16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni að hraða þyrfti afgreiðslu þessa máls. Fyrir liggur að það þarf að gera ef á að ljúka afgreiðslu þess áður en þm. fara í jólafrí. Ég sé ekki hvernig því verður við komið. Málið hefur tekið hv. Nd. fjórar vikur. Að ætlast til þess að þessi hv. deild skili því af sér á broti úr viku held ég að sé ansi mikil tilætlun.

Það er vitað að útreikningar, sem hafa verið lagðir fram og voru lagðir fram í Nd., stangast nokkuð á og þar komu fram fjögur minnihlutaálit þannig að greinilegt er að þar var mikill skoðanaágreiningur um málið. Gera má ráð fyrir að slíkt endurtaki sig hér í hv. deild og í hv. iðnn.

Ég mun ekki orðlengja um málið hér við umræðuna. Málið þarf að komast í nefnd og ég veit að þar verður það skoðað. En ég vil lýsa því yfir að ég tel þetta allt of skamman tíma til þess að það fái þá meðhöndlun sem það þyrfti. Þetta er deilumál, þetta er átakamál. Þetta er mál sem þarf að skoða vel og ekki flasa að í neinu.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu frekar, en ítreka að frv. verði kannað mjög vel í nefnd.