17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög.

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti því að allar þær rannsóknir fari fram sem mönnum sýnist á innflutningsverslun, en við skulum byrja á að rannsaka það sem við vitum og þar sem Alþingi ber höfuðábyrgðina. Þá er það fyrst og fremst að á innfluttar vörur, sem eru meginneysluvörurnar fyrir utan landbúnaðarafurðir, eru á Íslandi lagðar meiri byrðar af ríkisins hálfu en í nokkru öðru lýðfrjálsu landi sem ég þekki til. Og hver hefur verið drýgstur í því að koma þessum álögum á? Það held ég að hafi verið ríkisstjórnirnar frá 1978 og til 1983 sem Alþb. ber á meginábyrgð. - Af því að nefndir voru hér hv. þm. Friðjón Þórðarson og Pálmi Jónsson, að verið væri að ráðast eitthvað á þá, er alveg ljóst að hvorugur þeirra var fjmrh. eða viðskrh. Það var nú meira á vegum annarra sem allar þessar álögur voru á lagðar.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því þegar minnst er þetta fátæka fólk, sem vissulega er til á Íslandi, og fátækara fólk en um áratugi og óréttlætið meira nú en verið hefur um áratugi, að það er ekki þessari ríkisstj. að kenna, heldur þeim ríkisstjórnum sem Svavar Gestsson ber meginábyrgð á, ríkisstjórnunum 1978-1983. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að brýnasta nauðsynjavara, sem hver einasta fjölskylda þarf og stóru fjölskyldurnar og fátæku fjölskyldurnar meira en aðrir af því að munnarnir eru einfaldlega fleiri, kostar 100 kr. hérna á hafnarbakkanum. Fyrst er lagður á tollur allt upp í 80%. Við skulum segja 70% tollur sem er mjög algengt. Þá eru komnar 170 kr. Síðan er ofan á þá upphæð samanlagða, innkaupsverðið og tollinn, lagt vörugjald upp í 30%. Það er 51 kr. 221 kr. er þar komin. Síðan taka heildsali og kaupmaður 50% skulum við segja, sem þykir ekki há álagning á smávöru ef það er samanlagt, og þá bætast þar við 115 kr., komið í 345 eða hvað það nú er, og svo 25% söluskattur ofan á allt saman. Varan er komin upp undir 450 kr. Af því hirðir ríkið 250 og kaupmaðurinn og heildsalinn fá að vísu 100.

Það er þetta sem veldur verðbólgunni á Íslandi. Það er þetta sem skapaði það ófremdarástand sem við erum að súpa seyðið af. Á því bera ekki sjálfstæðismenn ábyrgð. Á því bera fyrst og fremst Alþb. og Framsfl. ábyrgð. Það liggur alveg fyrir. Þeir höfðu fjmrh. og viðskrh. sem dengdu öllum þessum sköttum yfir og við höfum ekki brotist út úr þessum vítahring enn þá. Fátæka fólkið, sem ekki hefur til hnífs og skeiðar, á að gera sér grein fyrir hverjir sköpuðu þetta ástand í þjóðfélaginu og hverjir það voru sem í mesta góðæri í sögu Íslands juku skuldir þjóðarinnar jafngífurlega og raun er á orðin, hverjir það voru sem möskuðu bankakerfi landsins þannig að fátæka fólkið getur ekki fengið 20 þús. kr. víxil þótt það hafi ekki að borða. Hverjir voru það? Það voru þeir sem duldu að íslenska peningakerfið væri hrunið. Við vitum núna að það var hrunið fyrir mörgum árum. Það var dulið með því að dengja yfir erlendum peningum, kalla það íslenska peninga, dengja því út í þjóðfélagið og hafa svo neikvæða vexti til ákveðinna „fyrirmyndar„fyrirtækja, mjög neikvæða, jafnvel svo að mörgum tugum prósenta skipti, gefa ákveðnum fyrirtækjum og auðvitað einstaklingum líka stórfé, sjóði bankanna sem allir eru uppurnir. Bankarnir eiga enga sjóði og allir aðrir fjárfestingarlánasjóðir og slíkt eru meira og minna gjaldþrota. Þetta er allt sök þessara herra sem nú koma og ásaka aðra.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Þetta eru staðreyndir málsins og þær liggja skýrt fyrir hverjum þeim sem sjá vill. Þessari ríkisstj. hefur enn ekki tekist að brjótast út úr vítahringnum. Við skulum vona að henni takist það. Takist henni það ekki hlýtur að koma ný ríkisstjórn sem hreinsar til.