17.12.1985
Efri deild: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum.

Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt ákvað ríkisstj. að fresta fyrirhuguðum breytingum á ýmsum helstu tekjustofnum ríkissjóðs sem þó hafði verið gert ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1986. Áformað var að setja ný tollalög, lækka tekjuskatt og breyta lögum um vörugjald.

Í þessum breytingaráformum fólst m.a. að lækka tolla um 250 millj. kr., tekjuskatt um 400 millj., en afla á móti viðbótartekna að fjárhæð 750 millj. kr. í formi vörugjalds. Þessar ráðstafanir hefðu leitt til þess að vísitala framfærslukostnaðar hefði hækkað um 1-1,5% um n.k. áramót og kaupmáttur hefði rýrnað að sama skapi. Fyrir því var horfið frá þessari breytingu.

Með tilliti til þess hversu svigrúm til aukinna kjarabóta í komandi samningum er þröngt ákvað ríkisstj. að hverfa frá þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum. Með því að falla frá þessum breytingum er ríkisstj. því að stuðla að því að kaupmáttur verði varinn. En í ljósi þessa, sem ég hef hér rakið, verður ekki af 400 millj. kr. lækkun tekjuskatts á næsta ári eins og að var stefnt. Þess í stað er nú stefnt að því að álagning tekjuskatts á næsta ári verði nánast óbreytt hlutfall af tekjum viðkomandi tekjuára. Að mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að meðalhækkun tekna milli áranna 1984 og 1985 verði sem næst 36%, en samkvæmt 121. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er skylt að hækka ýmsar fjárhæðir í skattalögum, svo sem skattþrep, frádráttarliði, persónuafslátt, barnabætur og skattfrelsismörk eignarskatts í samræmi við skattvísitölu sem ákveða skal í fjárlögum fyrir ár hvert, í fyrsta sinn fyrir árið 1986.

Ríkisstj. hefur ákveðið að leggja til að skattvísitala fyrir árið 1986 verði ákveðin 136 stig miðað við 100 stig árið 1985. Samkvæmt þessu mun hún hækka í samræmi við tekjubreytinguna milli áranna 1984 og 1985. Álagning tekjuskatts á þessu ári að frádreginni ráðstöfun persónuafsláttar og barnabóta til greiðslu á honum nam 2,3 milljörðum kr. Miðað við skattvísitöluna 136 má því gera ráð fyrir að nettótekjur ríkissjóðs af tekjuskatti á næsta ári verði um 3150 millj. kr. að öllu öðru óbreyttu.

Þrátt fyrir að stefnt sé að svo til óbreyttu álagningarkerfi á næsta ári og gilti í ár með ákvörðun skattvísitölunnar verður ekki hjá því komist að leggja til að nokkrar breytingar verði gerðar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt. Í því sambandi eru einkum hafðar í huga tillögur milliþinganefndar um húsnæðismál sem nýlega skilaði tillögum sínum um ýmsar ráðstafanir til lausnar á greiðsluvanda íbúðareigenda. Af þessum sökum fyrst og fremst er þetta frv. flutt nú.

Í niðurstöðum milliþinganefndarinnar um húsnæðismál er lögð áhersla á að gerðar verði ýmsar lagfæringar á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt er lúta að vaxtafrádrætti vegna lána til öflunar eigin íbúðarhúsnæðis. Tillögur nefndarinnar eru þessar:

1. Að vextir og verðbætur af sjálfskuldarábyrgðarlánum til húsnæðismála njóti sama réttar og veðlán.

2. Að frádráttartímabil vaxta af skammtímalánum lengist úr þremur og sex árum í fjögur og sjö ár vegna tekjuársins 1985.

3. Að ákvæði um lántökukostnað og frádráttarbærni vaxta verði gerð ótvíræð.

4. Að hámark verðtryggingar og vaxtafrádráttar verði endurskoðað til hækkunar. Athugað verði um tengingu hámarksins við hreina eign.

Ríkisstj. hefur ákveðið að verða þegar við tillögum þeim sem um getur í lið 1 og 2, þ.e. að vextir og verðbætur af sjálfskuldarábyrgðarlánum til húsnæðismála njóti sama réttar og veðlán og frádráttartímabil vaxta af skammtímalánum lengist úr þremur og sex árum í fjögur og sjö ár vegna tekjuársins 1985, svo og að verða við lið 3 að því er varðar stimpilgjöld og þinglýsingarkostnað af lánum. En á þeim skamma tíma sem eftir er fyrir jólaleyfi Alþingis eru hins vegar ekki tök á að endurskoða frekar ákvæði laganna um vaxtafrádrátt í því skyni að gera þau víðtækari og skýrari eins og nefndin gerði tillögu um. Hér er um mjög flókin og yfirgripsmikil mál að ræða sem krefjast nákvæmari athugunar en hægt er að koma við á svo stuttum tíma.

Í lið 4 leggur nefndin til að hámark vaxtafrádráttarins verði endurskoðað til hækkunar. Í ár er þetta hámark 159 380 kr. hjá einstaklingum, en 318 760 kr. hjá hjónum. Fjárhæðir þessar breytast í samræmi við skattvísitölu og verða því 216 757 kr. hjá einstaklingum og 433 514 kr. hjá hjónum á skattárinu 1986 vegna tekna ársins 1985. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra nutu 16 669 framteljendur vaxtafrádráttar við álagningu 1985. Að meðaltali nam frádráttur þessi 97 554 kr. hjá hjónum og 70 669 kr. hjá einstaklingum. Tiltölulega mjög fáir verða fyrir skerðingu vegna hámarksins. Þeir sem verða fyrir henni eru og að jafnaði tekjuháir. Því þykir ekki nauðsynlegt að svo stöddu að leggja til að umrætt hámark vaxtafrádráttar verði hækkað.

Þá er í frv. þessu lagt til að skattfrelsismörk eignarskatts hækki í samræmi við hækkun fasteignamats á árinu í staðinn fyrir hækkun í samræmi við tekjubreytingar milli áranna 1984 og 1985, en eins og kunnugt er ákvarðast skattvísitala fyrir árið 1986 í samræmi við þá hækkun. Fyrir liggur að fasteignamat íbúðarhúsnæðis hefur aðeins hækkað um 28% frá 1. des. 1984 til 1. des. s.l. Tekjubreytingin á milli sömu ára er hins vegar 36%. Með tilliti til þess að fasteignir mynda allt að 80% af eignarskattsstofni einstaklinga þykir eðlilegt að umrædd skattfrelsismörk hækki fremur í samræmi við hækkun fasteignamats en hækkun tekna.

Loks felur frv. í sér að heimild lögaðila til að leggja í varasjóð í stað tillaga í fjárfestingarsjóð, sem rennur út á þessu ári, verði framlengd um eitt ár til viðbótar.

Mjög erfitt er að gera sér grein fyrir áhrifum þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs. ljóst er þó að hinar auknu heimildir til vaxtafrádráttar hafa í för með sér nokkurn tekjumissi. Á móti kemur hins vegar að tekjur af eignarskatti hækka nokkuð umfram það sem ráð var fyrir gert ef miðað hefði verið við skattvísitölu við ákvörðun skattfrelsismarkanna. Ætlað er að hækkun þessi nemi 30-35 millj. kr. umfram það sem ella hefði orðið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efnisatriði þessa frv., en vildi mælast til góðrar samvinnu um að þetta mál nái fram að ganga fyrir jólaleyfi þm, og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.