á það mat hverju sinni hvað sé skynsamlegast að gera við hverjar aðstæður. Ég vísa því á bug að það sé grundvallarsjónarmið að undir engum kringumstæðum megi nokkurn tíma hlutast til um gerða kjarasamninga einfaldlega með vísan til þess rökstuðnings að heildarsjónarmið launþega, launastefna launþega, viðleitni þeirra til að draga úr launamun, og reyndar heildarhagsmunir þjóðarbús geta réttlætt það á stundum að til slíkrar íhlutunar komi.

Ég minni á að megnið af því sem fram fer á þessu hv. Alþingi, megnið af þeirri lagasetningu, sem héðan kemur, er ekkert annað en íhlutun í tekjuskiptingarferilinn, í kaup og kjör fólks hér á landi.

Við stöndum hér uppi í þjóðfélagi þar sem launakerfi er í raun og veru allt í rúst, þar sem hinn breiði massi fólks býr við lágmarkstaxta sem verkalýðshreyfingin knýr fram en mjög margir fjölmennir og margvíslegir hópar fólks tryggja sér bætt kjör umfram það í skjóli sterkrar markaðsaðstöðu eða vegna fámennis. Ég hef heyrt alla verkalýðsleiðtoga og nærri því úr öllum flokkum lýsa yfir óánægju sinni með þetta kerfi. Ég minni á að Alþýðusamband Íslands hefur hvað eftir annað, reyndar í aldarfjórðung, lagt fram stefnumarkandi tillögur um nauðsyn á breytingu á skipulagi verkalýðshreyfingarinnar. Hvernig þá? Til þess m.a. að koma í veg fyrir það ástand að fólki á vinnustöðum sé sundrað í margvísleg stéttarfélög.

Það er mjög algengt ef þið gangið hér um vinnustaði í Reykjavík í miðlungsstórum fyrirtækjum að fólki sé tvístrað í tíu stéttarfélög. Allur fjöldinn er kannske í Dagsbrún, Iðju eða Verslunarmannafélaginu en síðan koma aðrir sem sinna sérhæfðari störfum, fámennari hópar í öðrum félögum. Hversu oft höfum við ekki upplifað það að þeir hafa tryggt sér, ýmist í skjóli sérsamninga eða í skjóli sterkari markaðsaðstöðu, betri kjör í formi launaskriðs, launagreiðslna undir borð eða annarra fríðinda? Hversu oft hafa ekki verkalýðsleiðtogar kvartað undan þessu? Hversu lengi ætla þeir hins vegar að bíða með að gera eitthvað til að framfylgja sjálfsögðum og skynsamlegum tillögum um breytingar á skipulagi verkalýðshreyfingar sem kæmu í veg fyrir það ástand að fólkinu, sem starfar hjá Flugleiðum, sé tvístrað í 38 stéttarfélög með þeim afleiðingum að öll viðleitni til launajöfnunar, til að auka samheldni þessa fólks, líta á mál í heild, leysa kjaramál í heild á sama tíma fer út um þúfur? (GHelg: Heldur þm. að flugmenn vilji vera í sama félagi og flugfreyjur?) Ég vildi benda þm. á að það væri kannske grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingar að reyna að tryggja að flugmenn og flugstjórar yrðu til þess knúnir að vera í sama stéttarfélagi og flugfreyjur og aðrir starfsmenn.

Ég minni á að við búum hér við vinnulöggjöf sem á sínum tíma var sett af Alþingi. Þá gerðist það að fólk, sem tilheyrði flokki sem þá hét Kommúnistaflokkur Íslands, kallaði þetta hin verstu þrælalög og setti á svið gífurlega harða baráttu gegn slíkri lagasetningu.

Þessi lög höfðu ekki fyrr verið sett en þessir sömu menn lýstu því yfir að þessi löggjöf væri einhvers konar manna af himnum, stjórnarskrárvernduð mannréttindi og nærri því óumbreytanleg um aldur og ævi. Auðvitað var hún hvorugt, þetta voru ekki þrælalög á sínum tíma heldur markverður ávinningur fyrir verkalýðshreyfinguna, reyndar löggjöf, ef borið var saman við evrópska löggjöf á þeirri tíð, sem tryggði réttindi verkafólks mjög verulega. Það var þess vegna fjarri sanni að þetta væru þrælalög.

Hitt er annað mál að þetta þjóðfélag er óþekkjanlegt með öllu frá því sem það var 1938. Fjölbreytni atvinnulífs hefur vaxið svo mjög og allar aðstæður að það er sjálfsagt og viðurkennt af verkalýðshreyfingunni með samþykktum þess í 25 ár að verkalýðshreyfingin lagi sig að þessum breyttu starfsháttum og taki upp skipulagsreglu sem er algild því sem næst fyrir verkalýðshreyfingu alls staðar í Vestur-Evrópu, með undantekningunni Bretland, með frægum árangri.

Ég nefni þetta vegna þess að menn hafa dregið hér inn í þessa umræðu spurningu um grundvallarsjónarmið. Ég lýsi þeirri skoðun minni að hv. þm. Steingrímur Sigfússon hafi engar sönnur fært á það í sínu máli að hann hafi, með því að lýsa andstöðu við þetta mál, stuðst við nein grundvallarsjónarmið. Ég rifja upp að sögulegar staðreyndir eru þær, fordæmin eru þau að við slík grundvallarsjónarmið er ekki hægt að styðja sig.

Ég skal ekki hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég vísa á bug öllum ákærum í garð okkar Alþýðuflokksmanna um nokkurn mistrúnað við eðlileg grundvallarsjónarmið vinnandi fólks eða verkalýðshreyfingar þótt svo að við við þessar kringumstæður styðjum þessar tillögur.

Ég minni á að í öllum þessum umræðum og því langa máli, sem hér hefur verið flutt, hefur ekki einn einasti aðili flutt eina einustu tillögu um hvernig ætti að leysa þetta efnislega, enda skal það fram tekið að það er ekki hlutverk Alþingis að leggja fram þá efnislegu lausn, Alþingi er ekki til þess bært. Þessi tillaga felur það ekki í sér. Ef samningsaðilar geta það ekki og hafa ekki getað það er við þessar kringumstæður eðlilegast að það verði reynt.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði í ræðu sinni áðan að erfitt væri að ætlast til þess af Alþingi og þingnefndum að þau afgreiddu slík mál í stað þess að kalla til óháða aðila eins og Þjóðhagsstofnun til að kveða upp úrskurð. Þjóðhagsstofnun á ekki að kveða upp þann úrskurð. Hún getur lagt fram eitthvert mat á tölulegum staðreyndum. Við höfum sáttasemjara til að leggja fram sáttatillögu. Það liggur ljóst fyrir að aðilar hafa ekki getað komið sér saman um þetta mat. Tillaga um að mynda hlutlausan kjaradóm aðila tilnefndra af Hæstarétti til að meta málsgögn aðila er einmitt þetta sem hv. þm. var að fara fram á að yrði gert en það er bara ekki hlutverk Alþingis.