24.10.1985
Neðri deild: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er nú ljóst eftir því sem lengra líður á þennan sólarhring að ætlunin er að knýja þetta mál hér fram og ég vil segja að það á nánast að knýja það fram með mikilli óbilgirni. Hér hafa komið fram ítrekaðar óskir um að fá hér ákveðin svör og upplýsingar og óskir til hæstv. forseta um frestun, en allt kemur fyrir ekki. Ég vil minna á, herra forseti, að það eru einungis örfáir klukkutímar síðan hv. þingdeild fékk þetta mál til meðferðar og aðeins um átta eða níu klukkustundir sem það hefur verið hér til umfjöllunar. Ég hlýt að mótmæla þessu.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson, formaður samgn., fullyrðir að frv., sem við erum hér að ræða um, fjalli ekki um kaup og kjör. Nú verð ég að segja að þetta er mjög einkennileg afstaða. Fyrir mér a.m.k. eru kjaramál mál sem fjalla um kaup og kjör. Því er alleinkennilegt að gerð er athugasemd við það að rætt er ítarlega um kjaramál í þessari umræðu, þann launamismun sem ríkir milli kynja og stöðu kvenna í þjóðfélaginu almennt.

Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherrar, hæstv. sjútvrh., hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh., eru sama sinnis og hv. þm. Stefán Valgeirsson, að þetta mál fjalli ekki um kaup og kjör, a.m.k. hafa þeir enga tilburði haft uppi í þessari umræðu til að svara þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir þá. Ég get, ef þeir muna ekki þær spurningar, ítrekað þær hverja um sig. Ég geri ráð fyrir að hæstv. sjútvrh. muni eftir þeirri fsp. sem ég beindi til hans, en hæstv. sjútvrh. gegnir nú störfum forsrh. Það var um samanburðarkannanir á kjörum kvenna og karla á vinnumarkaðnum. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu. Ég tel það lágmarkskurteisi við okkur í stjórnarandstöðunni, sem höfum beint ákveðnum spurningum til ráðherra, að þeir komi í ræðustól og svari spurningum, en við í stjórnarandstöðu séum ekki algerlega hundsuð, okkur sé svarað þeim spurningum sem við beinum til ráðherranna.

Ég þarf varla að rifja upp fyrir formanni Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., þá spurningu sem ég beindi til hans. Honum var mjög annt um það fyrr á þessu ári að fram færi úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Hann hlýtur að hafa fylgst grannt með störfum þeirrar nefndar sem um það mál fjallar. Ég vorkenni formanni Sjálfstfl. og hæstv. ráðherra ekkert að stíga hér í stól í eins og eina mínútu undir þessari umræðu og gefa okkur upplýsingar um það.

Sömuleiðis beindi ég ákveðinni fsp. til hæstv. samgrh. og mér nægir auðvitað ekki svar hv. þm. Stefáns Valgeirssonar við þeirri spurningu vegna þess að hans svar var einskis virði, nánast ekkert. Maður er engu nær um þá spurningu sem ég beindi til ráðherrans. Spurningin er hvort það sé virkilega meiningin að ef úrskurður kjaradóms liggur ekki fyrir 1. des. eigi flugfreyjur að vera án þeirra kjarabóta sem aðrir launþegar hafa fengið fram að þessu.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. ráðherrar hafa a.m.k. reynt að gefa okkur svar við þeim spurningum sem hér liggja fyrir og ef þeir telja sig þurfa að fá frest til þess að leita upplýsinga um það sem ég hef hér beðið um er mér ekkert að vanbúnaði að bíða eftir þeim svörum ef forseti tekur þá ákvörðun að fresta þessari umræðu. En ég ítreka óskir mínar, að þessum spurningum verði svarað.