16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt orð út af svörum hæstv. félmrh. Það kom fram hjá honum að milliþinganefndin hefði gert tillögu um 200 millj. kr. vegna sérstakra ráðstafana í húsnæðismálum og jafnframt las hann upp, að mér skilst, drög að útlánaáætlun fyrir árið 1986 hjá Byggingarsjóði ríkisins. Ég náði því ekki í svörum ráðherrans hvar væri gert ráð fyrir þessum 200 millj. sem eiga að koma aukalega samkvæmt tillögum milliþinganefndarinnar og hann upplýsti að ríkisstj. hefði samþykkt. Eru þessar 200 millj. í lánsfjárlögunum, eru þær einhvers staðar í útlánaáætluninni, þannig að mér hafi skotist þegar ég var að reyna að hlusta á orð ráðherrans, eða liggur ekkert fyrir um hvaðan þessar 200 millj. eiga að koma? Ég tel það mikilsvert að ráðherrann lýsti því yfir að þessar 200 millj. verði tryggðar og alla vega mun ég fyrir mitt leyti og sjálfsagt Alþýðubandalagsmenn reyna að aðstoða ráðherrann eins og hægt er við að ná þessum 200 millj. kr., en spurningin er fyrst og fremst hvaðan á að taka þessar 200 millj. Er það óljóst enn þá eða hefur einhver ákvörðun verið tekin um það sem ráðherra hefur þá kannske nefnt í ræðu sinni en farið fram hjá mér?

Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðh. gefist kostur á að svara þessu örlítið skýrara en hann gerði áðan.