17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 18 flytjum við þm. Alþb. till. til þál. um rannsókn á innflutningsversluninni. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd níu þingmanna hlutfallskosningu í sameinuðu þingi til þess að rannsaka málefni innflutningsverslunarinnar og til þess að gera tillögur til úrbóta. Nefndin skal beina rannsókn sinni að eftirfarandi atriðum:

1. Til hvaða ráðstafana er unnt að grípa í því skyni að tryggja að innflutningur til landsins verði hagkvæmari en nú er um að ræða?

2. Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að koma í veg fyrir misnotkun gjaldeyris í innflutningsverslun?

3. Hvað má ætla að stór hluti þjóðartekna tapist vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar?

4. Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að koma í veg fyrir að þeir sem brotið hafa reglur um innflutnings- og gjaldeyrismál fái verslunarleyfi á ný?

5. Hvernig er unnt að koma í veg fyrir að innflutningsverslun skipti við milliliði, heildsala, erlendis sem taka álagningu og umboðslaun af vörum sem seldar eru til Íslands?

6. Hvernig háttar innflutningsverði til annarra norrænna landa, þó einkum til Færeyja sem ætla má að séu á margan hátt sambærilegar við Ísland að þessu leyti?

Nefndin skili skýrslu til Alþingis haustið 1986. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann. Kostnaður við nefndarstörfin greiðist af Alþingi, svo og sérfræðiaðstoð sem nauðsynleg kann að reynast.“

Þessi till. var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Till. er nú endurflutt vegna þess að þau mál sem hér er gerð tillaga um eru fyllilega þess verð að þau séu könnuð engu síður nú en þá.

Það hefur lengi legið fyrir að innflutningur er miklum mun dýrari hingað til Íslands en til grannlanda okkar. Þetta kom m.a. fram í könnun á innflutningsversluninni sem gerð var 1978 og 1979. Því miður var þeirri könnun ekki fylgt eftir á árunum 1980-1983 þegar viðskrh. Framsfl. fór með þetta mál og að sjálfsögðu hefur viðskrh. núv. ríkisstj. ekki sinnt þessu máli.

Rannsóknin á högum innflutningsverslunarinnar var fyrsta heildstæða úttektin á vinnubrögðum heildverslunarinnar og er enn í fullu gildi.

Þær skýrslur sem hér er um að ræða frá árunum 1978 og 1979 eru birtar sem fylgiskjal með þessari þáltill. í heilu lagi. Þar er einnig birt sem fylgiskjal II grg. verðlagsstjóra um samnorræna könnun á innfluttum vörum. Síðan er birt sem fylgiskjal III áfangaálit um aðgerðir vegna halla á viðskiptajöfnuði og samkeppnisstöðu iðnaðar.

Eins og kunnugt er hefur það verið eitt stærsta efnahagsvandamál Íslendinga á undanförnum árum að um hefur verið að ræða verulegan viðskiptahalla og í tíð núv. ríkisstj. nemur viðskiptahallinn orðið rúmlega 10 milljörðum kr. Ég tel þess vegna að það sé óhjákvæmilegt og eðlilegt að ríkisstj., hver sem hún er, taki við slíkar aðstæður til sérstakrar athugunar málefni innflutningsverslunarinnar og jafnframt það að hve miklu leyti er unnt að efla íslenska framleiðslu þannig að hún verði samkeppnisfærari við innflutning en ella.

Af þeim ástæðum er hér birt þetta áfangaálit um aðgerðir vegna halla á viðskiptajöfnuði og samkeppnisstöðu innanlands. Þetta er áfangaálit sem samið var og dagsett 11. mars 1983 og var undirritað þá af Ragnari Árnasyni lektor og Þórði Friðjónssyni sem nú starfar sem efnahagsráðgjafi forsrh.

Þetta mál var m.a. flutt í framhaldi af því á síðasta þingi að upp kom svokallað kaffibaunamál. Þar kom það fram að mismunur á raunverulegu verði og gjaldeyrisúthlutun til að kaupa þessa neysluvörutegund, kaffi, inn í landið nam hvorki meira né minna en 220 millj. kr. Það er svipuð upphæð og allar tekjur íbúa í Þorlákshöfn, svo dæmi sé tekið, á árinu 1984. Allt það strit sem íbúarnir þar lögðu á sig á því ári, hvort sem þeir störfuðu til sjós eða lands, skilaði álíka tekjum og skrifborðsákvörðun um fáeinar faktúrur. Það þurfti heilt byggðarlag til þess að vinna fyrir þessari upphæð, heilt byggðarlag til að vinna fyrir þeirri upphæð sem þessi litli þáttur innflutningsverslunarinnar tók til sín umfram þarfir á því árabili sem hér er um að ræða. Og vissulega er þetta kaffibaunamál aðeins efsti hlutinn af ísjakanum. Stærsti hlutinn marar í hálfu kafi.

Ég held þess vegna að hér sé um að ræða mál sem allir þingflokkar eigi að geta náð saman um. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að búa við hagkvæma innflutningsverslun. Það er nauðsynlegt að kannað verði hvernig á að tryggja að innflutningurinn til landsins sé sem allra hagkvæmastur. Það er nauðsynlegt að við gerum allt sem unnt er til að koma í veg fyrir misnotkun með gjaldeyri í innflutningsverslun. Það er óhjákvæmilegt verkefni Alþingis að kanna rækilega hve stór hluti þjóðarteknanna tapast vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar. Og það er eðlilegt að Alþingi kanni og fjalli rækilega um það hvað á að gera til að koma í veg fyrir að þeir sem hafa brotið reglur um innflutnings- og gjaldeyrismál fái verslunarleyfi á ný. Og auðvitað hlýtur að vera samstaða um það hér á hv. Alþingi að koma í veg fyrir að innflutningsverslunin hér á landi skipti við erlenda milliliði í stórum stíl sem hirða umboðslaun og álagningu á þeim vörum sem fluttar eru hingað til lands.

Þess vegna sé ég ekki betur en hér sé hreyft máli sem allur þingheimur eigi að geta náð samstöðu um og það er mikilvægt að till. fari til nefndar nú fyrir áramót þannig að hv. þingnefnd, sem um þetta mál á að fjalla, gefist kostur á að fara rækilega yfir málið og afgreiða till. þegar á þessu þingi.

Í samráði við forseta legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til meðferðar í allshn.