16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það var vissulega athyglisverð ræða sem hv. formaður iðnn. flutti hér áðan og orð í tíma töluð. Ég held að jafnt ráðherrar sem við óbreyttir þm. ættum að hyggja vel að orðum þess manns sem virkilega vill vanda vinnubrögð hér í þinginu og vill virðingu þessarar stofnunar meiri en þá að ráðherrar krefjist þess að nefndarstörf verði að færibandavinnu.

Það hlýtur að taka talsverðan tíma fyrir þá nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að ná fangs á þeim flóknu atriðum sem það felur í sér og þeim miklu deiluatriðum sem þar eru á ferð og sem glögglega birtust okkur í sjónvarpsþætti nýlega um þetta mál þar sem staðhæfingar, rök og mótrök stönguðust gjörsamlega á.

Ég verð að harma að það skuli hafa verið sagt í fréttatíma sjónvarpsins í kvöld að við værum að afgreiða fjölda flókinna mála frá ríkisstj. á færibandi. Það erum við ekki að gera. Þau mál, sem hér eru til meðferðar og hafa reyndar komið allt of seint fram frá hæstv. ríkisstj. af því að þau eru svo einföld, flest hrein framlengingarfrv., gamlir kunningjar okkar hér ár eftir ár, eru langflest þess eðlis að ekkert er eðlilegra en að við afgreiðum þau hratt og vel, þ.e. með samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að þessi mál megi ganga hratt og eðlilega fyrir sig með þeirri eðlilegu athugun sem þau hljóta þó að fá í nefnd hverju sinni.

Hér var á ferðinni fyrr í kvöld frv. um Geislavarnir ríkisins sem ég sá reyndar enga ástæðu til að yrði hraðað í gegnum þing fyrir jól. Þetta mál hér er þess eðlis að það má fullt eins vel afgreiða það á fyrstu dögum eftir að þing kemur saman aftur eftir áramót. Ég reiknaði með því að það yrði í janúar, að hæstv. ríkisstj. tæki sér ekki frí alveg fram yfir 11. febrúar þegar fer að verða heldur krítískt að málið nái fram að ganga.

Einhvern tíma hefur nú verið hvíslað öðru eins í þessari hv. deild, eins og hv. 5. landsk. þm. var að ræða við mig hér áðan, eins og því að hæstv. iðnrh., sem situr við hliðina á hv. formanni iðnn. þessarar deildar, hefði hvíslað því að honum fyrir nokkrum dögum að þetta mál væri óskamál hans sem hann vildi endilega ná hér í gegn. Einhvern tíma hefði öðru eins verið hvíslað í þessari hv. deild. (Iðnrh.: Það eru ekki eðlileg vinnubrögð.) Það telur hæstv. iðnrh. ekki eðlileg vinnubrögð enda allra manna minnst fyrir slíkt. En ekki hefðum við heldur haft á móti því að hann hefði sagt það upphátt við hv. forseta Sþ. sem á að hafa yfirstjórn yfir öllum þingstörfum. En það hefur heldur ekki verið gert. Hvorki í hvíslingum né upphátt hefur hæstv. iðnrh. látið sér til hugar koma að koma þessu máli á framfæri við þann aðila sem ber hitann og þungann af því nefndarstarfi sem þarf að vinna núna á örfáum dögum.

Ef stjórnarliðið væri nú í einlægni sagt alveg sannfært og einróma í þessu máli væri þetta kannske sök sér. En nú er það ekki einu sinni þrátt fyrir það að framsóknarmenn í Nd. hafi drattast til þess, eins og maður getur sagt, að greiða þessu frv. atkvæði eins og greinilega sést á nál. þeirra og hv. 6. landsk. þm. vakti glögga athygli á. Ég er ekkert viss um að þeir ágætu framsóknarmenn, sem eru í þessari hv. deild og eru sjálfstæðir vel, drattist til þess arna eins og þeir flokksbræður þeirra gerðu í Nd. sem urðu að skila séráliti og gátu ómögulega fengið sig til að skrifa upp á nál. með sjálfstæðismönnum í Nd. með þeim rökum sem þar voru flutt. Þeir þurftu önnur rök og aðrar afsakanir fyrir því að þeir væru samt sem áður með þessu vegna þess að þetta væri þó kannske eitthvert hænufet í áttina að betri úrlausn en áður hefði verið.

Ég harma það ef sjálfsafgreiðsla á að ríkja hér þótt ég dæmi ekkert um það hversu iðnn. getur unnið hratt. Ég veit að það eru færir og ágætir aðilar í iðnn. og forusta hv. þm. Þorvalds Garðars þar og vinnulag allt er hafið yfir efa. Ég efast því ekki um að þetta gæti tekist en með fullu samkomulagi þá alla vega. Ég dreg í efa fyrir hönd míns flokks að við séum nokkuð til samkomulags um að afgreiða þetta mál með slíku hraði og segi hæstv. iðnrh. það hiklaust.

Af því að nú nálgast klukkan hálfellefu er ég hér t.d. með ítarlegt mál. sem velkomið er að ég fari ítarlega yfir fyrir hæstv. iðnrh. - og tvisvar til frekari áherslu, segir hv. 5. landsk. þm. Það er líka velkomið því að nóg er nóttin og ekkert annað brýnna viðfangsefni hér í deildinni en að fara rækilega yfir það. Ég treysti mér alveg til þess að fara yfir það a.m.k. þangað til 17. des. rennur upp, svo að ég lofi nú ekki neinu frekar. (Iðnrh,: Er þá ekki best að gera það?) Það er best að gera það, segir hæstv. iðnrh. sem ókyrrist nú mjög vegna þess að honum er nú orðið ljóst að hann ætlar að fara fram hér með þeim hætti að hv. þm. Þorvaldur Garðar, forseti Sþ., hefur séð sig knúinn til að vara alveg sérstaklega við vinnubrögðum af því tagi sem hæstv. iðnrh. er hér að leggja til.