23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er ógæfulegt að standa hér 24. október og ræða frv. til l. um lögbann á verkfall kvenna sem leita sér kjarabóta. Reyndar ætluðu þingkonur allar að ganga úr þessu húsi á þessum degi en vegna eðlis málsins og þess hve umræða hefur hér dregist þá munum við halda áfram umræðum.

Síðar í dag mun væntanlega mikill fjöldi kvenna leggja niður störf og minnast þess sem áunnist hefur og líta til þess sem fram undan er í baráttu kvenna fyrir bættum hag. Ég vil minna hv. þm. á að það var ekki að ástæðulausu sem mikill meiri hluti íslenskra kvenna lagði niður vinnu þann 24. október fyrir tíu árum. Því miður hefur þó kjaramálum kvenna ekki þokað það mikið áleiðis síðan að enn er langt í land.

Þær konur sem hér heyja kjarabaráttu, flugfreyjur, vinna hefðbundin kvennastörf, þ.e. þjónustustörf til að auka vellíðan manna, og þessi störf eru unnin við erfiðar aðstæður oft utan venjulegs dagvinnutíma uppi í háloftum. Þau krefjast jafnframt fjarvista frá heimili auk þess sem talsverður hluti vinnutímans fer í ferðir og bið. Í þeim hóp þar sem þær vinna eru þær lægst launaðar en vinna þó jafnhliða þeim sem einna hæst eru launaðir í þjóðfélaginu. Til þess að bæta kjör sín gera þær kröfur sem nú hafa leitt til verkfalls og vinnuveitendur þeirra segjast ekki hafa getað séð sér fært að mæta þessum kröfum um vaktaálag, m.a. vegna þeirra auknu kaupkrafna annarra starfsmanna sem þeir telja að muni fylgja í kjölfarið.

Það kom fram í máli hv. 5. landsk. þm. hér fyrr í umræðunum að honum þótti það engan veginn viðeigandi að Alþingi tæki þátt í umræðu um kaupsamningamál fyrirtækis úti í bæ. Þar ættu menn að ráða sínum málum sjálfir en Alþingi skyldi þar hvergi afskipti hafa. Það er mikið til í því og það er reyndar ekki Alþingis að koma með efnislegar lausnir eins og hv. 5. þm. Reykv. minntist á að hér hefði hvergi örlað á í umræðunni. Hitt er þó óumflýjanlegt að málið er komið hér inn á Alþingi og á því verður að taka.

Það að málið er komið hingað inn á Alþingi, það þýðir einfaldlega að verkfallsréttur flugfreyja hefur verið af þeim tekinn. Það út af fyrir sig er nægjanlegt umræðuefni, hverjir megi hafa verkfallsrétt og hverjir ekki, hvort þær stéttir sem t.d. sinna samskiptum þessarar þjóðar við umheiminn, eins og flugliðar, og t.d. heilbrigðisstéttir eigi í reynd ekki að njóta verkfallsréttar.

Íhlutun stjórnvalda þegar á fyrsta degi vinnustöðvunar flugfreyja viðurkennir ekki þennan rétt heldur afnemur hann. Það hefur hingað til verið talið til mannréttinda vinnandi fólks að hafa rétt til að leggja niður vinnu sína til að leita sér kjarabóta. Þennan rétt hafa flugfreyjur því ekki í reynd.

Þó að best væri að Alþingi þyrfti engin afskipti að hafa af þessu máli er þó óhjákvæmilegt að Alþingi hafi skoðun á launamálum í þjóðfélaginu almennt. Það er enn fremur óhjákvæmilegt að Alþingi hafi skoðun á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Og síðast en alls ekki síst bæði verður og hlýtur Alþingi að hafa skoðun á því hver staða og kjör kvenna eru í þjóðfélaginu. Og ef Alþingi hefur ekki tíma eða tækifæri eða finnst það ekki viðeigandi að ræða þau mál 24. október árið 1985 þá veit ég ekki hvenær. Öll þessi atriði eru nátengd þessu máli.

Að auki verð ég að bæta því við að mér rísa hár á höfði hér í þingbyrjun þegar afkastalestin óðagot ætlar að bruna yfir þm. eina ferðina enn, reka þá á undan sér lafmóða á hlaupum við að afgreiða mál án þess að hafa fengið svo mikið sem sæmilegt svigrúm til þess að kynna sér málavexti. Svona vinnubrögð eru engum þm. sæmandi og ættu allir menn að neita að taka þátt í slíku.

Það hefur komið fram í máli þm. hér á undan, einkum í máli hv. 2. landsk. þm., að sú stétt kvenna sem hér um ræðir, flugfreyjur, er ekki sú hálaunastétt sem landsmönnum hefur verið kynnt í fjölmiðlum. Þær tilheyra fyrst og fremst hinni stóru stétt, konur, sem mega búa við það hlutskipti að meira en 80% þeirra vinna utan jafnt sem innan heimilis. Samt bera þær mun minna úr býtum en karlar sem hafa allt að 52% hærri laun en konur ef metin eru meðallaun á ársverk. Og ég vil vitna hér í ágæta skýrslu sem getið hefur verið um fyrr í umræðum í kvöld, en það er Staðreyndir um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum, skýrsla sem samin er af þeim Ester Guðmundsdóttur og Guðrúnu Sigríði Vilhjálmsdóttur. Þar segir um atvinnuþátttöku kvenna:

„Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka kvenna farið stöðugt vaxandi og er nú svo komið að um 80% kvenna hafa einhverjar launatekjur, en 67% kvenna á aldrinum 15-74 ára eru virkar í atvinnulífinu, þ.e. vinna sem svarar 14 vikum eða meira á ári. Atvinnuþátttaka nær hámarki hjá giftum konum á aldrinum 45-49 ára, en hjá körlum á aldrinum 35-49 ára. Athyglisvert er að atvinnuþátttakan er mjög svipuð hjá giftum og ógiftum konum en hvað landshluta snertir er hún heldur meiri utan Reykjavíkur en í höfuðborginni.

Hlutastörf eru mun algengari hjá konum en körlum og árið 1982 voru 63% þeirra kvenna, sem voru á vinnumarkaðinum, í hlutastarfi, en 37% í fullu starfi, 40 vikur eða meira á ári. Vinnutími kvenna utan heimilis er almennt styttri eins og reyndar tölurnar um hlutastörfin bera með sér. Yfirvinna er fátíðari hjá konum nema þeim sem vinna vaktavinnu. Á undanförnum árum hefur meðalvinnutími verkakvenna í fullu starfi verið á bilinu 43-44 klst. á viku, en 51-54 hjá verkamönnum. En vinnudagur kvenna er ekki styttri en karla“ - og ég endurtek: „vinnudagur kvenna er ekki styttri en karla þegar á heildina er litið.

Skv. jafnréttiskönnun í Reykjavík veturinn 1980-981 kom fram að þegar lagður var saman vinnutími fólks heima og heiman var heildarvinnutíminn síst styttri hjá konum en körlum. Þar kom einnig fram að þáttur karla í heimilisstörfunum var litlu meiri þegar konurnar voru í fullu starfi eða hálfu en þegar þær voru alveg heima.

En hvaða störfum gegna konurnar á vinnumarkaðinum? Hér á landi sem víðast annars staðar einkennist vinnumarkaðurinn af tvískiptingu sem felst í því að annars vegar eru störf sem krefjast góðrar starfsþjálfunar, veita góð laun, atvinnuöryggi og framavonir. Hins vegar eru störf sem krefjast lítillar starfsþjálfunar, veita lág laun, litlar framavonir og í þeim er mikil hreyfing af fólki. Sú staðreynd að fyrri hópinn fylli einkum karlar og þann síðari einkum konur er sjálfsagt engin tilviljun.

Með aukinni atvinnuþátttöku og menntun kvenna á síðustu árum hefur starfssvið þeirra breikkað og konur hasla sér nú völl á æ fleiri sviðum. Af þeim gögnum sem fyrir liggja er þó ljóst að mjög stór hluti kvenna er annaðhvort í ófaglærðum störfum eða almennum þjónustu- eða skrifstofustörfum. Lítill hluti þeirra er í störfum sem krefjast starfsmenntunar eða veita mannaforráð.

Niðurstaðan af samanburði á launum kvenna og karla á grundvelli fyrirliggjandi gagna sýnir svo að ekki verður um villst að verulega hallar á konurnar í launum. Í þessari athugun hafa laun kynjanna verið borin saman á ýmsa vegu. Til að fá fram sem raunhæfasta mynd og til að draga úr þeim áhrifum sem hlutastörf kvenna og lengri vinnutími karla en kvenna geta haft á launamuninn hefur verið kappkostað t.d. að miða við þá sem eru í fullu starfi og við dagvinnulaun eftir því sem heimildirnar leyfa. Launamunurinn sem fram kemur við allan þennan samanburð“ - og ég mun ekki fara ítarlega út í hvernig sá samanburður var gerður en vísa til þessa bæklings - „er mismunandi mikill eftir atvikum. Skulu hér tekin nokkur dæmi.

Árið 1983 vantaði 7% á að verkakonur hefðu sambærilegt meðaltímakaup og verkamenn, en miðað við hreint tímakaup í dagvinnu án bónuss var munurinn 13%, en við bónus minnkaði hann í 2%. Skv. launakönnun kjararannsóknarnefndar á launakjörum meðal 14 aðildarfélaga ASÍ í lok árs 1983 voru meðaldagvinnutekjur fullvinnandi karla um 16% hærri en kvenna. Þá reyndust 44% fullvinnandi kvenna vera með dagvinnutekjur undir 13 þús. kr. á mánuði samanborið við 21% karla. Árið 1983 voru karlar við verslunarstörf með 29% hærra dagvinnukaup en konur. Árið 1983 voru karlar við skrifstofustörf með 30% hærra dagvinnukaup en konur. Meiri hluti kvenna sem starfar hjá ríkinu, bæjarfélögum og bönkum eru í launaflokkum um eða undir miðju launastiganna. Meðallaun kvenna á ársverk eru hæst hjá ógiftum konum 25-44 ára og samsvara þau meðallaunum 15-19 ára pilta, 65-69 ára ókvæntra karla og 70-74 ára kvæntra karla. Konur ná hæstu hlutfalli af meðallaunum karla á ársverk í landbúnaði, eða 86% en þar eru meðaltekjur karla langlægstar.

er mismunandi mikill eftir atvikum. Skulu hér tekin nokkur dæmi.

Árið 1983 vantaði 7% á að verkakonur hefðu sambærilegt meðaltímakaup og verkamenn, en miðað við hreint tímakaup í dagvinnu án bónusanefndar á launakjörum meðal 14 aðildarfélaga ASÍ í

Árið 1982 voru meðalatvinnutekjur kvenna skv. skattframtölum 82 þús. kr. en karla 171 þús. kr., eða tvöföld laun kvenna. Aðeins 5,5% kvenna náðu þessum meðaltekjum karla.“ Og ég vil minna ykkur á, hv. þm., að það eru meira en 80% kvenna úti á vinnumarkaðnum.

„Af 19 atvinnustéttum framteljenda í fullu starfi árið 1982 náðu konur hæstu hlutfalli af launum karla í atvinnustéttinni kennarar og skólastjórar, eða 69% . Meðalárstekjur kvenna í fullu starfi sem starfa á sjúkrahúsum, elliheimilum og barnaheimilum voru 136 þús. kr., eða 46% af meðaltekjum karla í sömu stétt. Meðal starfsmanna á einkamarkaði er launamunur kynja fyrir dagvinnu meiri hjá þeim háskólamenntuðu en hinum sem ekki hafa slíka menntun, eða 47% á móti 37% skv. könnun Hagstofu Íslands árið 1984. Heildarlaun félagsmanna Bandalags háskólamenntaðra manna skv. skattframtölum og eru í fullu starfi eru lægst í þeim félögum þar sem konur eru meiri hluti félagsmanna skv. könnun Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1983. Háskólamenntaðar konur í níu aðildarfélögum BHM og starfa hjá hinu opinbera eru með 68-83% af heildarlaunum háskólamenntaðra karla í þeim félögum. En hér er eingöngu um starfsmenn í fullu starfi að ræða.

Árið 1982 voru konur 15% þeirra opinberra starfsmanna sem fengu greidda fasta yfirvinnu. Fengu konur að meðaltali 13 þús. kr. en karlar 25 þús. kr. Þá voru konur 13,7% þeirra opinberra starfsmanna, sem fengu greiðslu vegna bifreiða sinna árið 1983, konur að meðaltali 6 þús. kr. en karlar 15 þús. kr.

Það vantar ekki að heimildirnar gefi til kynna verulegan launamun kynja, eins og dæmin hér að framan sýna, og er ljóst að það gildir einu hvort um faglærða eða ófaglærða er að ræða, háskólamenntaða eða þá sem minni menntun hafa. Konurnar standa ávallt höllum fæti.“

Og hver skýrslan á fætur annarri birtir okkur niðurstöður sem ýta óþyrmilega við konum, skyldi einhverri detta í hug að nú hafi miðað svo vel áfram að við getum hvílt okkur um stund? Nýlega voru birtar tölur um launaskrið karla við skrifstofustörf sem hefur verið mun meira en hjá konum við sömu störf á s.l. ári. Og þannig rekur hver skýrslan aðra og allar falla niðurstöður á svipaða lund.

Reyndar er ástandið slíkt í hinum hefðbundnu kvennastörfum nú á síðustu og verstu tímum að það gengur erfiðlega að fá konur til þeirra. Þau laun og sú virðing sem við þau eru bundin er slík að sífellt færri sækjast eftir þeim. Það gengur erfiðlega að manna fiskvinnsluna, fóstrur vantar á dagvistarstofnanir og svo má lengi telja. Upplýsingar frá framhaldsskólum nú í haust virðast líka benda til þess að talsvert hafi dregið úr aðsókn að hinum hefðbundnu umönnunargreinum, en aðsókn aukist hins vegar í ýmsar viðskiptagreinar.

Ef unglingarnir í dag flýja úr slíkri starfsmenntun hver á þá að sinna umönnun þjóðfélagsþegnanna í framtíðinni? Umönnun ykkar, hv. þm., sem eigið í vændum hærri meðalaldur en áður hefur þekkst á Íslandi.

Fleiri stúlkur leita nú almennt menntunar en áður. Þær eru nánast í meiri hluta í menntaskólum og æ fleiri sækja í háskóla. Menntun hefur löngum þótt vera lykill að betri kjörum, en því miður - reyndin hefur ekki orðið sú hjá konum, því þær hafa þrátt fyrir viðleitni sína til að sækja sér aukna menntun lent í því að fylla flokk menntaðra láglaunastétta. Þær námsgreinar sem konur helst leita til í háskóla eru ekki hátt skrifaðar þegar laun eru greidd. Þannig brestur ísinn víða undan konum þótt þær reyni að bjarga sér, því hann er þunnur.

Það sem liggur til grundvallar hinum lágum launum kvenna er fyrst og fremst vanmat. Vanmat á framlagi þeirra og störfum, jafnt utan heimilis sem innan. Sú þjónusta og umönnun sem konur hafa veitt ástvinum sínum, heimilisfólki og mörgum fleirum, sem þær hafa látið sig varða, hefur ævinlega verið tekin fyrst og fremst sem sjálfsagður hlutur, verið svo samofin hlutverki þeirra að enn hefur ekki tekist að aðskilja þetta framlag og meta það að verðleikum til launa þegar út á vinnumarkað kemur. Og enn halda konur áfram að gegna þessu hlutverki þó svo að þær hafi haslað sér völl á vinnumarkaði.

Í könnun sem nýlega var gerð á vegum jafnréttisnefndar Reykjavíkur kom í ljós að vinnuframlag kvenna innan heimilis er mun meira en karla. Þegar vinnutími heima og heiman er skoðaður, eins og ég gat um áðan, kemur í ljós að heildarvinnutími kvenna er síst styttri en karla. Meðal þess sem fram kemur í könnun jafnréttisnefndar Reykjavíkur er, að meiri tíma er varið í heimilisstörf eftir því sem fjölskyldan er stærri. Meðalvinnutími kvenna í sambúð á heimili var rúmar 33 stundir, en karla rúmar 6 stundir á viku. Vinnuframlag eiginkvenna til heimilisstarfa var 51 klst. á viku væri hún ekki á vinnumarkaðnum, 34 klst. á viku væri hún í hlutastarfi og 22 klst. á viku væri hún í fullu starfi. Vinnuframlag eiginmanns til heimilisstarfa var 5 klst. á viku væri eiginkonan heima, 6 klst. á viku væri eiginkonan í hlutastarfi og 7 klst. á viku væri hún í fullu starfi utan heimilis. Um fjórðungur kvenna og karla unnu í 51-60 klst. samanlagt heima og heiman en í 61 klst. eða meira unnu 30% kvenna á móti 24% karla.“

Herra forseti. Það getur enginn álasað konum fyrir að vera liðleskjur. Í könnun á vegum Sameinuðu þjóðanna kom í ljós að konur vinna, eins og áður var getið í umræðum hér, 2/3 af öllum vinnustundum sem unnar eru í heiminum, bæði innan heimilis og utan, en fá þó ekki greitt nema 1/10 hluta af þeim launum sem greidd eru og eru einungis skráðir eigendur að 1% um af eignum jarðarinnar. Hver ræður þessum launagreiðslum og þessari eignaskiptingu? Ekki konur. Það eru hins vegar karlar. Karlar sem hafa aldrei og virðast ekki enn skilja eða kunna að meta hið ríkulega framlag kvenna. Hins vegar eru konur löngu orðnar meðvitaðar um mikilvægi sitt og mikilvægi þeirra starfa sem þær vinna. Og þær sætta sig ekki lengur við þann lítilvæga skerf sem þeim er skammtaður þegar laun eru greidd. Þess vegna leita þær réttar síns eins og flugfreyjur gera nú og því styðja konur hver aðra að þær vita að í samstöðu þeirra er fólginn kraftur, jákvæður skapandi kraftur sem ekkert fær staðist. Þann kraft munum við væntanlega finna síðar í dag þegar konur leggja niður störf til að minna á það að þær eru ómissandi í þessu þjóðfélagi og verða ekki lengur sniðgengnar.

Fyrir hönd Kvennalistans þá hafna ég þessu frv. Ég mótmæli því að verkfallsréttur skuli hafa verið tekinn af flugfreyjum. Ég mótmæli þessum afleitu vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð í þinginu og ég styð konur einlæglega í kjarabaráttu sinni.