17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

167. mál, jarðhiti í heilsubótarskyni

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir þau ummæli sem hann lét hér falla um efni þessarar þáltill. og þann stuðning sem fram kom í ræðu hans við þá hugmynd sem í till. felst. Ég er honum hjartanlega sammála um að hér búa mjög miklir möguleikar. Ég er honum einnig sammála um að ef verulegu fjármagni væri veitt til þessa, til uppbyggingar slíkra heilsuræktar- og baðlækningastöðva í Laugardalnum, sem vitanlega er kjörinn staður hér í Reykjavík vegna alls umhverfis og þeirra bygginga og íþróttamannvirkja sem þegar eru þar fyrir hendi og tengjast þessu, þá væri unnt að efla hér mjög ferðamannaþjónustu, aðsókn bæði Íslendinga og útlendinga og raunverulega skapa hér heilsubótaraðstöðu sem ekki er fyrir hendi og kemur vitanlega öllum sem þangað sækja að gagni.

Það eru margir aðrir staðir einnig á landinu sem til greina koma og ég vil í því efni - eins og ég raunar gerði í framsöguræðunni - nefna Svartsengi og þá ekki síst í nágrenni við Bláa lónið þar sem væri kjörin aðstaða til að byggja upp slíkt baðhótel. Við höfum fordæmin frá Þýskalandi, Frakklandi, Tékkóslóvakíu og mörgum öðrum löndum þar sem um slíka aðstöðu er að ræða, þar sem slíkir baðstaðir hafa starfað í aldir. Þangað sækir fólk raunverulega úr allri veröld og þess vegna er sérstaklega mikilvægt innlegg í þetta mál niðurstaðan úr þeirri rannsókn sem framkvæmd var af sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna, að þau náttúrlegu skilyrði, þ.e. gæði vatnsins og hveraleirsins sem hér er að finna, eru síst verri, e.t.v. að mörgu leyti betri en það sem gerist á ýmsum baðstöðum Evrópu sem víðkunnir eru. Þess vegna held ég að fyllsta ástæða væri til þess að samþykkja þessa till. hér á Alþingi og hefja framkvæmdir í þessu efni.