17.12.1985
Sameinað þing: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

Um þingsköp

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sá háttur hefur alltaf verið hafður á að ráðherra fær senda fsp. sjálfur, a.m.k. hef ég alltaf fengið það. En þó að bréf hafi komið fyrir viku í ráðuneytið er hér um að ræða fsp. sem á að fara til allra ríkisbankanna til umfjöllunar og jafnvel þó að þeir sinntu engum öðrum verkefnum mundu þeir ekki klára að svara þessari fsp. á einni viku. En a.m.k. einum lið fsp. gæti ég gefið svar við strax. Það er varðandi tryggingar. Ég treysti mér ekki að gefa yfirlýsingu um þær. Ég þyrfti þá að kafa sjálfur í öll lánsskjöl og annað í ríkisbönkunum til að athuga hvort það eru tryggingar. Til þess eru bankastjórnir, hagdeildir og lögfræðingar að meta tryggingar, en ég ætla sem ráðherra ekki að gefa eina yfirlýsingu um að tryggingar séu fyrir hendi.