17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það kom mér ekkert á óvart að hv. 3. þm. Reykv. yrði nokkuð reiður í ræðustólnum þegar hann kom þar eftir mína ræðu því að við höfum svo sem talað saman um þessi mál fyrr. Ég skil hann vel. Hann verður að sýna það út á við að hann standi fast á sínum málstað þó hann hafi haft til þess tækifæri að koma þessum málum fram þegar hann sjálfur sat í ríkisstjórn. Mér dettur hins vegar ekki í hug að taka mark á hv. 3. þm. Reykv. þegar hann heldur að hann sé dulnefni. Hv. 3. þm. Reykv. stendur undir nafni. Hann er þm. sem menn taka mark á og ég álít að Svavar Gestsson sé ekkert dulnefni. Ég veit að það eru ekki allir sem gera það, en það er til fólk sem kýs þennan mann á þing vegna þess að það stendur í þeirri meiningu að hann sé raunverulegur, hann sé ekkert dulnefni, sem stendur í þeirri meiningu að Þjóðviljinn hafi verið skrifaður af hv. þm. Svavari Gestssyni en ekki að Gunnar Thoroddsen og Friðjón Þórðarson séu að skrifa leiðara í Þjóðviljanum undir dulnefninu Svavar Gestsson. Þannig er óþarfi að flýja inn í þennan undraheim.

Málið er að hér hefur verið bent á og Guðrún Helgadóttir, hv. 10. landsk. þm., kom í ræðustól og sagði að nú hefði komið í ljós að verslunareigendur hefðu tekið okurlán. Ég hugsa að það sé rétt að þau lán sem hafa verið tekin af svokölluðum okrurum hafi í mörgum tilfellum verið tekin af þeim aðilum sem geta afsett vöru eða þjónustu mjög fljótt, þ.e. tekið lán í mjög skamman tíma, en það eru mikil líkindi til þess að það eigi einmitt við um svokallaðan jólavarning þegar menn taka lán í mjög skamman tíma á háum prósentum. Ég efast ekkert um að það sé rétt. En menn verða að hafa í huga að þá gildir það ekki, sem var sagt í umræðum um okurmál um daginn, að sömu peningar séu eingöngu notaðir af húsbyggjendum í vandræðum. Ég held nefnilega, eins og ég sagði í ræðu minni þá og þeir hafa talað um sem kannast við hverjir geta notfært sér slíka peninga, að þeir séu notaðir einmitt í slíkum rekstri, þ.e. í mjög stuttan tíma, þannig að þótt vextir séu háir á ársgrunni þurfi þeir ekki að vera gífurlega háir þegar lánið er tekið í kannske hálfan mánuð eða einn mánuð. Ég efast ekki um að frétt Dagblaðsins er að einhverju leyti rétt.

Ég veit hins vegar ekki hvort það ber að harma þótt einhverjar tískuvöruverslanir fari á hausinn. Ég held að það sé alveg nógu mikið af þeim hér í bænum. Og mér hefur sýnst auglýsingaflóðið vera ærið. Ég sakna þess ekkert þótt aðeins dragi úr því. En ég treysti hv. 10. landsk. þm. til að gera verðsamanburð, sem ég heyri að hv. 10. landsk. þm. hefur gert meðan hann dvaldist erlendis, og reyni þá að haga innkaupum sínum þannig að kaupa það sem hv. þm. telur vera hagkvæmast og best að kaupa. Þannig eigum við að hugsa og það er besta aðhald sem þeir geta fengið sem stunda verslunarrekstur eða framleiða einhverja vöru. Á því byggist það hagkerfi sem við viljum búa við.

Hitt er svo annað mál að þegar talað er um atvinnurekstur hér á landi virðist það gerast æ ofan í æ að fulltrúar Alþb. á þingi koma í ræðustól, sjá púka hér og þar og mála skrattann á vegginn. Ég minnist þess t.d. fyrir nokkrum árum, það var þegar hv. þm. Svavar Gestsson var nýkominn í ríkisstjórn, að Ólafur Ragnar Grímsson sat á þingi og réðist á Flugleiðir og Eimskip, einmitt þau fyrirtæki sem hv. þm. Svavar Gestsson var að minnast á áðan. Meginmarkmið Ólafs Ragnars Grímssonar í þeirri umræðu var að benda á að það þyrfti að þjóðnýta þessi fyrirtæki. Það sagði hann hreint og beint. Í öðru lagi gaf hann það í skyn að hjá Flugleiðum væri verið að fela peninga í erlendum pappírsfyrirtækjum og það væri stórkostleg hætta á því að Flugleiðir ætluðu að setja reksturinn uppi á Íslandi á hausinn, taka peninga út úr fyrirtækinu og fela þá peninga erlendis í skúffu- og pappírsfyrirtækjum. Og í þriðja lagi sagði Ólafur Ragnar Grímsson þá, eins og er hægt að fletta upp á í þingtíðindum, að Eimskipafélagið hefði lækkað stórkostlega farmgjöld til bandaríska varnarliðsins þannig að nú þyrftu Íslendingar að standa undir þessum ferðum einir. Ég held því fram að nánast allt það sem hv. þáv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði þá hafi verið öfugt. Það var öllu snúið við. Hvítt var sagt svart og svart hvítt. Það er einmitt þetta hugarfar, þetta rannsóknarhugarfar Alþb. sem ég tel ástæðu til að andæfa og mótmæla. Það er það hugarfar að segja að allir séu sekir þar til búið er að dæma þá saklausa. Það er þetta hugarfar sem stendur að baki þessari till. og ýmsu öðru því sem kemur fram hjá hv. þm. Alþb.

Það er liðlega ár síðan hv. 3. þm. Reykv. stóð í þessum ræðustól og sagði: Skipafélögin hafa grætt svo mikið á farmgjöldunum að það er ástæða til þess að ríkisvaldið grípi í taumana og taki svo sem eins og þriðjunginn eða fjórðunginn af þessum farmgjöldum til sín. Hann byggði þetta á því að gróði skipafélaganna væri svo gífurlega mikill. Allt annað kom í ljós. (SvG: Á árinu 1983.) Á árinu 1983, hárrétt. Hann sagði 1. nóv. 1984: Gróðinn var svo mikill 1983. Og hann sagði til viðbótar: Og þar sem gera má ráð fyrir því að sá gróði hafi haldið áfram er fyllsta ástæða til þess fyrir ríkisstj. að taka svo sem eins og þriðjung eða fjórðung af þessum gróða í ríkissjóð. Þetta voru bjargráð hans á þessum tíma. Það sýnir að hv. 3. þm. Reykv. veit ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað er að gerast í kringum hann.

Ég ætla ekki, herra forseti, að þreyta menn með löngum ræðum. Mér þykir þessi gamli uppvakningur vera ágætur. Það er allt í lagi að koma með hann hingað í þingsalina, sýna hann og senda hann til nefndar. Ég sé enga ástæðu til að samþykkja þessa till. og rannsaka þetta frekar en margt annað í þessu þjóðfélagi. Ég bendi á það, og það ætla ég að þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir, að hv. þm. stóð að því í síðustu ríkisstjórn að breyta lögum um verðlag og samkeppnishömlur á þann veg að nú er Verðlagsstofnun að vinna verk sem er verulega þarft. Þar á meðal hefur okkur þm. borist í hendur í dag 13. tölublað af verðkynningu Verðlagsstofnunar þar sem einmitt er sagt frá því að verðmunur á jólatrjám sé 116% og allt upp í 300%. Það er einmitt með slíkum hætti sem við getum fengið fólk til að taka þátt í því aðhaldi sem fólkið sjálft verður að hafa með höndum en engin ríkisstjórn getur framkvæmt. Það er aðhald neytandans í þjóðfélaginu.

Að lokum, herra forseti. Ég held að það sé ekki nokkur alvara í þessu máli hjá hv. 3. þm. Reykv. Ástæðan er einfaldlega sú að í tillögutextanum - af því að ég er beðinn að tala um till. en ekki fylgiskjölin, það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ekki má minnast á fylgiskjölin því þau jarðsyngja till. - segir: „Nefndin skili skýrslu til Alþingis haustið 1985.“ Ég endurtek: „haustið 1985“. Auðvitað var ekki verið að hafa fyrir því að breyta þessu ártali - haustið 1985 er liðið - vegna þess að það var ekki ætlast til að tekið væri mark á þessum tillöguflutningi.