17.12.1985
Efri deild: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

197. mál, barnabótaauki

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um sérstakan barnabótaauka. Frv., sem hér er til umræðu, um sérstakan barnabótaauka er samhljóða ákvæðum laga nr. 128/1984, sem fjalla um tekjutengdar barnabætur, að því frátöldu að allar fjárhæðir í þessu frv. hafa verið hækkaðar um 36% frá því sem var í lögum nr. 128/1984 og er sú hækkun í samræmi við skattvísitölu.

Forsaga þess að greiddur var sérstakur barnabótaauki á árinu 1984 var sú að það var liður í samningum milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands í febrúarmánuði 1984 og féllst ríkisstj. á að greiða tekjutengdan barnabótaauka til að liðka fyrir því að samningar tækjust á þeim tíma. Í tillögum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins varðandi barnabótaaukann á árinu 1984 sagði að barnabótaaukinn verði útfærður þannig að þeir skattgreiðendur fái hann ekki sem hafa möguleika á framfærslu með öðrum hætti, svo sem vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða af eignum eða námslánum. Þar sem skattalög greina ekki milli manna eftir starfsstéttum heldur eftir tekjum og eignum var ekki talið gerlegt við greiðslu barnabótaaukans á árunum 1984 og 1985 að grípa til slíkrar mismununar eftir starfsstéttum. Hins vegar var við greiðslu barnabótaaukans á árinu 1984, til þess að ná svipuðum tilgangi og lagt var til í tillögum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, þessi réttur til barnabótaauka bundinn við það að eignir viðkomandi færu ekki fram úr ákveðnu marki.

Með þessu frv., sem hér er til umræðu, er lagt til að greiðsla barnabótaaukans verði með sama sniði og á árinu 1985, þ.e. að hann verði bæði tengdur tekjum og eignum þannig að barnabótaaukinn lækki eftir því sem tekjur eru hærri eða eignir meiri og hann falli alveg niður þegar tekjur eða eignir fara yfir ákveðið mark. Með þessu er stuðlað að því að þeir sem erfiðasta afkomu hafa njóti þessa barnabótaauka í sem ríkustum mæli. Auk þess er stefnt að því að barnabótaaukinn bæti að einhverju leyti þá kjaraskerðingu sem þeir tekjulægstu hafa orðið fyrir. Kostnaður ríkissjóðs af þessu frv. er talinn nema um 42 millj. kr.

Með því að hér er gert ráð fyrir óbreyttri skipan þessa máls sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, en óska eftir því að gott samstarf geti tekist um að afgreiða þessa framlengingu laga um sérstakan barnabótaauka fyrir jólaleyfi og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.