16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst upplýsa það, sem á að vera a.m.k. þm. stjórnarflokkanna ljóst, að það er þýðingarmikið að lögin öðlist gildi fyrir áramót til þess að hinar nýju reglur taki gildi um áramót þannig að þær gildi fyrir allt árið 1986 en ekki hluta úr árinu.

Þá vil ég upplýsa hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa tekið til máls, um að ég hef ekki lagt það í vana minn að hvísla mikið að nefndarformönnum hér í þinginu, hvorki sem fjmrh. né iðnrh. Ég get upplýst að þessi mál eru fullrædd, bæði í ríkisstj. og innan beggja stjórnarflokkanna, í viðurvist nefndarmanna allra sem koma frá hverjum flokki fyrir sig. Það liggur fyrir bréf frá mér til ríkisstj. og afrit til formanna þingflokkanna um þau mál sem þurfa að ná í gegn fyrir jólafrí - ekki til stjórnarandstæðinga, ég er að tala um stjórnarflokkana. Það á því ekki að vera neinn misskilningur á milli mín og hv. formanns iðnn. þessarar virðulegu deildar því að bæði hefur þetta mál verið rætt þegar það er samþykkt að ýta því í gegn og eins er því fylgt eftir bréflega af mér til flokksins. Mér þykir því leitt að þurfa að kippa þessum möguleika frá ykkur, kæru vinir, til að skapa ágreining á milli mín og formanns iðnn. um þetta mál. En þessi vinnubrögð eru kannske ekki skiljanleg fyrir hvern sem er.

Ekki vil ég síður en hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson að hér séu viðhöfð vönduð vinnubrögð. Sá sem þetta mælti gaf í skyn með áherslum að ég væri kannske einn af þeim sem vildu ekki vönduð vinnubrögð og ég ætti að taka mér hann til fyrirmyndar. Ég veit ekki um neinn þm., hvorki í þessari deild né í Nd., sem ekki vill og einhvern tíma á sínum ferli hefur ekki talað um að hann vilji vönduð vinnubrögð. Allir viljum við það. Hér er því ekki um neina færibandastarfsemi að ræða. Þetta er rætt í þingflokkunum og þetta er rætt í heyranda hljóði fyrir alla nefndarmenn meirihlutaflokkanna í báðum nefndum þannig að það fer ekki á milli mála og því er líka fylgt eftir skriflega af mér til þingflokksins.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég óska eftir því, ef hægt er að koma því við, að hv. iðnn. klári þetta mál fyrir jólafrí, m.a. af þeim ástæðum sem ég gat um í upphafi máls míns og eins af þeim ástæðum, eins og þm. hafa lesið í blöðum og heyrt um og ég veit ekkert meira en það, að hugsanlegt er að þegar að þessi samningur hefur verið staðfestur komi hingað til lands aðilar, Kínverjar, sem hafa sýnt áhuga á samstarfi við Alusuisse að einhverju leyti. Að hve miklu leyti og á hvaða skilmálum veit ég ekki. En samningaumræður og viðtöl fara ekki fram fyrr en þessi samningur hefur verið staðfestur. Það er því ekki að ástæðulausu sem ég hef lagt svo mikla áherslu á að koma frv. í gegn fyrir jólafrí.

Því til viðbótar hefur verið þó nokkurt samstarf á milli mín og Alþýðubandalagsmanna. Ég hef fengið upplýsingar og þeir hafa beðið um upplýsingar. Endalok þess samstarfs var að sjálfsögðu það að málinu var vísað frá Nd. og hingað eftir að viðræðuaðili minn hafði skilað nál. í nafni flokksins upp á 34 bls. Það voru fjögur nál. í Nd. Ég er alveg sannfærður um að svo vönduð vinnubrögð hljóta þeir að viðhafa í sínum flokkum sem gagnrýna og tala um vinnubrögð Alþingis að það er útilokað að nefnd í annarri deildinni leggi ekki fram niðurstöður athugana sinna og ræði við sína flokksmenn áður en þeir taka afstöðu. Annars væri hætta á tvenns konar afstöðu, annars vegar í Nd. og hins vegar í Ed. Þess vegna hlýtur að vera auðveldara að komast að niðurstöðu í þessari hv. deild úr því að málið hefur fengið þessa vönduðu meðferð í Nd.