16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

169. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um tollskrá. Þetta frv. er flutt í tengslum við þá ákvörðun að fresta breytingu á tollalöggjöf og vörugjaldsinnheimtu, en með lögum nr. 83/1981 var fjmrh. veitt tímabundin heimild til þess að leggja jöfnunarálag á hús og húshluta í tilteknum tollskrárnúmerum: Gjaldtöku þessari var ætlað að rétta hlut innlendrar húsgagnagerðar gagnvart aukinni samkeppni erlendis frá. Átti álagið að samsvara uppsöfnuðum gjöldum af efnivöru í innlendri framleiðslu, en ýmis hátollavara til húsbygginga ber lægri aðflutningsgjöld ef hún er flutt inn með húsi eða húshluta en hún ber ef hún er flutt inn sérstaklega. Álagning þessa gjalds hefur síðan verið framlengd fyrir eitt ár í senn

Þar sem gert er ráð fyrir að aðflutningsgjöld og sérstakt vörugjald haldist áfram óbreytt á næsta ári verða forsendur gjaldtökunnar óbreyttar og þykir því eigi fært að fella gjaldið niður um n.k. áramót. Því er lagt til að þessi lagaákvæði framlengist um eitt ár svo sem venja hefur verið til.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni þessa frv., en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.