16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

145. mál, stjórn fiskveiða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Það eru ekki mjög margar spurningar sem til mín hefur verið beint, en Skúli Alexandersson hv. 4. þm. Vesturl. spurði að því hver hafi óskað eftir fiskifræðingum á fundum sem sjútvrn. hefur efnt til á nokkrum stöðum á landinu og hver greiði kostnaðinn við þessi ferðalög.

Því er til að svara almennt að í nokkrum tilfellum hefur verið óskað eftir þessum fundum, t.d, þeim fundi sem ég sat ásamt hv. þm. í Ólafsvík. Það var ósk atvinnumálanefndar þar. Þá var ekki óskað eftir fiskifræðingi og þar með var hann ekki með. (SkA: Hann var þarna fyrir.) Já, það var fiskifræðingur á staðnum. Að vísu talaði hann um annað mál.

En það má alltaf deila hvað skuli lagt í það að fara um landið. Það er alltaf verið að skamma þm. fyrir að láta aldrei sjá sig. Ég verð a.m.k. var við það í mínu starfi í mínu kjördæmi og ég býst við því að það sé svipað með aðra þm. Því finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar þm. eru farnir að skamma aðra þm. fyrir að efna til funda. Ég held að við ættum frekar að reyna að standa saman um að segja frá því hvað það er í reynd erfitt fyrir þm. að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína. Það er ekki heiglum hent. Auðvitað er af þessu alltaf nokkur kostnaður. Hann hefur að sjálfsögðu verið greiddur af mínu ráðuneyti, enda gert ráð fyrir því að svo sé.

Hér hefur nokkuð komið til tals að ekki hafi verið fullnægjandi samráð við þm. haft um þetta mál á ýmsum stigum. Ég vildi aðeins eyða í það nokkrum orðum.

Þegar reglugerð var sett um þetta mál eftir að lögin voru samþykkt síðast voru höfðu um það mjög náin samráð við þingnefndir í samræmi við það sem til var ætlast, enda hefur enginn um það rætt. Það voru fyrst gerð drög að frv. í mínu ráðuneyti. Síðan var kölluð saman ráðgjafarnefnd og þar voru til kvaddir að minni beiðni formenn sjútvn. þingsins eftir því sem ég best veit. Einhver misbrestur var á því. Menn eru í fríum og ferðalögum eins og gengur og hentuðu þeim illa þeir fundir. En um það var beðið að þeir væru kvaddir á þá fundi. Þegar ráðgjafarnefndin hafði lokið við að fara yfir frv. og það var tilbúið afhenti ég þau drög öllum þingflokkum hér á Alþingi. Ég man ekki nákvæmlega hvaða dag það var. Síðan var efnt til fundar inni í Borgartúni. Þar lágu einnig fyrir drög að frv. og sjávarútvegsnefndamenn fengu þau. Því næst var frv. prentað í handriti og því dreift í nægilega mörgum eintökum handa öllum þm., þori ég að fullyrða, áður en því var dreift á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Það má vel vera að einhverjir þm. hafi ekki fengið frv. með eðlilegum hætti og ég get tekið það á mig, en það er á engan hátt vísvitandi að það hefur orðið og má flokkast undir mistök.

Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. Birni Dagbjartssyni að það hefði áreiðanlega verið við hæfi og rétt að kalla til sjávarútvegsnefndamenn þingsins varðandi reglugerðina um smábátana á s.l. hausti. Við vorum að kanna hvort hægt væri að aðskilja atvinnumenn frá öðrum, en vorum komnir í mikla tímaþröng með það. Við höfðum einnig samráð við fulltrúa smábátaeigenda á síðustu stundu um málið. Þetta var í vikunni fyrir 1. september því við lögðum á það áherslu að ljúka verkinu þá. Hitt er svo annað mál, sem ég veit að menn hljóta að viðurkenna hér, að það er ekki alltaf auðvelt að ná saman sjávarútvegsnefndamönnum að sumri til. Þó að það sé vissulega hægt í mörgum tilvikum er það ekki auðvelt með litlum fyrirvara.

Þetta vildi ég segja almennt um þessi samráð. Það má alltaf um þau deila. Við erum ýmist skammaðir fyrir að hafa allt of mikil samráð við hagsmunaaðila eða allt of lítil samráð við þm. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði að við hefðum nánast engin samráð haft við stjórnarandstöðuna. Ég leyfi mér að fullyrða að stjórnarandstaðan hefur fengið aðgang að öllum gögnum varðandi þetta mál þannig að ég get ekki alveg tekið undir þessar fullyrðingar.

Hér hefur ýmislegt komið fram og hér hafa fallið mörg stór orð. Það er eins með þetta mál og stundum áður að það vinnst ekki tími til að svara því öllu. Ég ætla ekki að gera það. En ég get ekki komist hjá því að mótmæla því mjög ákveðið sem Þorvaldur Garðar Kristjánsson hv. 4. þm. Vestf. hefur haldið fram í þessu máli. Hann hefur látið í það skína að menn hafi að leiðarljósi sérhagsmuni gegn þjóðarhagsmunum og menn séu handbendi misskilinna sérhagsmuna. Ég verð að skilja þessi orð svo að hv. forseti sameinaðs Alþingis sé að koma því á framfæri að ég og mínir líkar séum handbendi misskilinna sérhagsmuna og séum að vinna gegn þjóðarhagsmunum. Þetta eru stór orð (Gripið fram í.) af munni hv. forseta sameinaðs Alþingis. En ég ætla ekki - veit að ekki eru tök á því - að ræða allar þær fullyrðingar sem hann hefur haft í frammi í þessu máli.

Ég svaraði fimm af fullyrðingum hans í ræðu sem ég hélt á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands á síðasta hausti. Ég vitna til þeirra svara án þess að ég vilji fara að lesa það hér upp.

Ég vil halda því fram að í því frv., sem hér er verið að ræða um, sé um mikla málamiðlun að ræða. Þar er leitast við að taka tillit til sem flestra hagsmuna. Ég tel að þar sé um málamiðlun að ræða milli hagsmuna einstakra sjómanna, skipa, byggðarlaga og landshluta og kannske ekki síst málamiðlun milli hagsmuna nútíðar og framtíðar. Þetta er mjög erfitt mál. Menn halda því gjarnan fram að hér sé verið að skerða athafnafrelsi manna um of. En það er alveg sama með hvaða hætti verður farið í stjórnun fiskveiða, miðað við þann stóra flota sem við eigum í dag. Þar verður alltaf um skerðingu athafnafrelsis að ræða. Menn geta þá líka farið út í að skammta enn þá naumar byggingu skipanna og fækka þeim með stjórnvaldsákvörðunum eins og stundum er sagt. En er það ekki jafnframt skerðing á athafnafrelsi? Í þessu máli sem mörgum öðrum er því miður enginn kostur góður.

Hv. þm. Eiður Guðnason spurði hér um færslu á afla milli skipa. Ég get aðeins upplýst hvert það magn var sem hefur verið fært á milli skipa á tímabilinu 1. janúar til 30. nóvember og ég hef afhent hv. formanni sjútvn. það blað. Það eru í fyrsta lagi 82 færslur milli skipa í eigu sama útgerðaraðila. Það eru samtals 7611 tonn. Það eru í öðru lagi 269 færslur milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð. Það eru 16 100 tonn. Það er 81 færsla á milli skipa sem skipta á afla að jöfnu verðmæti. Það eru 4865 tonn. Og það eru 105 færslur milli byggðarlaga að fengnum umsögnum sveitarstjórna og sjómannafélaga, samtals 16 368 tonn, og 79 færslur á síldarkvótum, 16 065 lestir.