17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þetta mál er ekki nýtt í sölum Alþingis. Hv. 3. þm. Reykv. hreyfði því fyrst þegar hann var viðskrh. í ríkisstjórninni sem var mynduð 1978. Þá reyndi hann að koma böndum á innflutningsverslunina og bað um skýrslu verðlagsstjóra um athugun á innflutningsversluninni. Áfangaskýrslu var skilað snemma á árinu 1979 eða fyrir hartnær sjö árum. Það hefur runnið mikið vatn til sjávar á þessum tíma. Hv. þm. hefur átt sæti í ríkisstjórn, ekki bara 1978 og 1979 heldur árið 1980, 1981, 1982 og fram á mitt ár 1983. Þá hafði hann sem ráðherra í ríkisstjórn tækifæri til að sjá drauma sína rætast. En þegar hann fer úr ríkisstjórn á miðju ári 1983 byrjar hann að leita uppi gömlu málin sem voru í stefnuskrá Alþb. á áttunda áratugnum og flytur þáltill. á síðasta þingi sem nú er endurflutt.

Hv. 3. þm. Reykv. verður að gera sér grein fyrir því að það hefur mikið breyst í innflutningsmálum þjóðarinnar frá því hann var ráðherra. Samkeppni hefur aukist, verðlag hefur verið gefið frjálst. Þetta hefur í raun lækkað vöruverðið eins og reyndar hefur verið sýnt fram á með því að bera saman verð á vörum og þjónustu þar sem frelsi er og þar sem enn þá gilda höft.

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði mikið úr því að viðskiptahalli hefði verið á undanförnum árum. Hv. þm. var ráðherra í fjöldamörg ár. Á þeim tíma urðu til skuldir erlendis sem nema 28 milljörðum kr. eða u.þ.b. fjárlögum ríkisins á næsta ári. Þetta eru skuldir hv. þm. Svavars Gestssonar og ríkisstjórna hans. Það er tilgangslítið fyrir hv. 3. þm. Reykv. að koma upp í ræðustól, belgja út á sér brjóstið og kenna öðrum um það sem hann getur í raun og veru séð sjálfur í eigin barmi.

Það sem skiptir máli er að átta sig á því að sú skýrsla sem hv. þm. hengir hatt sinn á var unnin af nefnd og í lokaorðum nefndarinnar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ítreka ber að lokum að innflutningstakmarkanir af því tagi sem um hefur verið rætt eru tvíeggjað vopn. Meðfylgjandi tillögur helgast fyrst og fremst af þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðarbúið og vissar iðngreinar búa nú við. Tillögur okkar eru því um bráðabirgðaráðstafanir. Með því er þó ekki sagt að einhverjir þættir þeirra eigi ekki rétt á sér til lengri tíma. Þvert á móti kann svo vel að vera, einkum hvað snertir liði 2, 3 og 9 í kafla II. Áherslan hér er hins vegar á það að langvarandi innflutningstakmarkanir, hverju nafni sem þær nefnast, hafa auðvitað áhrif á þróunarstefnu hagkerfisins og þeim mun meira sem þær eru langvinnari. Þessi áhrif geta verið bæði jákvæð og neikvæð, en fyrst og fremst er torvelt að sjá þau fyrir. Innflutningstakmarkanir til frambúðar þurfa því miklu meiri undirbúningstíma en hér hefur gefist kostur á. Þær þurfa enn fremur að vera í stöðugri endurskoðun í ljósi breytilegra aðstæðna.“

Ég hef talið, og hef reyndar talið um nokkurra ára skeið, að þetta væri grafskrift hugmynda hv. 3. þm. Reykv. Nefndin, sem hann átti þátt í að skipa, jarðsöng í raun og veru þessar hugmyndir fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Svavars Gestssonar, fyrir mörgum árum. Sífellt síðan reynir fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Svavar Gestsson, að vekja þennan draug upp á ný til að gera innflutningsverslunina tortryggilega í augum almennings, en það er eitt að meginmarkmiðum Alþb. að segja að þar séu eintómir milliliðir og annars slags glæpamenn eins og mætti ætla þegar hlustað er á málflutning þeirra Alþýðubandalagsmanna.

Það sem eftir stendur er eingöngu þetta: Nefndin leggur til að liðir nr. 2, 3, og 9 eigi að fá að standa. Og við skulum fletta upp í skýrslu nefndarinnar og sjá þar hvað þar er lagt til.

Kafli nr. Il. Tillaga nr. 2 er um beitingu jöfnunartolla. Það hefur verið gert t.d. þegar tilbúin hús hafa verið flutt til landsins. Það hefur ekki staðið á Alþingi að beita slíkum aðferðum þegar á hefur þurft að halda.

Í öðru lagi, og það er tillaga nr. 3 sem vísað er til að megi beita til langframa, er beiting undirboðstolla, en það er heimilt samkvæmt núgildandi lögum um tollskrá. Það er að sjálfsögðu gripið til slíkra ráðstafana þegar sannast að um undirboð sé að ræða.

Í þriðja lagi er það 9. tillagan. Hún er um auknar kröfur um gæði, vörumerkingar, upprunamerkingar, staðla og þess háttar. Að þessu hefur stöðugt verið unnið. Ég verð að segja það Verðlagsstofnun til hróss að hún hefur á undanförnum árum horfið frá beinu verðlagseftirliti og yfir í óbeint verðlagseftirlit með því að birta verðkannanir við o við. Þetta gerðist vegna þess að lögum var breytt. Ég fagna því að bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú starfar hafa haft skilning á því að aðeins með frjálsri verslun og samkeppni er tryggt að neytendur í þessu landi fái sem lægst vöruverð.

Ég lít á það, herra forseti, sem gamlan vana hjá hv. 3. þm. Reykv. þegar hann ber þessa þáltill. upp á Alþingi. Hún má gjarnan fara til nefndar, en ég held að engum sé greiði gerður með því að samþykkja það sem þarna er á ferðinni.