17.12.1985
Sameinað þing: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þær fsp. þar sem óskað er skriflegs svars hafa færst mjög í vöxt á þinginu og kann þar að kenna nýrra þingskapa sem við búum nú við. Þær eru ekki á dagskrá þingsins hverju sinni að mér skilst. Það er einmitt ein slík sem ég spurði um áðan. Ég tel mig hafa setið þolinmóðan í 47 daga og beðið eftir svari frá hæstv. landbrh. þannig að ég tel ekki óeðlilegt að ég veki athygli á því og óski skýringa á því hvers vegna mér hafa ekki borist svör. Og ég ítreka þau tilmæli, sem ég beindi til forseta áðan, hvort ekki væri eðlilegt í slíkum tilfellum að það sé þingvenja að hæstv. ráðherrar gefi af sjálfsdáðum og af eigin hvötum skýringar á því ef það dregst svo úr hófi að svara fsp., hvort sem skriflegs svars eða munnlegs er óskað.