23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í upphafi þings er nú vinnutilhögun hér á Alþingi líkust því sem venjan er síðustu daga fyrir þinglok. Slíkur er asinn að enginn eðlilegur tími fékkst til að skoða þetta mál sem hér er til 2. umr., né til þess að vinna að niðurstöðum. Svo sem komið hefur fram er ég aðili að nál. á þskj. 75 ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e., áliti sem ég hefði kosið að hafa miklu ítarlegra og skýrara. Þess vegna finn ég mig nú knúna til að bæta við það örfáum orðum.

Rök þeirra sem styðja þetta frv. eru fyrst og fremst, og nánast eingöngu, að hér sé um óhjákvæmilega lagasetningu að ræða. Engin lausn hafi verið í sjónmáli og enginn annar kostur fyrir hendi. Sú er þeirra niðurstaða. Menn skyldu athuga hver er meginorsök þess að þessi staða er upp komin. Við hv. 4. þm. Norðurl. e. segjum í nál. okkar að ekki hafi verið reynt sem skyldi að komast að samkomulagi eftir eðlilegum leiðum. Það álit vil ég ítreka og undirstrika. En hvers vegna skyldi það ekki hafa verið reynt? Að mínu mati er það vegna þess að búið er að slæva bit verkfallsvopnsins með síendurtekinni íhlutun stjórnvalda. Ég tek undir mörg orð hv. 4. landsk. þm. sem lagði alla áherslu á þennan þátt málsins. Með þessari síendurteknu íhlutun er í raun og veru búið að taka samningsréttinn af Flugleiðum. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að þau fordæmi sem samningsaðilar höfðu fyrir sér hafa dregið úr áhuga þeirra á að ná samkomulagi eftir eðlilegum leiðum. Við getum því ekki leitað sakarefna hjá samningsaðilum. Sökin liggur hjá stjórnvöldum og menn skyldu íhuga það vandlega hver afleiðingin verður ef þau bæta nú enn einum steini í þá vörðu sem hér er verið að hlaða.

Ég get hins vegar alls ekki fallist á þá skoðun, sem ítrekað hefur komið fram hér í þessum umræðum, að rangt sé að blanda launamálum inn í umræðuna. Við hljótum að leita orsakanna fyrir því að þessi staða er komin upp og þær finnum við ekki nema skoða um hvað deilan hefur snúist og á hverju strandar. Það er heldur ekki rétt að með þessu frv. sé ekki tekin efnisleg afstaða í þessari kjaradeilu, því að í 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta, þó búið sé að vitna oftar en einu sinni í hana:

„Kjaradómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara flugfreyja hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamninga aðila almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf.“

Þar með hefur löggjafinn tekið afstöðu til þess að ekki beri að taka tillit til meginkröfu flugfreyja um vaktaálag, sem er það atriði sem markar algera sérstöðu í þessari deilu. Að mínum dómi felst í þessu mat á því hver launakjör flugfreyja eiga að vera og það mat hefur þá löggjafinn tekið að sér.

Ég sagði hér í 1. umr. um þetta mál að það hefði vissulega skýrst nokkuð á þessum stutta tíma sem við fengum milli þingfunda í dag. Hins vegar skýrðist það ekki nóg. Heldur ekki á nefndarfundi í kvöld milli umræðna, enda er ekki nóg að hlusta á það sem deiluaðilar hafa fram að færa, heldur hefðum við þurft tíma og tækifæri til útreikninga og sjálfstæðs mats á staðreyndum málsins.

Það er ekkert leyndarmál að mikið ber á milli í túlkun deiluaðila á kröfum flugfreyja svo og því sem Flugleiðir hafa boðið. Þetta er svo sem engin nýlunda. Slík er reyndin í öllum vinnudeilum og menn ættu að vera löngu hættir að leggja trúnað á fullyrðingar deiluaðila í þessum efnum. Staðreyndin er þó sú að auðvelt er að villa um fyrir almenningi og er aðstöðumunur augljós í þeirri deilu sem hér um ræðir. Flugleiðir hafa látið frá sér fara fullyrðingar um að farið sé fram á 126,4% meðaltalshækkun launa, þegar tillit sé tekið til allra þátta í kröfugerðinni, og þótt vitað sé að flugfreyjur séu ekki of sælar af launum sínum er von að menn hrökkvi við þegar þeir heyra slíkar tölur. Þarna er farið gálauslega með tölur og slíkt ber að fordæma. Öll meðaltöl eru varasöm. Þar geta afbrigðilegar tölur breytt myndinni gjörsamlega. Við getum hugsað okkur fjölskyldu með ungum foreldrum með tvö til þrjú börn. Það skiptir nú aldeilis máli upp á meðalaldurinn í þeirri fjölskyldu ef aldraður afi eða amma eru á heimilinu. Það er nákvæmlega það sem liggur hér að baki. Við mat á áhrifum af starfsaldurshækkunum sem flugfreyjur hafa gert kröfur um gjörbreytist sú mynd sem af kröfugerðinni má fá vegna þeirra örfáu kvenna sem hafa verið lengi í starfi. Þessi útreikningur Flugleiðamanna er því algerlega út í hött og gefur alranga mynd af því sem um er deilt.

Það er einnig verulega ámælisvert að vera að reyna að draga inn í þessa mynd útlagðan kostnað flugfreyja sem felst í dagpeningagreiðslu og ökutækjastyrkjum. Það eru ekki laun og eiga ekki að teljast laun. Mér þætti gaman að vita hvort hv. þm. telji sér almennt til launa bílastyrki og símakostnað, áskrift blaða og fleira sem eflaust mætti tína til. Það dettur áreiðanlega ekki nokkrum þm. í hug.

Herra forseti. Mér fannst nauðsynlegt að draga fram þessi atriði sem hafa verið notuð til stuðnings þeirri staðhæfingu að flugfreyjur hafi gert óheyrilegar launakröfur. Það er ekki alltaf allt sem sýnist og tölum er auðvelt að hagræða á ýmsa vegu ef vilji er fyrir hendi. Ég tel það ábyrgðarhluta að slá ryki í augu fólks með þessum hætti og reyna þannig að hafa áhrif á almenningsálitið og snúa því gegn mótaðilanum, eins og hér hefur verið gert.

Herra forseti. Hæstv. samgrh. talaði hér við 1. umr. um mikilvægi samgangna fyrir land og lýð og um það þarf enginn að efast - eða dettur nokkrum manni í hug að deiluaðilar geri sér það ekki ljóst? Þessi staðhæfing hæstv. ráðh. minnti mig hins vegar óþægilega á þann málflutning sem sífellt er beint til launafólks, ekki síst kvenna sem leyfa sér að fara fram á betri kjör. Þá er jafnt og þétt reynt að vekja upp vonda samvisku þess fólks sem stendur í launabaráttu og höfða til fórnarlundar þess með yfirlýsingum af þessu tagi. Ég efast ekki um að deiluaðilar gera sér fulla grein fyrir því hvað í húfi er, hvoru megin borðsins sem þeir sitja.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vísa til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, að orsök þeirrar stöðu sem nú blasir við í deilu flugfreyja við Flugleiðir er að finna í síendurtekinni íhlutun stjórnvalda í vinnudeilur þessara aðila. Þeirra er ábyrgðin.

Herra forseti. Ég hefði sannarlega óskað að sá dagur sem nú er runninn upp, 24 okt., hefði ekki byrjað með þeim hætti sem nú er orðinn. En kannske er það einmitt við hæfi. Baráttan fyrir bættum kjörum getur aldrei fallið niður.