17.12.1985
Sameinað þing: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis vekja athygli forseta á því að ég lagði fram fsp. til hæstv. landbrh. hér á Alþingi fyrir, sem ég tel vera, 47 dögum um sundurliðun sláturkostnaðar og geymslugjald. 31. okt. tjáir skrifstofan mér að þessi fsp. hafi verið lögð fram. Mér hefur ekki borist neitt svar við þessari fsp. enn þá. Ég fer því fram á að hæstv. forseti athugi hvað veldur þessum mikla drætti. Ég hefði einnig talið eðlilegt að hæstv. landbrh. skýrði frá því hvenær ég má vænta svarsins. Ég beini því til forseta hvort það sé ekki eðlilegt í slíkum tilfellum, þegar dráttur verður jafnmikill og raun ber vitni á því að einstakir hæstv. ráðherrar svari, að þeir gefi Alþingi og viðkomandi fyrirspyrjanda skýringu á því af sjálfsdáðum hvers vegna það dregst svo úr hófi að svara þannig að menn megi vita hvað það er sem tefur í þessum tilfellum.