16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki nú að ræða efnislega um það mál sem hér er til umræðu heldur stend ég upp í tilefni yfirlýsingar sem fram hefur komið hjá hæstv. iðnrh. um að þörf sé á að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfið. Það hefur komið fram hjá þm. þeim sem talað hafa hér í umræðunni að það muni vera erfitt. Ég hygg að allir geti verið samþykkir þeirri skoðun að það sé erfitt og augljóst er hvers vegna það er. Það er vegna þess að það er svo skammur tími til stefnu. Ef við frestum þinginu vegna jólanna, sem við hljótum að verða að gera, í lok vikunnar höfum við eftir um tvo daga fyrir fundi í deildum. Það er stuttur tími. En það sem erfiðara er í þessu efni er að það er alla vega stuttur tími til vinnu í iðnn. í þessu máli vegna þess að hér er um ágreiningsmál að ræða.

Eins og við vitum komu fram í þessu máli fjögur minnihlutaálit frá iðnn. Nd. Iðnn. Nd. athugaði málið gaumgæfilega og fékk m.a. tíu menn, fulltrúa ýmissa aðila og stofnana, til að koma á sinn fund og ræða þar málið. Nú hefur verið sagt hér af þm., sem tekið hafa til máls í þessari umræðu, að málið þurfi ítarlega meðferð í hv. iðnn. Ed. Það getur ekki orðið ef á að afgreiða málið fyrir jól.

Það er venja þegar slíkar óskir koma fram, sem þessar sem hér er um að ræða frá hæstv. iðnrh., að leitast við að verða við þeim óskum ef þess er nokkur kostur. Með því að ég er formaður iðnn. Ed. hef ég viljað láta þetta koma fram. Ég vil enn fremur lata þess getið að það hefur ekki verið sérstaklega rætt við mig sem formann iðnn. um að nauðsynlegt væri að afgreiða málið fyrir jól. Satt að segja átti ég naumast von á því vegna þess að ef það hefði átt að gera var eðlilegt að báðar nefndirnar, bæði iðnn. Nd. og Ed., ynnu saman í samvinnunefnd svo sem oft er gert og eðlilegt er að gera. En þetta hefur ekki verið gert.

En ég endurtek að þegar svona stendur á, að það kemur fram ósk um að afgreiða mál á knöppum tíma, er venja að leitast við að verða við þeim óskum ef mögulegt er. Ég vil þess vegna segja það hér að ég mun leita eftir því í iðnn. hv. deildar hvort hægt sé að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins innan þessa tíma. Þá á ég ekki við að hægt sé að ná samkomulagi um efni málsins, að hægt sé að ná samkomulagi um það sem ágreiningur var um í Nd. Ég á við það hvort hægt sé að ná samkomulagi um að afgreiða málið frá nefndinni með ágreiningi en innan þessara tímamarka.

Ég skal ekkert segja hvað hægt verður að gera í þessu efni. En ég vil að það komi hér fram að það mun verða leitað eftir þessu.