16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

145. mál, stjórn fiskveiða

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að hvessa mjög til orðaskipta í umræðu um þetta mál í hv. deild á þessu stigi, en þó vil ég nefna að heldur fannst mér ósmekklegt að hv. þm. Karl Steinar Guðnason tók undir ummæli sem áttu sér stað ekki fyrir löngu í hv. Nd. um það að allmörg fyrirtæki landsins væru í biðsal dauðans. Sá orðskekill sem þessi ummæli viðhafði, þm. Ólafur Ragnar Grímsson, (Gripið Fram í: Varaþingmaður.) varaþingmaður rétt, er þekktur fyrir níðmælgi um fyrirtæki landsins. Ég vil minna á að fyrir fimm árum heyrði ég umræddan þm. fjalla um stöðu Flugleiða á fundi með starfsmönnum Flugleiða þar sem hann sagði blákalt að innan tveggja ára væru þeir allir búnir að missa sína vinnu og fyrirtækið dautt. Slíkt orðalag finnst mér ósmekklegt að viðhafa í þessari umræðu.

Það má stytta umræðuna á þeim grunni, finnst mér, að það hefur mikið áunnist á hinum ýmsu stigum í undirbúningi frá því í þingbyrjun þegar frv. hæstv. sjútvrh. var kynnt. Mikið hefur unnist á þeim tíma og til þess tíma er það var lagt fram með samvinnu manna og umræðum manna á milli þar sem skipst var á skoðunum og reynt að brúa hin ýmsu bil. Það má því segja að hér sé um að ræða þolanlega leið í því efni sem um ræðir. Ég held að það hafi verið af hinu góða hve þm. úr báðum deildum unnu að undirbúningi málsins á síðustu stigum. Ég rétt drep á nokkur atriði sem ég vil leggja áherslu á að séu höfð í huga þegar rætt er um frv. og reglugerð sem í smíðum er.

Í fyrsta lagi er brýn nauðsyn að jafnað verði milli togara á suður- og norðursvæði í rétti á þorskveiðum. Það er brýn nauðsyn að herða eftirlit með vinnslu um borð í frystiskipum. Það er sífellt ástæða til þess að brýna eftirlit til þess að stemma stigu við smáfiskadrápi. Ég fagna þeim árangri sem hefur náðst varðandi smábátaflota landsmanna. Þó vil ég segja að ég tel að eitt pláss í landinu ætti að vera undanskilið þeim reglum sem um er að ræða fyrir algjöra sérstöðu og það er Grímsey.

Það er ástæða til þess að hvetja til kapps um að rækta gæðaeftirlit þegar settar eru fram slíkar hugmyndir sem um er rætt í frv. um stjórnun fiskveiða, rækta gæðaeftirlitið mjög vel og markvisst. Jafnframt hljótum við, þó það sé hliðarmál í stjórnun fiskveiða, að brýna menn til markaðssóknar og baráttu um eðlilega stöðu fiskvinnslufólks í landinu.

Það er orðalagsákvörðun að lína og handfæri séu undanskilin kvóta þau tímabil ársins sem um hefur verið rætt, en ég tel brýnt að það sé ekki eingöngu notað orðið lína heldur einnig krókur eða handfæri.

Það má einnig minna á að það gengur ekki til lengdar að við getum ekki endurnýjað bátaflota okkar. Það er hliðarmál í þessari umræðu, en mér finnst ástæða til að nefna að það þarf að flýta því að samræma reglur þar um. Hættan við kvótakerfið er mest sú, að mínu mati, að þar er veruleg hætta á að breytt sé mynd útgerðar og athafna og einstaklingsframtaks í landinu sem hefur verið styrkur í þessum atvinnuvegi um áratuga skeið. Það þarf að tryggja möguleika allra aðila í þeim efnum áfram eins og verið hefur þótt nokkuð hafi syrt í álinn í þeim efnum um sinn. Þess vegna er endurskoðunarákvæðið mjög mikilvægt að mínu mati. En á meðan þorri hagsmunaaðila í sjávarútvegi hefur þá skoðun að brýnt sé og nauðsynlegt að stjórna með samkomulagi er farin þarna ákveðin millileið sem ég tel vera þolanlega eins og á stendur.