16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að víkja nokkrum orðum að sumum þeirra atriða sem fram hafa komið í umræðunni.

Hv. 5. þm. Reykv. vék fyrst að þeirri greiðslu sem Framleiðsluráð landbúnaðarins fékk fyrir fáeinum dögum þar sem um var að ræða fyrirframgreiðslu á niðurgreiðslum til að standa við ákvæði nýju landbúnaðarlöggjafarinnar um staðgreiðslu til bænda. Hér er ekki um að ræða ný eða aukin útgjöld, en þau færð fram til að standa við ákvæði þessara nýju laga. Auðvitað er það svo að þau eru langt frá því að vera gallalaus. Með þeim var þó gerð tilraun til að ná sáttum á milli framleiðenda og neytenda, en um langt árabil hefur verið eins konar styrjöld á milli framleiðenda og neytenda vegna landbúnaðarafurða.

Það er með þessum lögum gerð veruleg breyting á verðmyndunarkerfinu. Hinn gamli verðlagsgrundvöllur, þar sem bændur og framleiðslufyrirtæki voru sameinuð í einum verðlagsgrundvelli, er brotinn upp. Það er nú sjálfstæð ákvörðun á verðlagningu til bændanna og aftur til framleiðslufyrirtækjanna. Þetta hygg ég að sé ótvíræður kostur.

Með þessari löggjöf voru enn fremur reistar skorður við framleiðslu og á fimm árum við það miðað að framleiðslan yrði í samræmi við þarfir innlends markaðar. Hér tel ég að einnig hafi verið brugðist við vanda sem uppi er vegna offramleiðslu og augljóst að með öllu var útilokað að ná jafnvægi þarna á milli í einu vetfangi svo mjög sem hallaði á í þessu efni.

Í heild sinni held ég því að ekki fari á milli mála að þessi löggjöf markar ákveðin framfaraspor þó að hún sé fjarri því að vera gallalaus og mætti að sjálfsögðu taka ýmsum bragarbótum. Þar er um að ræða verulegar framfarir eigi að síður og það er mikils um vert ef unnt reynist að ná jafnvægi á milli framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða á því árabili sem lögin taka til að þessu leyti.

Hv. þm. gerði langt mál úr því sem honum fannst að skorti í almennri fjármálastjórn í landinu, að ekki væri hlýtt fyrirmælum svokallaðra Ólafslaga um samræmdar reglur um arðsemismat fjárfestinga. Mikil er trú hv. þm. á að samræmdar opinberar reglur um arðsemismat leysi allan vanda í þessu efni. Ég er hv. þm. á margan hátt sammála um að við höfum ekki fengið þann arð af okkar fjárfestingarfjármagni sem nauðsyn ber til ætlum við okkur að halda hér uppi velferðarþjóðfélagi og tryggja fólkinu í landinu eðlileg lífskjör. En hitt held ég að sé alger fjarstæða að við náum þessum árangri með einföldum ákvörðunum eða samræmdum reglum um arðsemismat. Í þessu efni verða fjárfestingarlánasjóðir auðvitað að taka ákvarðanir, en það sem skiptir máli er vaxtastefnan og það viðhorf að menn beri ábyrgð á sínum framkvæmdum og þeim lánum sem þeir taka. Með því móti hygg ég að við getum tryggt aukna arðsemi af fjárfestingarfjármagni, en sú leið sem kveðið er á um í Ólafslögum og hv. þm. virðist hafa tröllatrú á hygg ég að hafi litla þýðingu í þessu efni. Menn geta fært í letur samræmdar reglur um þetta efni, en þær skila ekki miklum árangri.

Hv. þm. gat einnig um nauðsyn þess, þegar fjallað er um erlendar lántökur, að hafðir væru í huga allir meginþættir fjármagnsmarkaðarins, þ.e. bæði ríkissjóður, A- og B-hluti, og eins fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna. Því verður ekki á móti mælt að því er ríkissjóð varðar að tekist hefur að spyrna á þann veg við fótum varðandi erlendar lántökur að þær eru ekki meiri en nemur afborgunum af erlendum lánum. Hitt er ljóst að í heild hefur okkur ekki tekist að ná þessu markmiði og mætti fara mörgum orðum um það efni. Þrálátur og viðvarandi viðskiptahalli leiðir til stöðugt aukinnar skuldasöfnunar erlendis og það er að sönnu rétt að ekki hefur tekist að snúa við svo að um munar í þessu efni.

Hv. þm. talaði um að ríkisstj. hefði mistekist að draga úr innstreymi erlends fjármagns. Að því leyti sem þm. á við viðskiptahalla er þetta rétt, en að hinu leytinu, er snýr að ríkissjóði sjálfum, hefur tekist með gerð fjárlaga og lánsfjárlaga nú að takmarka erlendar lántökur við afborganir. Auðvitað þurfum við að setja okkur strangari mörk í þessu efni, en við verðum líka að gæta að því að stíga ekki svo stór skref að leiði til verulegs atvinnuleysis. Ég er þeirrar skoðunar að það sé útilokað á næsta ári að ná því marki að fullkominn jöfnuður verði á viðskiptum við aðrar þjóðir. Það er nauðsynlegt að ná árangri í því að lækka viðskiptahallann frá því sem er, en ætli menn sér að ná fullum jöfnuði á viðskiptum við aðrar þjóðir á næsta ári gerist það ekki nema með verulegri kjararýrnun, með kaupmáttarrýrnun. Við höfum talið nauðsynlegt að ná auknum árangri í þessu efni. Við höfum gert það með aðhaldsaðgerðum af hálfu opinberra aðila og á þann veg freistum við þess að ná árangri í að draga úr viðskiptahalla, en ætli menn sér að eyða honum með öllu eru þeir að segja í raun og veru að þeir telji nauðsynlegt að rýra kaupmátt verulega á næsta ári til að ná þessu markmiði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óraunhæft og ekki skynsamlegt eins og sakir standa og við verðum þess vegna að taka okkur nokkuð lengri tíma til að ná þessu fram.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði hvar nýjungarnar væru og hvað hefði áunnist á síðustu vikum. Hann vitnaði til þess að erlendar lántökur væru áætlaðar 7,9 milljarðar kr. Hann gleymdi hins vegar að taka tillit til þess að í meðförum frv. í hv. Ed. hafa erlendar lántökur lækkað úr 7,9 milljörðum niður í 7,4. Það er m.a. árangur af því starfi sem unnið hefur verið á fáum vikum við að draga úr opinberum umsvifum í því skyni fyrst og fremst að draga úr lánsfjárþörf opinberra aðila. Ég tel að hér sé um að ræða mjög markverðan árangur á tiltölulega stuttum tíma.

Hv. þm. spurði einnig um afstöðu til tillagna sem birtar voru í auglýsingu fyrir nokkrum dögum frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Ég skildi mál hv. þm. á þann veg að þar hefði hann fengið nýja biblíu og vildi koma fram öllum þeim hugmyndum og tæki undir þær í einu og öllu og undraðist að aðrir skyldu ekki gera það við svo búið. Ég skil þær hugmyndir sem að baki tillögum Sambands ungra sjálfstæðismanna liggja á þann veg að þær telja nauðsynlegt að draga úr viðskiptahalla og innstreymi erlends fjármagns. Það er að sönnu svo að þetta mikla innstreymi hefur valdið þenslu, valdið launaskriði og misskiptingu tekna. Þess vegna er mjög mikilvægt að ná árangri á þessu sviði

Hitt er annað að við svo búið er ekki unnt að framkvæma í einu vetfangi allar þær tillögur sem fram koma af hálfu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Sumar þeirra, eins og til að mynda hugmyndir um áframhaldandi sölu á ríkisfyrirtækjum, eru góðra gjalda verðar. Á því sviði hefur þegar verið unnið mikið verk af hálfu núv. ríkisstj. og því verður auðvitað haldið áfram. Það er jafnframt nauðsynlegt að gera verulegar breytingar á bæði útgjaldakerfi ríkisins og tekjuöflunarkerfinu. Við búum við sjálfvirkt útgjaldakerfi sem mun á næstu árum stórauka útgjöld ríkisins og á því verðum við að taka. Aðgerðir á því sviði taka hins vegar nokkurn tíma og skila ekki árangri í einu vetfangi, en það er ætlun ríkisstj. að vinna að þeim málum í því skyni fyrst og fremst að koma í veg fyrir að ríkisútgjöld vaxi svo sem horfur eru á ef ekki verður spyrnt við fæti.

Ég er einnig sammála hv. þm. um að það er nauðsynlegt að byggja upp tekjuöflunarkerfið, bæði að því er varðar beina og óbeina skattheimtu. Þau mál eru nú öll í undirbúningi og hefur verið gerð grein fyrir því af hálfu ríkisstj.

Hv. þm. lýsti því yfir að hann harmaði mjög að ekki skyldi hafa verið gengið lengra í því að lækka skatta. Jafnframt tók hann fram að það væri nauðsynlegt að stórhækka skatta til að koma í veg fyrir erlendar lántökur. Þannig virðist hvað reka sig á annars horn í þessum málflutningi.

Hann boðaði tillögur um 400-500 millj. kr. tekjuaukningu í formi eignarskatta. Það eru innan við 1% framteljenda sem eiga eignir yfir 4 millj. kr. og greiða um 25% af eignarskattinum, um 25% af 350-360 millj. kr., sem lagður var á á þessu ári. Af þessum tölum má sjá að hugmyndir hv. þm. í þessu efni eru ekki býsna raunhæfar. Þar að auki er á það að líta að í vor sem leið var tekin ákvörðun um sérstakan eignarskattsauka á eignir yfir ákveðnu marki til að standa undir útgjöldum Byggingarsjóðs ríkisins.

Hv. þm. taldi nauðsynlegt að lækka söluskattshlutfallið, fækka undanþágum, en stórauka tekjur. Ég kem ekki auga á það í fljótu bragði að miklar líkur séu á því að ríkissjóður auki tekjur sínar með því að fækka undanþágum og lækka um leið skattprósentuna. Ég hygg að þegar upp verður staðið mundu slíkar ráðstafanir nokkurn veginn vega hvor aðra upp. Á það er einnig að horfa í þessu sambandi að verulegum erfiðleikum er háð að ráðast til atlögu við söluskattsundanþágurnar og ég hygg að með raunhæfum hætti verði skattkerfi óbeinna skatta ekki byggt upp nema með virðisaukaskatti eins og ráð er fyrir gert.

Hv. þm. vék að nokkurra ára gamalli ritsmíð sem ég hafði látið frá mér fara og einkanlega að kafla í þeirri ritsmíð sem settur var fram í nokkrum gáska um nauðsyn breytinga í okkar efnahagskerfi.

Þar var fyrst vikið að hugmyndum um lækkun skatta. Vafalaust er það svo að þær hugmyndir hafa ekki ræst að öllu leyti, en á þessu ári var eigi að síður stigið verulegt skref í því að lækka tekjuskatta og ýmsir aðrir skattar hafa verið lækkaðir á undanförnum tveimur árum.

Í öðru lagi minnti þm. á fyrirheit um að opinberum rekstri, sem væri í samkeppni við frjálsan atvinnurekstur, yrði hætt. Mjög stór skref hafa verið stigin í þessu efni á undanförnum árum og áform eru uppi um að halda því áfram. Í þessu efni hefur því einnig náðst verulegur árangur.

Í þriðja lagi dró þm. fram þá hugmynd að sett yrði ný verðmyndunarlöggjöf um frjálsa verðmyndun og bann við samkeppnishömlum og hringamyndun. Í þessu efni hefur einnig náðst verulegur árangur á undanförnum tveimur árum. Verðmyndun er nú öll frjálsari en áður var og hefur leitt til meiri samkeppni og lægra vöruverðs. Ákvarðanir hafa jafnvel verið teknar um að vísu minni háttar breytingar á lögum um verðlagningu sjávarafurða þar sem með fullu samkomulagi þeirra sem aðild eiga að Verðlagsráði er unnt að gefa verðmyndun frjálsa á því sviði.

Þá vék þm. að fyrirheitum um aukið frjálsræði í gjaldeyrisverslun. Einnig á þessu sviði hefur frjálsræði verið aukið verulega á undanförnum tveimur árum.

Þm. vék að fyrirheitum um ný markmið í menntastefnu. Þar hefur einnig verið unnið í þeim anda að auka valddreifingu og draga úr hópmeðalmennsku.

Loks vék þm. að þeirri stefnuyfirlýsingu að atvinnurekendur og launþegar ættu að taka ákvarðanir í kjarasamningum upp á eigin ábyrgð. Það fengu þeir að gera á s.l. ári með alkunnum afleiðingum.

Ég ætla svo ekki að víkja að sjöunda fyrirheitinu um það að menn gætu tekið hvíldardaginn heilagan og hvílst. Ég hef ekki kynnst því á undanförnum vikum að geta hagnýtt mér það.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að nokkrum atriðum í frv. sjálfu, fyrst að Landsvirkjun og spurði um hvaða framkvæmdir væru á döfinni hjá Landsvirkjun á næsta ári. Fyrst er rétt að taka fram að við meðferð fjárlagafrv. í hv. Ed. voru lánsfjáráform Landsvirkjunar lækkuð um 250 millj. kr. og Blönduvirkjun frestað um eitt ár. Ég hef að vísu ekki haldbærar upplýsingar um skiptingu þeirra 490 millj. kr. sem eftir standa, en mjög verulegur hluti þeirra mun fara til endurgreiðslu á lánum, til afborgana og vaxta af erlendum lánum, meginhluti þessarar upphæðar. En sjálfsagt er og eðlilegt að hv. fjh.- og viðskn. fái um það mál gleggri upplýsingar við meðferð málsins í nefnd.

Þm. vék einnig að hækkun á rafmagnsverði og hélt því fram að ákvörðun hefði verið tekin um 14% hækkun á rafmagnsverði sem mundi valda nýjum erfiðleikum hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og fyrirsjáanlegt væri að taka þyrfti erlent lán af þeim sökum. Það er rétt að taka fram að endanleg ákvörðun um þetta hefur ekki verið tekin. Ég geri ráð fyrir því að tillögur um þetta efni verði ræddar á ríkisstjórnarfundi á morgun, en það er ekki ætlunin að taka neinar ákvarðanir í þessu efni sem leiða til aukinnar erlendrar lántöku. Það er óskynsamleg og óráðleg stefna, sem hv. 3. þm. Reykv. þekkir af eigin raun og þjóðin hefur fengið sig fullsadda af, að vísa opinberum fyrirtækjum á erlendar lántökur til að standa undir rekstrarkostnaði.

Þm. vék einnig að Þróunarfélaginu sem nýlega var stofnað samkvæmt lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi. Þetta félag hefur allmikil fjárráð. Það er nú um það bil að hefja starfsemi sína. Hér er um hlutafélag að ræða með þátttöku ríkisins þar sem ríkið er í miklum minni hluta. Stjórn þessa félags mun að sjálfsögðu móta stefnu þess og útlánaáform. Á þessu stigi máls liggur ekki fyrir hver verða meginverkefni þessa fyrirtækis á næsta ári, en ég þykist vita að það muni fyrir sitt leyti stuðla að framþróun í atvinnumálum.

Að því er Byggðastofnun varðar hygg ég að sú upphæð sem hér er til ráðstöfunar muni duga til að standa undir þeim áformum sem Byggðastofnun hefur uppi um lánveitingar á næsta ári til að stuðla að eðlilegri byggðaþróun í landinu.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að Lánasjóði ísl. námsmanna. Það gerði reyndar einnig hv. 7. landsk. þm. Þær tölur, sem birtar hafa verið um mismun á tölum fjárlagafrv. og lánsfjárlaga annars vegar og áætluðum útlánum sjóðsins á næsta ári, byggjast m.á. á því að lánasjóðurinn hefur stuðst við framreikning á tölum yfir á verðlag næsta árs, en tölur fjárlagafrv. eru miðaðar við desemberverðlag og eiga þó eftir að taka uppfærslu til rétts verðlags í desember, en sem kunnugt er hafa þær áætlanir ekki staðist um desemberverðlag sem lágu til grundvallar fjárlagagerðinni á haustmánuðum.

Hitt er svo satt og rétt að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir þó nokkurri skerðingu á námslánum á næsta ári og nú eru í undirbúningi breytingar á lögum og reglum um lánasjóðinn sem miða að því að taka tillit til þessara aðstæðna.

Hv. 3. þm. Reykv, og reyndar einnig hv. 7, landsk. þm. viku að nokkrum þeirra atriða sem í lánsfjárlögum eru og kveða á um skerðingu á framlögum til einstakra sjóða og verkefna. Það er að sönnu rétt að í flestum tilvikum, sjálfsagt öllum, hagar svo til að við vildum öll geta varið auknu fjármagni til þeirra verkefna sem þar er um fjallað. En við þær miklu þrengingar sem við búum við nú er óhjákvæmilegt að setja útgjöldum takmörk, svo sem oftast nær hefur verið gert á undangengnum árum með þessum hætti, og er það einnig nauðsynlegt nú í ljósi sérstakra erfiðleika því að ég hygg að hv. þm. geti verið um það sammála að mikil nauðsyn sé á að nokkurn veginn náist jöfnuður milli tekna og gjalda ríkissjóðs.

Hv. 3. þm. Reykv. vék einnig að raðsmíðaskipunum. Það er ráð fyrir því gert samkvæmt þeim heimildum sem komu inn í frv. í hv. Ed. að unnt verði að ráðstafa þessum skipum. Þau hafa safnað á sig miklum fjármagnskostnaði og öllum má vera ljóst að útilokað er að selja skipin við því verði sem þau standa í dag. Annaðhvort er að gera ráðstafanir af þessu tagi eða taka öll áföllin á ríkissjóð í samræmi við þær ábyrgðarheimildir sem ákveðnar voru í upphafi. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið óhyggilegt að ráðast í þetta verkefni á sínum tíma, en eins og málum er komið er nauðsynlegt að leysa þetta mál og ég tel rétt að gera það á þann veg að leiði til sem minnstra áfalla fyrir ríkissjóð. Um það verða settar almennar reglur á hvern veg þessari fyrirgreiðslu verður hagað til þess að selja megi skipin og koma þeim til veiða.

Það er auðvitað álitaefni, eins og vikið var að, hvort áætlun um sölu spariskírteina stenst á næsta ári eða ekki. Ég hef þó ástæðu til að ætla að svo muni verða og fyrir því eru ýmis rök sem óþarfi er að fara mörgum orðum um hér. Ég tel að reynsla síðustu mánaða sýni að ríkissjóður getur náð inn þessu fjármagni. Við verðum hins vegar að gera okkur fulla grein fyrir því, eins og oft hefur komið fram í umræðum á hinu háa Alþingi, að aukin ásókn ríkissjóðs í lánsfjármagn á innlendum markaði getur haft áhrif á vaxtastigið. Það er þess vegna full ástæða til að spyrna sem mest má verða við fótum í þessu efni, en að því er þetta atriði varðar, sölu spariskírteinanna, tel ég að sú áætlun sé byggð á raunhæfu mati.

Að því er varðar lán til einkafyrirtækja er það auðvitað álitamál hvort sá þáttur á að vera hluti af lánsfjárlögum. Hér er um að ræða lántökur atvinnufyrirtækja, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum verða að fara eftir almennum leikreglum, og það er næsta útilokað að setja þar á ákveðið kvóta- eða skömmtunarkerfi því að atvinnufyrirtæki verða að geta gengið út frá því að geta treyst á almennar reglur sem þau geta sótt um lán eftir. Fyrir því er ráðgert að beita svipuðum reglum á næsta ári og verið hefur. Ég hygg þó að sú áætlun sem nú liggur fyrir sé raunhæfari að þessu leyti en sú áætlun sem unnið hefur verið eftir á þessu ári.

Að því er varðar fjárlagahallann er ljóst að hann verður að fjármagna með lánum. Það er ráð fyrir því gert að fjárlagahalli þessa árs verði fjármagnaður á þann veg og það er óskað eftir heimild til þess í því frv. sem hér liggur fyrir. Nú er ekki endanlega ljóst hversu mikill þessi halli verður, en ég hygg að enn sé nokkurt borð fyrir báru varðandi þá heimild sem hér er óskað eftir. Eins og fram kom í framsöguræðu minni fyrr í kvöld er ekki endanlega hægt að taka afstöðu til 1. gr. frv. fyrr en fyrir liggur hver fjárþörf ríkissjóðs verður á næsta ári og það skýrist þegar störf hv. fjvn. eru lengra á veg komin til undirbúnings 3. umr. fjárlaganna.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er skammur tími til stefnu við afgreiðslu á þessu frv. Ég tel hins vegar að mjög mikilvægt sé að afgreiða lánsfjárlögin samhliða fjárlagafrv. Það er mikilvægur áfangi að tengja lánsfjárlögin og fjárlagafrv. saman með þeim hætti sem nú var gert og hefur almennt verið tekið undir það af þm. og verið ágreiningslaust. Þó að svo vilji til að hv. Nd. hafi af þeim sökum óvenjuskamman tíma til afgreiðslu málsins er það ósk mín til hv. þdm. og hv. fjh.- og viðskn. að þessu máli verði hraðað á þann veg að afgreiðslu þess verði lokið fyrir jólaleyfi. Ég tel að það séu öll efnisrök til þess og allar upplýsingar eigi að liggja fyrir fjh.- og viðskn. þegar á morgun, sem taka þarf afstöðu til, þannig að það megi verða. Einnig er á það að líta að það er mjög mikils um vert, í fyrsta sinn sem fjárlög og lánsfjárlög eru á þann veg tengd saman, að það takist að afgreiða þau fyrir jólaleyfi hv. þm.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, að svara frekar einstökum atriðum sem fram hafa komið.