16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. S.l. föstudag fór fram 2. umr. um fjárlagafrv. og varð þá mörgum tíðrætt um nauðsyn aðhalds og aðgæslu í þeim hluta ríkisfjármálanna. Slíkt á ekki síður við um þann hluta þeirra sem hér er nú til umræðu, lánsfjárlögin. Hafi einhvern tíma verið ástæða til varfærni í málaflokki er það svo sannarlega nú. Nýlega höfum við fengið staðfest að hallinn á ríkissjóði verði tæpast undir 2,5 milljörðum á þessu ári og viðskiptahallinn verði yfir 5 milljarðar. Við slíkar aðstæður og með tilliti til margendurtekinna yfirlýsinga hæstv. ríkisstj. um nauðsyn þess að hamla gegn aukningu erlendra skulda og raunar minnka þann bagga sem þegar er að sliga þjóðina vekur furðu að hér skuli eiga að afgreiða lánsfjárlög í þeirri mynd sem orðin er.

Hér mætti auðvitað flytja langa ræðu um fortíðina, tíunda öll fjárfestingarmistökin sem eru fyrst og fremst orsök þess vanda sem við er að fást í ríkisfjármálunum, óhóflegar og óarðbærar fjárfestingar í stórvirkjunum, óseljanlega togara, verksmiðjur sem sennilega munu aldrei skila arði og varla eða ekki einu sinni standa undir sér, flugstöðvarbyggingu sem hæglega gat beðið o.fl. Vegna þessara framkvæmda, sem stofnað var til af fyrirhyggjuleysi og ábyrgðarleysi, er nú við slíka skuldabagga að fást að ekki er lengur á bætandi. Er löngu orðin spurning hvort það er ekki í raun hagkvæmara og arðbærara að minnka erlendar skuldir þjóðarbúsins en jafnvel að taka lán til framkvæmda sem að öðru jöfnu mundu teljast arðbærar. Sú spurning virðist hins vegar ekki vefjast fyrir hæstv. ríkisstj. Hún lætur sér ekki segjast.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir erlendum lántökum að fjárhæð allt að 2224 millj. kr. Þeim á að ráðstafa með ýmsum hætti, svo sem sjá má í grg. með fjárlagafrv., og eru þar sumir liðir auðvitað óhjákvæmilegir og þarfir.

En þar er m.a. gert ráð fyrir 300 millj. kr. til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Kvennalistinn hefur verið mótfallinn þeirri framkvæmd frá upphafi á tveimur forsendum. Annars vegar erum við andvígar því að Bandaríkjamenn fjármagni þessa byggingu og hins vegar höfum við ekki talið þessa framkvæmd tímabæra eins og á stendur í ríkisbúskapnum. Íslendingar hafa nú þegar lagt nær 200 millj. kr. í flugstöðina og áformað er að verja til hennar 300 millj. kr. á næsta ári, sem er raunar 200 millj. kr. minna en í fyrstu var áformað, og við eigum enn eftir að leggja hundruð milljóna í þessa hít áður en henni verður lokið. Þetta er að okkar mati glapræði hið mesta, ekki síst þegar um allt land standa hálfbyggð hús sem ríkissjóður telst ekki hafa efni á að fjármagna, skólar, dagheimili, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús o.s.frv.

3. gr. frv. fjallar um lántökur Landsvirkjunar. Þar hefur orðið nokkur stefnubreyting, ánægjuleg stefnubreyting, þar sem lántökuheimild hefur verið lækkuð úr 740 millj. í upphaflegri gerð frv. í allt að 490 millj. Getur Kvennalistinn að sjálfsögðu ekki annað en fagnað því, enda höfum við frá upphafi hvatt til samdráttar á þessu sviði, en það eru einmitt offjárfestingar í virkjanaframkvæmdum sem sök eiga á mestu skuldabyrðum okkar. Meira en 50% erlendra skulda þjóðarinnar eru vegna virkjanaframkvæmda eins og þm. á að vera kunnugt.

Nátengd þeirri stefnu sem rekin er í virkjanamálum á hverjum tíma hlýtur að vera sú stefna sem rekin er í iðnaðarmálum. Þótt virkjanastefna núverandi ríkisstj. hafi tekið breytingum er greinilegt að það hefur iðnaðarstefnan ekki gert því í seinni hluta 3. gr. lánsfjárlagafrv. er gert ráð fyrir að heimila Landsvirkjun að taka lán allt að 200 millj. kr. ef um semst um stækkun álversins í Straumsvík á árinu 1986. Það er því ljóst að gamli stóriðjudraumurinn er engan veginn dauður úr öllum æðum hjá hæstv. ríkisstj. og ekki er sú hugmynd heldur úti að eiga aukin samskipti við auðhringinn Alusuisse í þeim efnum því eins og allir vita: Ef af stækkun álversins í Straumsvík yrði, þá yrði það í samstarfi við þennan viðsjárverða auðhring á einn eða annan hátt. Kvennalistinn hefur oftsinnis varað við slíkum áformum, ekki síst vegna þess að þar með yrði þessi raforkukaupandi enn stærri en hann er þegar í íslensku efnahagslífi og þeir sem kynnt hafa sér viðskipti okkar við þessa aðila og sögu þeirra vita að slíkt væri glapræði. Að öllum líkindum kemur hér fram á næstu dögum brtt. við 3. gr. þess efnis að síðari hluti hennar falli niður.

Samkvæmt venju er II. kafli lánsfjárlagafrv. helgaður skerðingu á lögbundnum framlögum til hinna ýmsu málefna og er það hin versta lesning. Þar er af mörgu að taka þótt ég ætli mér ekki að gera það á tæmandi hátt, a.m.k. ekki við þessa umræðu.

Í 11. gr., sem nú er væntanlega orðin 12. gr., er sett þak á Lánasjóð ísl. námsmanna og kemur svo sem ekki á óvart. Í grg. með fjárlagafrv. er viðurkennt að lánasjóðnum sé ekki ætlað nægilegt fé miðað við núgildandi lög og reglugerð sjóðsins og boðað að málefni hans verði skoðuð og reglum breytt. Engar fréttir hafa enn borist af því hvernig lánasjóðurinn eigi að treina það fé sem honum er ætlað.

Ég hef áður lýst því að ekkert vit sé í því að ætla Lánasjóði ísl. námsmanna að fjármagna útlán sín með dýrum erlendum lánum. Ríkissjóður verður að standa undir fjármögnun þess sjóðs meðan hann er að ná fótfestu. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem oft hefur heyrst, m.a. hér á Alþingi, að lög og reglugerð lánasjóðsins þurfi að endurskoða með tilliti til fenginnar reynslu. g vil hins vegar vara við þeim hugsunarhætti, sem mjög er farið að gæta, að námsmenn séu almennt ofhaldnir af sínum kjörum, lifi jafnvel í vellystingum praktuglega. Þau dæmi kunna svo sem að vera til. Ekkert kerfi er skothelt með öllu. Ég þekki ekki slík dæmi. Vera má að námsmenn gætu unað við eitthvað þrengri kost en þeim ber samkvæmt núgildandi lögum og reglum og er sjálfsagt að kanna það og gera breytingar ef fært þykir. En þegar talað er um hve fáránlegt það sé í rauninni að námsmenn búi við lakari kjör þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn en þeir gera meðan þeir eru við nám er meginorsökin vitanlega sú hversu hraksmánarleg launin eru orðin í mörgum greinum, t.d. og kannske einkum við kennslustörf. Við eigum vitanlega að sjá sóma okkar í því að búa svo að ungu fólki að það geti stundað nám sitt á jafnréttisgrundvelli án tillits til búsetu, kynferðis eða efnahags aðstandenda.

Við eigum eftir að ræða málefni lánasjóðsins frekar í fjvn. og við afgreiðslu fjárlaga svo að ég hef ekki fleiri orð um hann að sinni, en ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað líði endurskoðun á málefnum sjóðsins því hafi hann sagt eitthvað um það í framsöguræðu sinni hefur það farið fram hjá mér.

Í 13. gr. er Kvikmyndasjóður skorinn niður við trog og er það í stíl við stefnu hæstv. ríkisstj. í menningarmálum. Það er að mínu mati einstaklega nöturlegt að þessi sjóður skuli enn á ný lenda undir niðurskurðarhnífnum þar sem lögin um hann voru samþykkt í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. eða vorið 1984. Menn hljóta að spyrja: Til hvers var verið að setja þessi lög? Var hér aðeins um sýndarmennsku að ræða? Með slíkum efndum er verr af stað farið en heima setið. Það er einstaklega nöturlegt í ljósi þess hversu lífvænleg þessi listgrein er hér á landi og vænleg til árangurs og jafnvel vænleg til þess að skila tekjum í þjóðarbúið ef vel er á málum haldið. En þetta er auðvitað, eins og ég sagði áðan, í stíl við þá menningarstefnu sem rekin er af hæstv. ríkisstj. Það er harla litlum peningum varið til menningarmála hér á landi og sést það glöggt ef fjárlagafrv. er skoðað.

Ef menningarmáladæmið, eins og það er stundum kallað, yrði gert upp, hversu miklar tekjur ríkið hefur af menningarstarfsemi hér á landi og þær settar upp á móti þeim styrkjum sem veittir eru til þessara mála, kæmi ekki á óvart þótt hallaði heldur á ríkissjóð, þ.e. að ríkissjóður fengi meira í sinn hlut en þeir sem skapandi listir stunda. Formaður Rithöfundasambandsins, Sigurður Pálsson, hefur nýlega gert þetta dæmi upp fyrir rithöfunda og hann komst að þeirri niðurstöðu að á meðan innan við 10 millj. væri veitt í Launasjóð rithöfunda skilaði vinna rithöfunda yfir 100 millj. kr. í söluskatti til ríkissjóðs svo ekki sé minnst á annan arð sem fylgir sköpunarstarfi rithöfunda óg sem skilar sér með einum eða öðrum hætti í ríkissjóð, eins og skattar og skyldur prentsmiðjueigenda, útgefanda og annarra. Svo má vafalaust reikna önnur dæmi í menningarmálunum.

Í 25. gr. er svo fjallað um þakið á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefur verið skorinn niður öll árin sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur verið við völd. Það er vissulega alvarlegt mál og raunar ólíðandi um leið og ríkisstj. sker niður framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda um allt að helming. Er það í hróplegu ósamræmi við þá stefnu, sem flestir landsmenn og þar með stjórnmálamenn virðast vera fylgjandi, að sveitarfélögin eigi að taka til sín meira af verkefnum og þá um leið meiri ábyrgð á verkefnum og verklegum framkvæmdum. Sú stefna bíður nú hvert skipbrotið á fætur öðru í tíð þessarar ríkisstj. þrátt fyrir yfirlýstan vilja um annað. Er ekki að undra þótt landsbyggðarfólk sæki nú fast á um breytingar í stjórnskipan þar sem valdahlutföllum verði breytt til muna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla frekar um einstakar greinar þessa frv., a.m.k. ekki nú um sinn, það er svo sem ekki líklegt að því verði breytt úr þessu, því miður. Ólíklegt er raunar að við þessi lög verði staðið þótt þau hljóti staðfestingu. Þau eru einfaldlega ekki í samræmi við staðreyndir. En ég vil að lokum spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig á að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs á þessu ári umfram það sem segir í 28. gr. og hvernig á að fjármagna þann halla sem fyrirsjáanlegur er á næsta ári?