16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

145. mál, stjórn fiskveiða

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Þetta er í þriðja sinn sem umræða um kvótakerfið ríður húsum hér á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað tilgangslaust að fara að ræða hér um kosti og galla þessa kerfis ef rök bíta ekki, eins og sést best á hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Þeim nátttröllum, sem ekki taka þeim rökum sem kvótakerfið hefur greinilega sýnt, fer fækkandi því betur.

Ég get ekki farið að elta uppi ýmislegt af því sem hv. þm. taldi hér upp. Þó fannst mér fullómerkileg sú röksemdafærsla að tala um mat á fullunnum saltfiski hér sunnanlands þegar vitað mál er að stórlega hefur verið breytt um verkunaraðferð á saltfiski. Besti fiskurinn er frystur eða notaður í svokallaðan tandurfisk. Auðvitað vissi ég að mokið á Breiðafirði í vor fór illa af mörgum orsökum, en þó ekki síst vegna þess hve það geymdist í landi.

Eins og ég sagði áður eru menn meira og minna búnir að gera upp hug sinn. Það er tilgangslaust að vera að halda hér langar ræður með tölulegum rökum. Þetta er orðin hrein landshlutaskipting hagsmunaaðila sem reyna svo að hafa áhrif á sína þm., sérstaklega meðal okkar stjórnarliða. Ég get þegar lýst því yfir að ég er hlynntur því að nota kvótakerfið til skömmtunar á ónógum afla. Ég tel að slíkt kerfi sé skást af þeim leiðum sem til greina koma þegar skömmtunar er þörf.

Ég bendi á að allar meiri háttar fiskveiðiþjóðir hafa gripið til kvótakerfis í einni eða annarri mynd til að skipta takmörkuðum afla á milli manna. Ég minni á að loðnuveiðar okkar Íslendinga hafa verið undir kvótakerfi í langan tíma, líklega fimm ár. Einnig má nefna þorskveiðar Kanadamanna og Norðmanna. Það þarf auðvitað ekki að vera að kerfi sem hentar öðrum þjóðum henti best við botnfiskveiðar okkar Íslendinga. En ég minni á að þessi aflaskiptingaraðferð hefur nú í þrígang verið samþykkt af yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem í greininni starfa, hversu niðurlægjandi orðum sem hv. þm. Skúli Alexandersson fer um fiskiþing og þing Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég tel aftur á móti að tillögur sem Farmanna- og fiskimannasambandið samþykkti séu varla marktækar. Ég tel að yfirmenn í landhelgisgæslu og á kaupskipaflota séu ekki bestu menn til að segja mér til um hvernig ég ætti að haga minni útgerð og fisksókn ef ég hygði á slíkan atvinnuveg.

Hin tillagan, sem komið hefur fram um stjórnun fiskveiða, hefur verið kölluð „Vestfjarðaleiðin“. Hún byggist á því að það sé miðað við heildarafla á þrem tímabilum og fiskað frjálst af kappi þar til skammtur hvers tímabils er búinn. Þá eiga allir að hætta og bíða eftir rásmarki fyrir næsta tímabil. Þessi aðferð er augljóslega að skapi aflakónga og þeirra sem næst liggja miðum þeim sem gjöfulust hafa verið og hraðast er hægt að fiska á.

Auðvitað hafa útgerðarstaðir í grennd við bestu fiskimiðin haft forréttindi og reynslukvótinn var miðaður við þessi forréttindi. Það var miðað við aflareynslu Vestfirðinga og þeirra sem við Breiðafjörð fiska. Með skraptillögunni er verið að tala um að auka þessi forréttindi enn umfram það sem gerðist á árunum 1981 og 1983.

Það er nokkuð fróðlegt að virða fyrir sér hverjar hinar raunverulegu hlutfallstölur þorskafla á árunum 1984 eru miðað við það sem áður gerðist eftir landshlutum. Það sýnir sig m.a. að þorskafli Vestfirðinga var í kringum 15% miðað við landið í heild hvort sem miðað er við 15 ára tímabilið 1968-1983 eða árin 1981-1983. Árið 1984 var hlutdeild þorskafla Vestfirðinga 17%. Þeir hafa ótvírætt bætt sig hvort sem miðað er við 15 ára tímabilið eða þriggja ára tímabilið.

Á Norðurlandi vestra er munurinn enn þá miklu meiri. Þorskafli á Norðurlandi vestra var aðeins 5,5% á þessum viðmiðunarárum og hann var aðeins 5,5% einnig á 15 ára tímabilinu 1968-1983. En nú er þorskafli á Norðurlandi vestra orðinn 8% af þorskafla landsmanna.

Smávegis aukning er bæði á Vesturlandi og Norðurlandi eystra á hlutfallstölu þorskafla miðað við landið í heild hvort sem miðað er við 15 ára tímabil eða þriggja ára tímabil. Þetta getur hv. þm. Skúli Alexandersson lesið í riti Fiskifélags Íslands þó að það sé sennilega ómerkilegt rit að hans dómi.

Þetta skrapdagakerfi með stuðlum og höfuðstöfum er, fyrir utan það að vera ósanngjarnt, næstum óframkvæmanlegt. Upplýsingaöflun er mjög seinvirk og það getur skeikað mörgum þúsundum tonna hvern dag sem stöðvun dregst á endaspretti hvers tímabils. Eftirlitið með netafjölda og frágangi afla og að veiðum sé hætt á tilteknum tíma er gersamlega ógerlegt. Í þeim samanburði er eftirlit með kvótakerfinu hreinn barnaleikur. Þetta þekkja þeir sem reynt hafa hvort tveggja.

Staðreyndin er sú að formælendur skrapdaganna vilja ekkert veiðistjórnarkerfi. Þeir vilja hömlulausar veiðar þar sem forréttindaaðstaðan gildir. Það er rétt að undirstrika að skrapdagakerfið gerir ekki síður ráð fyrir miðstýringu, aðeins að sú miðstýring er gersamlega óframkvæmanleg.

Mér hafa ofboðið sumar ræður sem fluttar hafa verið um þetta mál, sérstaklega í Nd. á undanförnum dögum, en ég ætla ekki að fara að tíunda þær. Það væri að æra óstöðugan að eltast við öll þau slagorð og fullyrðingar sem hrópuð hafa verið gegn kvótaskiptingu þorskafla. Við verðum að muna að kvótaskiptingu er beitt hér á veiðar átta eða níu annarra sjávardýra. Það er eingöngu þegar kemur að þorskaflanum sem kvótakerfið á að vera gersamlega ómögulegt.

Í þessum fjölmörgu ræðum sem haldnar hafa verið um kvótakerfið undanfarna daga, mánuði og ár hafa flestar þessar fullyrðingar og upphrópanir verið hraktar og menn hafa leitt mjög haldgóð töluleg rök að því að aðferðin hafi þegar leitt til jákvæðs árangurs, t.d. í minnkandi útgerðarkostnaði, auknum aflagæðum, hagkvæmari rekstri og betri nýtingu skipastólsins. Ég sé ekki nokkra ástæðu til að rengja þær tölulegar upplýsingar sem við í sjávarútvegsnefndum höfum fengið þessu til sönnunar. Ég tel að það sé í hæsta máta góður vitnisburður fyrir það að íslenskir útvegsmenn og sjómenn kunni að notfæra sér hagkvæma kosti ef þeim er boðið upp á þá. Aftur eru sumir sem láta sig slík rök engu skipta. Þannig er málafylgjan einfaldlega í þessu máli.

Verst er að hv. 4. þm. Vesturl. skuli ekki vera í salnum. En meðan engin rök hafa verið leidd að því, engar tölur nokkurs staðar sést um það að sjómenn fleygi í auknum mæli fiski og að sjómenn noti í auknum mæli svindl og svínarí til að komast fram hjá þessum reglum, meðan engin rök hafa nokkurs staðar verið leidd fram í tölum fyrir þessu önnur en kjaftasögur á hafnarvigtum eða það sem sjómenn segja hver eftir öðrum, lýsi ég þetta staðlausa stafi.

Ég þekki þennan áburð mætavel frá skrapárunum góðu 1979 og 1980. Þá átti líka að vera mokað fyrir borð þriðjungi af afla togaranna vegna þess að fiskurinn væri of smár. Það var lögð í það mikil vinna að reyna að komast að því hvort einhver fótur væri fyrir þessum sögum. Það reyndist vera eins og venjulega að ein fjöður varð að fimm hænum og þannig er það enn.

Upp hafa komið hinar furðulegustu sögur um sölu á kvótum og svindl og svínarí í því sambandi. Þessi áróður hefur fengið býsna góðan hljómgrunn, undarlega góðan vil ég segja, miðað við það hvað margir hafa notfært sér þá hagræðingarmöguleika sem kvótasölur bjóða upp á. Mér dettur í hug að við Íslendingar þekkjum svo lítið til frjáls markaðskerfis. Vonandi er að opinn, frjáls gjaldeyrismarkaður, sem sjávarútvegurinn berst nú fyrir, opni augu manna fyrir því að það er viss kostur að geta selt fiskveiðileyfi. Ég tel það aftur og enn undarlegt skilyrði að bæjarstjórnir og sjómannafélög viðkomandi staða þurfi að samþykkja þessi viðskipti og ég tel það víst að ýmsir forsvarsmenn þeirra félaga telji það þungan kross að bera að þurfa að samþykkja það eða hafna því.

Ég veit að hæstv. ráðh. hefur haldið margar ræður um þetta mál og ferðast víða, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson kom inn á, með fríðu föruneyti milli framsóknarfélaga um allt land. Ég get ekki séð á samþykktum þeirra félaga, sem nú hafa fjallað um þetta mál, að hagsmunaaðilar hafi breytt mikið um afstöðu vegna þessara ferða. Hins vegar hefur þetta mál verið kynnt mjög vel.

Þetta eru hrein landshlutaskipti. Ein og ein hjáróma rödd þykist vera á móti þessu kvótakerfi af hugsjónaástæðum. Mér finnst það fullvæmið þegar við hv. alþm., dæmigerðir skrifstofumenn, erum að kveina yfir því að hömlur séu lagðar á dugmikla sjósóknara með miðstýringu sem þeir halda í misskilningi sínum að sé eitthvað öðruvísi í þessu kerfi en öðru.

Það er eitt sem ég get tekið undir með hv. þm. Skúla Alexanderssyni, sennilega það eina. Ég hlýt að kvarta yfir því að hæstv. ráðherra gleymdi að hafa nokkuð samband við okkur í sjávarútvegsnefndum í sumar. Ég veit að það er teygjanlegt hvað samráð eru og hvenær hafa skal samráð og hvað tilefnið þarf að vera mikið. Það var getið um það áðan að nánast eina samráðið hefði verið þessi 100 manna fyrirlestrafundur inni í Borgartúni sem við vorum kallaðir á með sólarhrings fyrirvara og þar var umræðutími nánast enginn.

Ég tel það ástæðu til að hafa samráð þegar reglugerð um smábátasókn var breytt í haust og þar með ákvæði um að smábátar gætu fengið að kaupa kvóta í lok ársins. Það ákvæði væri numið úr gildi með þessum reglugerðarákvæðum. Ég tel að það hefði átt að hafa samráð við sjávarútvegsnefndamenn. Ég tel að það hljóti að hafa verið í anda þeirra laga sem sett voru. En það er nú liðin tíð.

Hæstv. ráðh. þarf ekki að vera undrandi á því að sambandið stirðni nokkuð við þetta. Eitt er víst að hann hefur með þessu ekki auðveldað okkur, sem höfum verið hlynntir þessu kerfi, að vinna að framgangi málsins. Þetta samstarf verður að vera nánara á næsta ári og ég treysti því að svo verði.

Það er líka annað mál hvort skynsamlegt var að afhenda þetta frumvarpshandrit á fundum hagsmunasamtakanna. Ég veit dæmi til þess að þm. fannst það nokkuð skrýtið að fá þetta sent ofan af Hótel Sögu, að vísu sem handrit, áður en það var lagt fram á Alþingi.

Annars er þessari umræðu nú að ljúka í ár, að vísu á elleftu stundu eins og stundum áður. Ég skal svo sem ekki tefja tímann mikið lengur með umræðu um þetta hér. Auðvitað er ég ekki fyllilega ánægður með öll ákvæði frv. Enn þá er sumt óljóst þó svo að reglugerðarvinnunni sé lengra komið en áður og er það mjög vel. Mér hefur stundum dottið í hug að það sé fullmargt talið upp í þessu frv. þar sem aldrei er nokkur leið að telja upp alla skapaða hluti og sumt verður að vera í reglugerð. En þá ætti að vera þeim mun minni ástæða til að tala um einræðisvald sjútvrh. ef svo margt er neglt niður í lögum.

Það að þetta skuli gilda til tveggja ára er ég sannfærður um að muni hafa þau áhrif að menn munu síður rjúka upp í aflahrotum á Breiðafirði eða Vestfjarðamiðum og reyna að brjóta niður kerfið. Eins og sést hefur fækkar þeim nú, bæði hér á Alþingi og annars staðar, sem berjast fyrir því að þetta kerfi verði brotið niður. Ég minni á það aftur að engin þjóð, sem tekið hefur þetta upp, hefur numið það úr gildi. Menn hafa breytt því eða lagað það, en það hefur ekki verið numið úr gildi. Við sjáum glöggt dæmi þess þegar loðnuveiðar voru auknar um helming í haust og loðnuútgerðarmenn voru kallaðir til og beðnir um að segja álit sitt á því hvort þeir vildu viðhalda kvótakerfi á loðnuveiðum eður ei. Allir nema einn samþykktu að kvótakerfið væri það skásta sem þeir vissu til.

Ég reikna með að þetta frv. eigi eftir að fá nokkra umfjöllun enn í nefndum og í þinginu. En það er ekki langur tími sem við höfum til stefnu og í raun og veru eru allir, sem ég þekki til í útgerð, farnir að vinna eftir því þegar í stað, líka á Vestfjörðum og við Breiðafjörð.