16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Mál það sem hér er á dagskrá er tvímælalaust eitt afdrifaríkasta mál sem fjallað verður um á yfirstandandi löggjafarþingi. Líf og heilsa þjóðar og varnir gegn lífshættulegum sjúkdómum eru öllum öðrum málum afdrifaríkari og því er ábyrgð hv. þm. mikil þegar rætt er um hvernig bregðast skuli við nýjum og áður óþekktum sjúkdómi sem nú herjar á mannkynið og engin lyf eru fundin við. Í þeirri umræðu eiga engir fordómar heima, heldur getur árangur í baráttunni við þennan nýja óvin verið undir því kominn að skynsemin ein ráði för og menn haldi stillingu sinni.

Um það getur ekki verið ágreiningur á hinu háa Alþingi að allt sem í mannlegu valdi stendur verður að gera til að hefta útbreiðslu þessa skelfilega sjúkdóms og jafnframt til að styðja vísindamenn í baráttunni við hann. Hér er því einungis um það deilt hvernig það verður best gert. Um það urðu menn ekki sáttir í hv. Ed. Sú var því von okkar að hæstv. ráðh. hefði þá biðlund að mæla ekki fyrir frv. í hv. Nd. þegar svo miklar annir steðja að, en þar sem hún hefur nú mælt fyrir frv. verður ekki hjá því komist að hafa uppi andsvör.

Frv. það sem liggur frammi á þskj. 101 ber þess glögg merki að lítt hefur verið til þess vandað. Það vekur athygli að grg. með svo mikilvægu lagafrv. skuli vera svo gjörsamlega snauð að upplýsingum um feril og eðli þessa banvæna sjúkdóms sem hér er um fjallað. Það er vægast sagt óvenjulegt að í þskj. sé prentaður stuttaralegur upplýsingabæklingur landlæknisembættisins eins og hann liggur fyrir handa almenningi í stað þess að frv. fylgdu ítarlegri læknisfræðilegar skýringar ásamt upplýsingum um hvernig nágrannaþjóðir hafa farið að í þessum vanda. Hafi þm. lítið fylgst með þeirri umræðu sem farið hefur fram víða um heim um alnæmi og viðbrögð við því eru þeir engu nær eftir lestur greinargerðarinnar. Hún er því engu þjóðþingi sæmandi eins og hún liggur fyrir og því síður nokkru heilbrigðisráðuneyti.

Í hinu íslenska lagasafni er að finna nokkra lagabálka um varnir gegn hættulegum sjúkdómum. Má þar nefna farsóttalög frá 1958, sóttvarnalög frá 1955, lög um ónæmisaðgerðir frá 1978, berklavarnalög frá 1939, þrenn lög um varnir gegn holdsveiki frá 1898 og frá 1909, þá eru þar einnig lög til varnar gegn fýlasótt, hvað sem það nú er, frá 1940, en sá sjúkdómur mun lítt þekktur hér að mér skilst, og loks er þarna að finna lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978. Frv. það sem við fjöllum nú um felur einmitt í sér að alnæmi skuli falla inn í þau lög.

Áður en ég vík nánar að því vil ég gefa þess að öll þessi lög þarfnast endurskoðunar eða nær öll með tilliti til breyttra tíma, og að mínu viti nægði að hafa einn lagabálk um hættulega sjúkdóma og varnir gegn þeim, rammalög sem landlæknir og heilbrigðisyfirvöld styddust við við útgáfu reglugerða um ráðstafanir sem nauðsynlegar eru hverju sinni þegar hættulegir sjúkdómar herja á. Þar verður faglegt mat að ráða ferðinni og sagan sýnir að mikill árangur hefur náðst í baráttunni við hættulega sjúkdóma hér á landi með góðri samvinnu heilbrigðisstétta og ráðamanna.

Hinn nýi sjúkdómur, alnæmi, er um margt sérkennilegur. Við honum er engin lækning fundin og sjúklingur leitar ekki læknis fyrst og fremst vegna einkenna um hann, heldur af því að nokkuð er vitað hvernig hann smitast. Yfirgnæfandi líkur eru á að smithætta sé mest við samfarir karlmanna. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við að flokka hann undir kynsjúkdóma þó að um það megi vissulega deila. Hins vegar má spyrja hvort nauðsyn sé á að flokka hættulega sjúkdóma eftir eðli þeirra fremur en að ein lög gildi um þá og heilbrigðisyfirvöld meti svo hverju sinni hvernig best sé að bregðast við. Og einmitt í því tilviki sem hér um ræðir verður spurningin áleitin.

Í lögum um varnir gegn kynsjúkdómum eru ákvæði sem skylda lækna til að tilkynna landlæknisembættinu um nafn og fæðingarnúmer hvers þess sem smit greinist hjá og jafnframt skal sjúklingur tilgreina hver hafi hugsanlega smitað. Skal þá haft upp á honum eða henni og gilda refsingarákvæði við að bregðast ekki við því samkvæmt vilja heilbrigðisyfirvalda.

Nú er það svo að samlíf samkynhneigðs fólks er langt frá því viðurkennt fyrirbæri í samfélagi okkar þó að um slíkt hafi verið vitað frá því að saga mannkyns hófst. Stór hópur fólks fer því með þann þátt lífsins sem mannsmorð og er óljúft að hafa hann nokkurs staðar skráðan. Það er því ekki úr vegi að minna menn á till. til þál. sem hér liggur fyrir. 1. flm. hennar er hv. þm. Kristín Kvaran. Sú till. fjallar um mannréttindi eða öllu heldur bann við mismunun á réttindum samkynhneigðs fólks. Væri ekki úr vegi að hv. alþm. litu vandlega á það mál þegar fyrir því verður talað hér.

Þetta fólk á ekki auðvelda daga í svo litlu samfélagi sem hér. Af því leiðir að samkynshneigt fólk verður alla jafna ekki þeirra forréttinda aðnjótandi að búa í sambýli við aðra manneskju og verður því að leita víðs vegar að félagsskap í meira mæli en aðrir. Með tilliti til að mjög langur tími getur liðið frá smitun alnæmis og þar til það greinist verður trúlega í mörgum tilvikum ærið erfitt að grafa upp hvaðan smit gæti stafað. Hætta er á því að skráningarskylda yrði fremur til að letja menn til að leita rannsóknar en til að hvetja þá og þá er lagafrv. þetta meira til skaða en gagns.

Ég minntist áðan á að upplýsingar vantaði um viðbrögð nágrannaþjóða. Ég hef aflað mér um þau nokkurra upplýsinga.

Svíar hafa sett lög sem kveða á um að læknir skrái einungis tvo fyrstu og fjóra síðustu stafi af 10 stafa nafnnúmeri þess sem rannsóknar leitar. Þar er því hægt að finna nafn í tölvu, en því aðeins að það sé nauðsynlegt. Svipuð regla gildir í Noregi. Í Bretlandi eru ströng ákvæði um fyllsta trúnað læknis og sjúklings og hið sama gildir í Þýskalandi. Í öllum þessum löndum er talið óhugsandi að sjúklingur tilkynni lækni um hugsanlegan smitbera sem síðan yrði leitaður uppi af yfirvöldum. Menn eru miklu fremur þeirrar skoðunar að með samvinnu og trúnaði við sjúkling og upplýsingum um hvernig hann getur best lifað lífi sínu geri sjúklingurinn sjálfur allt sem í hans valdi stendur til að hindra frekari smitun. Öll áhersla er lögð á samvinnu við fólkið í landinu en ekki lagaboð sem litla merkingu hafa og jafnvel neikvæð áhrif.

Þess vegna, herra forseti, lýsi ég andstöðu minni við þetta frv. að svo komnu máli. Vel má vera að síðar verði nauðsynlegt að setja lög um varnir gegn alnæmi, en vanhugsuð lagasetning sem þessi þjónar engum tilgangi og er að mínu mati hættuleg.

Minna má á það, sem margir virðast gleyma, að hér er ekki einungis um að ræða homma sem sérstakan áhættuhóp. Í okkar landi sem öðrum lifir fjöldi manna tvöföldu kynlífi, bæði með konum og körlum, auk þess sem fjöldi manna leitar á vit götukvenna sem reynst hafa smitberar. Þessir menn sækjast lítt eftir að verða skráðir hjá yfirvöldum þar sem allir Íslendingar vita hversu mikill misbrestur er á trúnaði starfsfólks sjúkrahúsa við sjúklinga.

Ég leyfi mér að halda þessu fram og bið hæstv. heilbr.- og trmrh. að hlusta á þau orð, mín því að óteljandi dæmi eru um siðlaust slúður um sjúkdóma samborgara okkar sem rekja má beint til starfsmanna sjúkrahúsanna sjálfra. Skaðar ekki að minna yfirmenn þessara stofnana á að slíkt ætti auðvitað aldrei að geta gerst. En þetta gildir ekki minnst um þá sjúkdóma sem erfiðastir eru og mestir fordómar gagnvart, svo sem t.d. geðsjúkdóma, og mætti þá hugsa sér hver biti alnæmi einhvers samborgarans væri í skolta slefberanna. Hver getur því sagt sér sjálfur að menn, sem tekst að eiga venjulegt fjölskyldulíf þrátt fyrir annars konar kynlíf en algengast er, kæra sig lítt um að komast á skrár þeirra, enda ekki séð hvers hamingju það þjónar.

Ótti minn, herra forseti, er að eðli þessa sjúkdóms, alnæmis, valdi því að fordómar hafi áhrif á viðbrögð við honum í stað þess að meginatriði málsins er hversu hættulegur hann er og að engin lyf eru við honum fundin. Ljóst er þó, og það ættu þeir hv. alþm. að vita sem stýra eiga velferð landsmanna á hverjum tíma og þar með að hafa þá víðsýni og skilning á mannlegu lífi og mannlegu eðli, að allt fólk lifir einhvers konar kynlífi og þess vegna erum við öll í hættu. Við erum öll áhættuhópur þó í mismiklum mæli sé. Það sem sumum þykir ógeðfellt í þessum efnum er öðrum fullkomlega eðlilegt. Það á engin áhrif að hafa á viðbrögð við lífshættulegum sjúkdómi sem öllum stafar hætta af þó að í mismiklum mæli kunni að vera. Það er okkur öllum fyrir bestu að samvinna náist milli landsmanna og yfirvalda, samvinna sem byggist á trúnaði og gagnkvæmri virðingu.

Að lokum, herra forseti, vil ég leyfa mér að varpa fram hugmynd sem ég bið heilbrigðisyfirvöld að íhuga. Ísland er um margt æskilegur vettvangur rannsókna á ýmsum sjúkdómum og þar með á alnæmi. Lega landsins og mannfæð gera freistandi að rannsaka feril og útbreiðslu alnæmis á vísindalegan hátt. Sú er þess vegna hugmynd mín að leitað verði til alþjóðaheilbrigðisstofnana um fjárhagsaðstoð til að gera hér allsherjarrannsókn á einhverju árabili, þ.e. að hvert mannsbarn verði rannsakað á sama hátt og áður var unnið að berklarannsóknum með alkunnum og víðfrægum árangri. Íslendingar eiga vel menntaða vísindamenn með mikla reynslu svo að slíkt verkefni ætti að vera framkvæmanlegt. Við höfum þegar á að skipa vísindamönnum sem kunnir eru meðal annarra þjóða fyrir veirurannsóknir og hér gæti unnist ómetanlegt gagn fyrir mannkyn allt.

Raunar hef ég orðað þessa hugmynd við landlækni og sagði hann „að heyrt hefði hann vitlausari hugmynd“.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur kynnt hér hugmyndir að skráningarformi vegna þess að henni hefur verið ljóst að andstaða er gegn frv. Ég hef kynnt mér þær hugmyndir sem þar eru uppi og tel þær satt að segja ekki til mikillar hjálpar. Ég held að þau ákvæði sem er að finna í lögum um varnir gegn kynsjúkdómum geri það samt sem áður að verkum að það verði þessu máli heldur til skaða en gagns að frv. það sem hér liggur fyrir nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég bið hv. alþm. að íhuga vandlega afstöðu sína til þessa máls áður en rokið er til að samþykkja frv., en jafnframt vara ég við að þetta mál verði erfitt deilumál hér á hinu háa Alþingi. Allir eru sammála um nauðsyn aðgerða. Málið snýst um hvernig best og skynsamlegast verði að því unnið að hindra útbreiðslu þessa skelfilega sjúkdóms. Það er aðalatriðið og það sem við ættum að vera hér um að fjalla.