16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er komið frá hv. Ed. og er flutt vegna þess alvarlega sjúkdóms sem upp hefur komið og borist því miður allvíða um lönd. Er hann í þessu frv. nefndur alnæmi eða í erlendri styttingu AIDS. Hér er um að ræða þvílíkan vágest sem við höfum á síðari árum ekki þekkt, ekki síðan menn fundu lækningu við alvarlegum sjúkdómum eins og berklum t.d. Berklar voru ólæknandi þegar berklavarnalögin voru fyrst sett. Að því leyti til má segja að svipað standi á og nú um alnæmi. Sama er að segja um sárasótt eða sýfilis. Það var ólæknandi sjúkdómur þegar lögin um varnir gegn kynsjúkdómum voru sett á sínum tíma. Sem betur fer horfir öðruvísi um þá sjúkdóma nú og auðvitað vonumst við til þess að vísindum fleygi svo fram að menn finni lækningu við þessum alvarlega sjúkdómi þó að ekki bendi, því miður, neitt til að það geti orðið á næstunni að sögn lækna. En auðvitað höfum við leyfi til þess að vona að svo verði þó.

Hvað sem því líður munu læknar vera sammála um að hér sé um kynsjúkdóm að ræða vegna þess að algengustu smitleiðir eru með sama hætti og annarra kynsjúkdóma. En það gildir um þennan kynsjúkdóm eins og svo marga aðra að hann getur líka smitast við blóðgjöf og með öðrum hætti. Um þetta eru menn sammála. Það er þó misjafnt hvort menn hafa í löndum sérstök kynsjúkdómalög, eins og er hér á landi og víðar, eða hvort uppbygging löggjafarinnar er með öðrum hætti og ekki sett sérstök lög um kynsjúkdóma. Þar sem svo stendur á, eins og t.d. er í Bretlandi, hafa heilbrigðisyfirvöld enn þá rýmri heimildir til að ákveða sjálf hvernig með skuli fara þó að lögin tilgreini það ekki sérstaklega. T.d. er þar um það að ræða að upplýsingar um sjúkdóma og smitleiðir og heimildir til að leggja inn sjúklinga, í sumum tilfellum gegn vilja þeirra, fara eftir ákvörðun heilbrigðisyfirvalda á grundvelli víðtækrar heimildar í lögunum. Í bresku lögunum er fyrst tekið fram að fyrirkomulagið eigi að vera mjög frjálst, eins og á ýmsan veg sem þar er upp talið, en síðan er gerður fyrirvari um að „þegar nauðsyn beri til af læknisfræðilegum ástæðum eða til þess að koma í veg fyrir smitleiðir“ sé heilbrigðisyfirvöldum gefið rýmra svigrúm til að grípa í taumana og haga bæði skráningu og innlögnum með þeim hætti sem þau ákveða sjálf.

Í heilbrrn. hefur þetta frv. verið undirbúið eða öllu heldur af hálfu landlæknisembættisins. Í vor sem leið var bent á það af hálfu landlæknisembættisins að nauðsynlegt væri að hafa í lögum ákvæði um réttarstöðu manna gagnvart aðgerðum gegn útbreiðslu þessa sjúkdóms. Þegar menn höfðu athugað það mál betur þótti skynsamlegast og einfaldast að bæta þessum sjúkdómi í upptalningu kynsjúkdómalaganna á þeim sjúkdómum sem undir þau lög heyra. Einnig hefur verið bætt við þá upptalningu sjúkdómnum þvagrásarbólgu eða chlamydiae-sýkingum. Þetta tvennt yrðu breytingarnar á núgildandi lögum.

Í núgildandi lögum eru ákvæði um brýna þagmælsku lækna og leynd á meðferð mála samkvæmt ósk sjúklinga, en þar er sams konar ákvæði og í bresku lögunum, en þar stendur: „nema brýna nauðsyn beri til af læknisfræðilegum ástæðum eða til að hindra útbreiðslu sjúkdóma“.

Ég hygg að flestir séu sammála um að nauðsynlegt sé að í löggjöf okkar séu ákvæði sem taki af tvímæli um réttarstöðu í þessu sambandi og einnig til þess að gera auðveldara að fylgjast með útbreiðslu þessa sjúkdóms. Það er eitt af því sem hlýtur að greiða fyrir því að við getum spornað gegn sjúkdómnum. Slíkt verk er verið að vinna í flestum löndum heims nú og skýrslum um það skilað til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Auðvitað eigum við kannske hægara um vik en margar aðrar þjóðir vegna fæðar okkar. Þess vegna er líka hægara fyrir okkur að koma við ákvæðum laga þegar þess gerist þörf. Sum ákvæði þessara laga þarf vitaskuld ekki að nota nema í undantekningartilfellum, en ég er þeirrar skoðunar að það sé öryggisatriði fyrir heilbrigði manna á Íslandi að slík úrræði séu fyrir hendi.

Það er eiginlega þrennt sem fram hefur komið um þetta mál sem mótbárur og er á misskilningi byggt.

Í fyrsta lagi að Ísland sé eina landið í veröldinni sem telji AIDS vera kynsjúkdóm. Það er mjög alvarlegur misskilningur og þarf ekki að fara nánar út í það. Ég held að hv. þm. viti það.

Í öðru lagi hef ég heyrt það á máli sumra manna að þeir telja að hér skipti einhverju höfuðmáli refsiákvæði laganna og segja sem svo: Hví skyldum við þurfa þessi lög þegar refsiákvæði almennra hegningarlaga eru fyrir hendi ef menn breiða út smitnæman sjúkdóm? Málið snýst ekki um þetta. Refsiákvæði almennra hegningarlaga eru miklu harðari en það sem er í þessum lögum. Í þessum lögum, eins og í öllum lögum þar sem skylda er felld á borgarana, eru jafnan einhvers konar refsiákvæði eða sektarákvæði. Það er í þessu tilfelli sektarákvæði ásamt þessum orðum: „nema þyngri refsing liggi við í öðrum lögum“ og þá að sjálfsögðu í hegningarlögunum. Þetta er ástæðan fyrir ákvæðinu sem er mildara en hin almenna refsing í hegningarlögum.

Þriðja atriðið sem menn hafa haft uppi sem mótbáru gegn þessu máli er ákvæði kynsjúkdómalaganna um skráningu sjúklinga. Okkar lög eru e.t.v. að því leyti til frábrugðin lögum sumra annarra þjóða um þetta efni að við erum með nákvæmara ákvæði í lögum en margar aðrar þjóðir sem hafa það í hendi sinni, samkvæmt rúmri heimild, hvernig skráningu er hagað. Þetta ákvæði hefur orðið til þess að á það hefur verið bent, m.a. hér í þingi, að lagaákvæðið kunni að vera svo nákvæmt að það geri einhverja feimnari en ella við að leita til læknis. Að vísu er það svo að þetta ákvæði, sem verið hefur um árabil í íslensku lögunum um varnir gegn kynsjúkdómum, virðist hafa reynst vel og aldrei verið um það kvartað að leynd hafi ekki verið haldið. Menn ættu að geta treyst því að svo verði áfram, enda hafa lögin borið góðan árangur.

Lögin um kynsjúkdóma voru upphaflega sett 1932 svo að það er allnokkur reynd komin á þetta mál. Hitt er svo annað mál að ég tel að fundist hafi leið, og það er reyndar landlæknir sem hefur bent á hana, til að leysa úr þessu máli, þannig að þeir sem óttast sérstaklega eða hafa sérstaklega á móti orðalagi þessa ákvæðis í íslensku lögunum, um að skráð skuli með fæðingarnúmeri o.s.frv., ættu að geta vel við unað. Ég hygg að þeirra óskum sé algerlega fullnægt með þeirri hugmynd landlæknis að á eyðublaðið, sem ætlast er til að það embætti sendi öllum læknum, sé jafnframt skráð í sérstakan reit að þeir sjúklingar sem leita læknis vegna AIDS-smitunar eða athugunar á því geti, ef þeir óska þess, fengið fæðingarnúmer sitt skráð með sérstökum lykli sem væri eins konar dulmálslykill, það væri tiltekin reikniformúla sem eingöngu læknirinn og landlæknir vissu um. Ég veit satt að segja ekki hvernig væri unnt að tryggja rækilegri leynd en með þessu móti ef á annað borð á að vera hægt að fylgjast með útbreiðslu sjúkdómsins. Ég held að það væri miklu rækilegri leynd sem fælist í þessu en nokkurn tíma í þeim ákvæðum t.d. sem gilda um þetta í Svíþjóð. Svíar, sem mjög hefur verið vitnað til um þetta efni, haga sinni skráningu þannig að þegar maður leitar læknis til að kanna hvort hann hafi fengið smit af þessum sjúkdómi þarf hann ekki að skrá nafn sitt. Það er einungis skráð fæðingarár og hérað og viðkomandi læknir hefur nafnið. Honum ber hins vegar að gefa upp nöfn þeirra sem hann telur e.t.v. að hafi smitast af sér og af hverjum hann telur að hann hafi smitast. Þau nöfn eru skráð og þegar viðkomandi koma til rannsóknar eða eru kallaðir til rannsóknar er þar gerð miklu rækilegri skráning en nokkurn tíma væri gert ráð fyrir í íslensku lögunum og sérstaklega með þeirri framkvæmd sem ég hef nefnt að landlæknir væri reiðubúinn að framfylgja. Við gætum, að því er ég tel, gengið frá þessu máli á þann veg að nefndin tæki fram að hún teldi að framkvæmdinni ætti að haga með þeim hætti.

Þetta tek ég fram í öllum þessum smáatriðum, herra forseti, vegna þess að ég hef orðið vör við að menn telja að hér kunni e.t.v. vera farið inn á nýja braut. Hér er hugmynd sett fram um það hvernig enn er hægt að milda þau ákvæði sem hér um gilda. Ég mun að sjálfsögðu setja reglur um það fyrir landlækni í þá veru sem ég hef nefnt ef nefndin í hv. Alþingi óskar þess. Þó að það sé auðvitað ekki löggjafaratriði finnst mér samt rétt að gera hv. þingmönnum grein fyrir þessu.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa frekari orð um þetta. Það er misskilningur að í lögum séu ákvæði sem ná yfir þau atriði sem hér væri um að ræða. Jafnvel þó að linað væri á framkvæmd skráningar eru ekki úrræði í lögum til að framkvæma þær aðgerðir gegn útbreiðslu sjúkdóms sem kynsjúkdómalögin gera ráð fyrir.

Mér er ljóst að þetta er mál sem margir hafa áhyggjur af og ég tel að heilbrigðisyfirvöldum og löggjafanum líka beri að gera þær ráðstafanir sem unnt er til að stemma stigu við útbreiðslu þessa sjúkdóms, það sé jafnt í þágu hagsmuna þeirra sem ekki hafa sýkst, hinna sem kunna að hafa smitast og mjög í þágu þeirra sem kallaðir eru áhættuhópar í þessu sambandi. Þess vegna tel ég að við megum ekki kynda undir þann misskilning að ekki sé unnt að halda fullkominni nafnleynd að þessu leyti til, og m.a.s. meiri en túlkun laga samkvæmt orðanna hljóðan yrði, með því að framkvæma skráninguna með þeim hætti sem landlæknir hefur stungið upp á að gert yrði. Ég tel að það sé alveg hægt innan ramma þessara laga og það gerbreyti málinu í ljósi þeirra raka sem fram hafa verið sett í sambandi við það. Það segir sig sjálft að hér er ekki um að ræða skrá sem gengur inn í almenna sjúkrahússkrá. Því fer fjarri, enda segir í lagagreininni að þetta sé sérstök skrá sem landlækni beri að halda til haga. Með því að einungis læknirinn og landlæknir hafi talnalykil að númerinu tel ég að þess sé gætt mjög rækilega að persónulegum upplýsingum sé haldið eins leyndum og unnt er. Það mundi líka afstýra því að menn væru með alls kyns getsakir, menn væru að geta sér til um eitt og annað. Ef menn vita að frá þessu er gengið með þessum hætti held ég að málið væri allt miklu öruggara fyrir alla, bæði áhættuhópana og allan almenning í landinu.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og ég ítreka að ég tel það öryggisatriði að slík lög séu sett sem fyrst.