17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

120. mál, verðtrygging tjóna og slysabóta

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Á því er nokkur misbrestur að tjóna- og slysabætur séu verðtryggðar og að svo miklu leyti sem þær eru það gilda engar almennar reglur um það. Það getur því verið mjög misjafnt hvernig verðtryggingu er háttað þó að stöku Tryggingarfélag hafi tekið það upp í einhverjum mæli.

Þegar verðbólga er jafnmikil og raun ber vitni þá getur fólk þess vegna orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna þess að bótagreiðslur trygginga sem það hefur tekið eru ekki verðtryggðar - eða misvel verðtryggðar. Það mun vera verðtrygging í ýmsum tilvikum t.d. í einhverju formi í brunatryggingum. En einmitt vegna þess að verðtryggingin kemur fyrir í einhverjum mæli þá munu margir tryggingatakar vera þeirrar skoðunar að allar bætur séu verðtryggðar að fullu og um þetta gildi samræmdar reglur. Þetta eykur vitaskuld á andvaraleysi tryggingatakanna og þess vegna teljum við flm. þessarar þáltill. rétt að þetta mál verði tekið til sérstakrar skoðunar.

Í verðbólgu sem er af því tagi sem hér hefur geisað að undanförnu og reyndar oft áður þá skiptir vitaskuld líka máli hversu oft bótaupphæð er endurmetin sé um verðtryggingu að ræða. Ef það gerist sjaldan, þó að verðtryggt sé talið, þá er gildi verðtryggingarinnar tiltölulega rýrt.

Allt þetta mælir vitaskuld með því að samræmdar reglur verði settar um verðtryggingu tjóna- og slysabóta og löggjöf eftir því sem ástæða er til. Það er af þessum sökum sem þessi þáltill., sem ég mæli hér fyrir, á þskj. 133 er flutt, og fjallar um verðtryggingu tjóna- og slysabóta. Ályktunin er mjög einföld. Hún er í því fólgin að fela heilbr.- og trmrh. að láta undirbúa löggjöf um verðtryggingu tjóna- og slysabóta almennra tryggingafélaga.

Get ég þess í lokin - og í samræmi við það sem ég hef sagt hér áður - að það er skoðun flm. að í stað þess að tiltaka hversu oft skuli hækka tryggingarupphæð í krónum talið vegna verðbólgu þá væri að ýmsu leyti æskilegra að miða við tilteknar breytingar á ákveðinni vísitölu. Þannig t.d. að bótaupphæð sé endurmetin fyrir hver 4% sem vísitalan breytist eða aðra þá prósentutölu sem menn telja betur henta.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég held að hér sé um mál að ræða sem nauðsynlegt sé að taka á þannig að samræmdar reglur séu fyrir hendi og enginn vaði í villu um það hvernig tryggingum er háttað og í hvaða mæli þær eru verðtryggðar eða óverðtryggðar, þannig að hér ríki samræmi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til félmn.