16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. Ed. hefur nú haft frv. til lánsfjárlaga til meðferðar og afgreitt það frá deildinni. Með því að lánsfjárlög eru nú lögð fram í beinum tengslum við fjárlög er ótvíræð nauðsyn á því að frv. verði afgreitt fyrir jólaleyfi þm. og því er nokkuð skammur tími til stefnu.

Hv. Ed. hefur gert nokkrar breytingar á frv. frá því sem það var lagt fram í upphafi þings. Frv. gerði ráð fyrir því að heildarlántökur yrðu 11,5 milljarðar kr. og þar af yrðu teknir að láni 7,9 milljarðar kr. erlendis. Í meðferð frv. í Ed. hafa verið gerðar talsverðar breytingar sem leiða til þess að í stað þess að heildarlántökur voru áætlaðar 11,5 milljarðar eru þær 11,2 milljarðar og erlendar lántökur 7,4 milljarðar í stað 7,9 milljarða eins og upphaflegt frv. gerði ráð fyrir.

Ríkisstj. tilkynnti fyrir nokkrum vikum breytingar til þess að draga úr opinberum umsvifum sem miðuðu að því að lækka erlendar lántökur um 800 millj. kr. frá því sem ella hefði orðið. Hluti af þessum niðurskurði kemur fram hjá A-hluta ríkissjóðs, en um 300 millj. kr. hjá Landsvirkjun og til þess að draga úr lántöku til Þróunarfélagsins. Niðurskurður á framlögum til Landsvirkjunar var 250 millj. kr., niðurskurður á lánsfjáröflun til Þróunarfélagsins 50 millj.

Í meðferð Ed. hafa verið teknar inn óskir um nýja lánsfjáröflun sem svarar til 290 millj. kr. Veigamest er fjáröflun til endurnýjunar og viðgerða á fiskiskipum, 200 millj. kr. Lán vegna hitaveitna hækka um 35 millj., lán vegna Útflutningslánasjóðs um 40 millj. og lántökur vegna Iðnþróunarsjóðs um 15 millj. kr.

Þetta eru í meginatriðum þær breytingar sem orðið hafa á frv. Til viðbótar er rétt að geta þess að innlend fjáröflun hefur verið aukin um 230 millj., en það er ráðgert að taka þær að láni hjá lífeyrissjóðum til að mæta auknum útgjaldaáformum byggingarsjóða ríkisins.

Þá hefur verið gerð sérstök breyting vegna raðsmíðaskipa. Það er gert ráð fyrir að fjmrh. verði heimilað að ábyrgjast lán vegna sölu fimm fiskiskipa sem voru raðsmíðuð hérlendis á árunum 1982-1985 og auk þess er lagt til að ríkissjóður yfirtaki hluta fjármagnskostnaðar af þeim lánum sem skipasmíðastöðvarnar tóku til að fjármagna smíði skipanna. Þetta er óhjákvæmileg ráðstöfun til að greiða fyrir sölu þessara skipa.

Þegar lánsfjárlög koma nú til meðferðar í Nd. eru nokkur atriði sem enn þarf að taka tillit til við meðferð málsins hér í deildinni.

Í fyrsta lagi vil ég minna á að þrjár hitaveitur hafa óskað eftir skuldbreytingum á lánum. Hér er um að ræða Hitaveitu Akureyrar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sem fara fram á allverulegar skuldbreytingar. Þar er um að ræða erlend lán. En í þriðja lagi kemur til ósk um skuldbreytingu vegna Hitaveitu Vestmannaeyja. Þar er um að ræða innlent lán. Ég geri ráð fyrir því að allar nauðsynlegar upplýsingar um þetta efni verði tiltækar þegar hv. fjh.- og viðskn., sem ég vænti að fái málið til meðferðar, hefur umfjöllun um frv.

Loks þarf í öðru lagi vegna hinna beinu tengsla við fjárlagafrv. að taka tillit til lánsfjárþarfar ríkissjóðs, en um þá þörf verður ekki með fullri vissu vitað fyrr en ljóst er hver verður endanleg afgreiðsla á fjárlagafrv. og því nauðsynlegt að tengja lokaafgreiðslu þess og lokaafgreiðslu lánsfjárlaganna saman. Í því efni þarf að taka tillit til væntanlegrar lánsfjárþarfar ríkissjóðs sem í ljós kemur við lokaafgreiðslu fjárlaganna úr fjvn.

Þá vil ég geta þess að æskilegt er að setja fastari og ákveðnari reglur að því er varðar geymdar lántökur og ábyrgðarheimildir. Það hefur verið svo í framkvæmdinni að leitt hefur til nokkurrar óvissu hverjar væru heildarábyrgðir ríkissjóðs. Ég tel því nauðsynlegt, til þess að koma á meiri festu í þessu efni, að lántökuheimildir gildi í eitt ár, þó þannig að unnt verði með umsóknum að fá framlengingu á lántökuheimildum sem af einhverjum ástæðum eru ekki notaðar. Þetta vildi ég taka fram hér og nú vegna þess að nauðsynlegt er að koma á fastari skipan að því er þessi mál varðar þannig að ljóst sé hvert umfang veittra ríkisábyrgða er í samræmi við lög um það efni.

Loks er í fjórða lagi nauðsynlegt við meðferð málsins hér í Nd. að taka tillit til væntanlegrar verðlagsuppfærslu á fjárlagafrv. sem einnig þarf að taka til lánsfjárlaga. Ég geri ráð fyrir því að þegar hv. fjh.- og viðskn. fær málið til meðferðar liggi nánari upplýsingar fyrir um það efni.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi málsins, en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.