17.12.1985
Sameinað þing: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á að hér hefur því verið haldið fram að svör sem komið hafa frá ráðherrum séu röng og ekki sannleikanum samkvæm. Það hlýtur auðvitað að vera Alþingi ekki aðeins umhugsunarefni heldur hlýtur það að vera Alþingi sérstakt rannsóknarefni. Verði það staðfest við nánari athugun málsins að ráðherrar hafi gefið rangar upplýsingar er það ekkert gamanmál heldur mjög mikið alvörumál fyrir Alþingi og hlýtur að þurfa að skoðast nánar hvernig svo sem formlega verður að því farið. Það hlýtur að koma til athugunar í betra tómi.