17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Tilefni þess að ég stend upp er ekki beint umræðan sem slík eða það mál sem er á dagskrá, heldur sú umhyggja sem hv. síðasti ræðumaður ber fyrir einkaaðilunum, hinum frjálsa atvinnurekanda, eins og kom fram í málflutningi hans nú og eins að ég held í gær. Hann vill hjálpa einkaaðilunum vegna þess að Sjálfstfl. er ekki lengur sú brjóstvörn sem hann hefur verið. Sjálfstfl. hefur brugðist, segir hann, og nú vil ég, og þenur út brjóstið, koma til bjargar. - En með hvaða hætti og á hvaða leið? Hann vildi koma einkaaðilanum til hjálpar þannig að leysa hann frá því lífsstarfi sem hann hefur valið sér með því að leiða hann út úr þeirri villu að reyna að vera sjálfstæður og gera hann að ríkisþræli, sem sagt að koma einkaframtakinu inn í ríkisreksturinn.

Ekki var þetta ástæðan til þess að ég stóð hér upp, heldur sú að hann heldur því fram, og það hafa fleiri hv. Alþýðubandalagsmenn gert hér í dag og þann tíma sem ég er búinn að vera á Alþingi, allt frá 1974, að innflutningsverslunin liggi undir ámæli. Ég hef áður tekið þátt í slíkum umræðum og því spyr ég nú: Hvernig er með þau fyrirtæki sem Alþb. hefur verið treyst fyrir á vegum fólksins? Hvernig er t.d. með KRON? Hvar verslar KRON? KRON verslar í heildsölu hjá samvinnuhreyfingunni. Og hvar verslar samvinnuhreyfingin? Hún verslar hjá annarri samvinnuhreyfingu á Norðurlöndunum með sameiginleg stórinnkaup. Þetta er ég búinn að þræða áður. Þeir fá allan þann afslátt sem hægt er að fá vegna magninnkaupa því það er keypt inn fyrir Norðurlöndin í heild í mörgum vörutegundum.

Hvernig er það svo flutt hingað? Það er flutt á eigin skipum, enginn milliliður. Hvernig er svo tryggt? Það er tryggt í eigin tryggingarfélögum, enginn milliliður. Hvernig er skipað upp? Það er skipað upp af eigin fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar. Og hvernig er svo geymt og dreift? Í eigin fyrirtækjum. Og hvar er skipað upp? Í eigin höfnum. Hver er svo verðmunurinn milli þessa og þess sem kaupmaðurinn á horninu og kaupmenn út um land allt kaupa af heildsölum sem verða að borga allan þann milliliðakostnað sem á fellur frá A til Z? Verðið er fyllilega sambærilegt. Ég mundi þá segja: Hver stendur sig og hver stendur sig ekki?

Er verðið í KRON, ég held það sé enn þá undir forustu Alþýðubandalagsmanna í Reykjavík, lægra eða er það hærra eða er það það sama og hjá kaupmanninum sem verður að borga allan milliliðakostnaðinn? Nú spyr ég hv. þm.: Hvers vegna er þarna ekki mikill munur á úr því að innflutningsverslunin stendur sig svo illa?

Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Það er sjúkdómur í Alþb., og sá sjúkdómur sameinar fólk í Alþb., að vera með rannsóknarhugsunarhátt sem veiru.