16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lesa upp 27. gr. eða svara fyrirspurn hv. 8. landsk. þm. Ég hef tíma til þess er ég kem aftur upp að ræða um það frekar. En ég skal svara þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín um reikningsskil ÍSALs - Það er það sem spurt var um er það ekki? - Það svar er á þessa leið:

ÍSAL hefur á liðnum árum orðið fyrir bókfærðu gengistapi þar sem reikningsskil fyrirtækisins eru haldin í íslenskum krónum. Á árinu 1975 var staðfest að fyrirtækið hefði heimild til að meðhöndla gengistap á sama hátt og önnur íslensk fyrirtæki á grundvelli þágildandi skattalaga. Á árinu 1978 voru samþykkt ný skattalög á Íslandi sem skilgreindu afkomu og efnahag betur en áður í skattalögum. Hin nýju skattalög 1978 tóku ekki til ÍSALs og beitti fyrirtækið fram til þessa þeim aðferðum sem samkomulag varð um 1974, aðferðinni sem í raun var beitt gagnvart íslenskum fyrirtækjum með tilkomu nýju skattalaganna.

Nú er lagt til að afskriftir á næstu árum verði reiknaðar af áætluðu matsverði í erlendri mynt, miðað við 1. janúar 1985, en það var 89 millj. bandaríkjadalir. Þessi stofn færist til gjalda á tíu árum við meðalgengi hvers árs. Í raun er því verið að afskrifa eignir í erlendri mynt, umbreytt í krónur í reikningsskilum fyrirtækisins og í skattalegu tilliti. Þar sem afskriftir eru reiknaðar með þessum hætti og rekstrarreikningur til skatts í raun í erlendri mynt þarf ekki að taka tillit til þess gengismunar sem fyrirtækið verður fyrir gagnvart íslensku krónunni, hvorki af skuldum né veltufjármunum. Með þessum hætti er eytt áhrifum innlendrar verðbólgu á reikningsskil fyrirtækisins og niðurstaðan er langtum skýrari mynd af afkomu og efnahag þess.

Í framhaldi af þessu tel ég rétt að endurtaka eftirfarandi um eiginfjárframlag að upphæð 40 millj. sem fyrirtækið greiðir nú í hlutafjárframlögum til þess að minnka það sem nú er frádráttarbært vegna skulda:

Eins og kom fram eru skuldir um 100 millj. kr. sem hvíla á fyrirtækinu, en við 40 millj. dollara eiginfjárframlag minnka þær niður í 60 millj. Það hefur verið fullyrt að ÍSAL kunni að hafa átt að greiða umrætt eiginfjárframlag vegna skuldbindinga í aðalsamningi og því sé eiginfjárframlagið að fjárhæð 40 millj. dollarar enginn sérstakur ávinningur. Þetta er alrangt. Skv. 21. gr. aðalsamnings er það áskilið að innborgað hlutafé ÍSALs, eins og það er ákveðið á hverjum tíma, skuli aldrei vera minna en sem svarar 1/3 hluta af bókfærðu verði fastafjármuna þess.

Hinn 31. desember 1984 var þessi staða sem hér segir: Endurmetið hlutafé var 1 milljarður 770 millj. 400 þús. dollarar (Forseti: Það er dálítill órói í salnum. Reynum að hafa hljóð á meðan hæstv. ráðh. flytur mál sitt.) Það er kannske meining deildarmanna að óróinn komi einmitt frá ræðustólnum. - Og ég held áfram: Endurmetið bókfært verð fastafjármuna var í íslenskum kr. 4 milljarðar 271 millj. og 400 þús.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar yfir þetta svar nema hv. þm. óski þess sérstaklega. (Gripið fram í.) Já, ég er að reyna að tefja ekki tímann um of með því að reyna að hafa svörin eins stutt og ég get.

Hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinsson talaði um að samningagerðin hafi verið erfið. Ég reikna með að það sé rétt. Meiri parturinn af samningagerðinni var um garð genginn þegar ég tók við embætti iðnrh. en þó var dálítið eftir óunnið. Til viðbótar við það sem komið var á blað voru uppi nokkrar kröfur sem Svisslendingar fylgdu nokkuð hart eftir. En ég get upplýst það hér og nú að ekkert af þeim kröfum sem þeir vildu fá inn í þennan samning, sem ég er nú að skýra, var tekið til greina og endaði þó með því að hann var samþykktur af þeirra hálfu. Ég vil því segja að það er ekki bara hægt að tala um að samningagerðin hafi verið erfið fyrir okkur, við skulum líka ætla íslensku samningamönnunum að þeir séu engin lömb að leika við þegar þeir á annað borð taka til hendi.

Sami hv. þm. gerir ekki ráð fyrir miklum hækkunum. En ég tel að sá útreikningur, sem gerður hefur verið, sé nokkuð réttur og þá er reiknað með að tekjur geti aukist sem svarar um a.m.k. 1 millj. dollara á ári.

Hv. þm, spyr líka um grunngjaldið og endurskoðun á því. Endurskoðun á grunngjaldi er samkvæmt þessum samningi hugsuð árið 1994. En ég þarf að athuga það betur. Ég held að samkvæmt 25 ára samningnum verði þetta gjald endurskoðað 1991, þ.e. skv. ákvæði aðalsamnings um 25 ára ákvæðið. Það getur verið að þessi sérstaka endurskoðun sé fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir.

Það var talað um að við höfum ekki unnið neinn endanlegan sigur og að við þurfum að sækja rétt okkar. Það er alveg rétt. Hver er endanlegi sigurinn? Er hann til? Er það endanlegur sigur að við fáum allt það sem við heimtum og hinir ekki neitt? Það er kannske talinn endanlegur sigur. Ég tel það endanlegan sigur að ná samkomulagi ef báðir geta sætt sig við að skrifa undir. Þá tel ég líka að við höfum sótt rétt okkar því að það þarf samkomulag þegar tveir annaðhvort deila eða eru að semja sín á milli um að skapa hvor öðrum eða jafnvel báðum sérstaka hagsmuni.