17.12.1985
Neðri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur komið fram hér á Alþingi Íslendinga að ég hef verið stuðningsmaður fylkjaskipunar í þessu landi. Og mér hefur þótt að með því einu móti væri hægt að færa valdið til fólksins og tryggja það að íbúar hvers svæðis hefðu yfirráðarétt yfir helstu auðlindum þess svæðis og þeirra athafna sem þar ættu sér stað. Mér sýnist að það sé út af fyrir sig fráleitt stjórnskipulag að sveitarfélög séu að seilast eftir miklum eignum hjá öðrum sveitarfélögum. Ég hygg t.d. að Hafnarfjarðarbær tæki það óstinnt upp ef Reykjavíkurborg legði á það höfuðkapp að kaupa einhverjar auðlindir sem væru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar og vafalaust væri það gagnstætt. Reykjavíkurborg mundi taka það illa upp ef Hafnarfjarðarbær legði á það höfuðkapp að eignast eitthvað af auðlindum, náttúruauðlindum á Reykjavíkursvæðinu.

Þetta leiðir hugann að því að Reykjavíkurborg og Akureyri, sem eru einu sveitarfélögin á Íslandi á móti ríkisvaldinu í Landsvirkjun, hafa skapað sér ákaflega sérstæða stöðu. Þau hafa skapað sér þá aðstöðu að ef Landsvirkjun verður rekin með eðlilegu móti og skuldir hennar fara minnkandi þá verður um meiri auðsöfnun í eignum að ræða hjá þessum tveimur sveitarfélögum en nokkrum öðrum sveitarfélögum á Íslandi, jafnvel þó að íbúatala þeirra færi hátt yfir þann mannfjölda. Ég tel að það skipulag, sem hér hefur verið gripið til, sé þeim annmörkum háð að það sé alls ekki sjálfgefið að það sé réttlætanlegt að afhenda náttúruauðlindir landsins alveg á silfurfati yfir til Landsvirkjunar. Þetta leiðir einnig hugann að þeirri staðreynd að mjög hefur verið rætt um það á seinni árum að menn vildu hafa jöfnun á orkuverði. Á sama tíma og sú umræða hefur farið fram þá liggur ljóst fyrir að þéttbýlisbúar suðvesturhornsins una mjög illa því verðjöfnunargjaldi sem verið er að leggja á raforkuna og vissulega stingur það í augu. Það hlýtur þess vegna að vera vel þess virði að hugleiða hvort ekki sé skynsamlegra að reyna að skjóta þeim stoðum undir Rafmagnsveitur ríkisins að þær geti starfað með þeim myndarbrag að ekki þurfi að beita svo miskunnarlaust verðjöfnunargjaldi eins og gert er. Ég hygg að pólitískt væri það að mörgu leyti þægilegra fyrir þm. þéttbýlisins að standa þannig að þeim málum að þeir afhentu Rafmagnsveitum ríkisins einhverjar þær eignir sem tryggðu fjárhagsstöðu þeirra svo að þær þyrftu ekki að staðaldri að standa í vörn fyrir að hafa samþykkt verðjöfnunargjald á raforku.

Allt leiðir þetta hugann að því sama. Hvaða erindi á það t.d. inn í samning milli ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar að það eigi, eins og stendur hér í 2. gr., að selja eða afhenda þessum aðilum eignir í Bjarnarflagi og Námaskarði núna? Liggja einhverjar áætlanir fyrir um það að þarna eigi að fara að hefja raforkuvinnslu? Hvers vegna má það ekki geta átt sér stað, ef fram kæmu þeir iðnaðarkostir sem hagnýtt gætu þetta svæði - þó það væri ekki til beinnar raforkuframleiðslu - hvers vegna má það ekki eiga sér stað að þannig sé frá því gengið að það sé hægt að semja beint við ríkið um þá hluti? Hvers vegna þarf að eiga sér stað þessi yfirfærsla á auðlindum landsins til þessarar stofnunar? Hver er tilgangurinn með því?

Ég er sannfærður um að niðurstaða þeirrar stefnu, sem núna er í gildi, að annars vegar séum við með orkuframleiðsluaðila, sem selur orkuna á heildsöluverði jafnt hvar sem er á Íslandi, og hins vegar með dreifingaraðila, sem eiga svo að dreifa orkunni, verði sú, þegar mannfjöldaþróunin heldur áfram á þann veg sem verið hefur, að meiri hluti Íslendinga, sem býr á þessu svæði að öllu óbreyttu, mun líta á það sem sjálfsagðan hlut að raforka verði seld á mjög misjöfnu verði í landinu. Hann mun ekki una því að þarna verði um millifærslu á fé að ræða. Þess vegna hlýtur það að vera spurning hvort skynsamlegt sé að skilja Rafmagnsveitur ríkisins eftir þannig úti á klakanum að það sé fyrirsjáanlegt um ókomna framtíð að möguleikar þeirra til að selja raforku til sinna aðila verði beinlínis að byggjast á því að verðjöfnunargjald sé til staðar. Er skynsamlegt að standa þannig að þessu? Eru einhver sérstök rök fyrir því að Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur, Mosfellssveit og Seltjarnarnes skuli ekki vera aðilar að því félagi sem sér um virkjun auðlinda landsins, ef menn vilja hafa þetta á sveitarstjórnaplani? Mér sýnist nefnilega að það standist ekki með nokkru móti, ef menn vilja fara að skoða þetta út frá rökrænu sjónarmiði, að það sé eðlilegur hlutur að sveitarfélög séu með mikið vafstur utan marka síns sveitarfélags, nema þau standi þá sameiginlega, sem heild í landinu, að þeim framkvæmdum. Ég hef út af fyrir sig enga fordóma gagnvart því að sveitarfélögin, sem núna njóta þjónustu Rafmagnsveitna ríkisins, eignist Rafmagnsveitur ríkisins en væri það ekki dálítið klént ef niðurstaðan af slíku yrði sú að þá væri jafnframt búið að afhenda virkjunarréttinn innan þessara sveitarfélaga til fyrirtækis sem stæði fyrir utan þau?

Það gerist ærið oft að frv. eru lauslega rædd af stjórnarflokkum og gerð grein fyrir innihaldi þeirra með nokkurri fljótaskrift. Mér sýnist að það sé þó nokkuð annað mál að taka í prinsippinu þá ákvörðun að stór hluti af skuldum Kröflu verði ekki greiddur af rafmagnsnotendum í gegnum orkureikninga heldur verði hann greiddur í gegnum skafta en taka hina prinsipp-afstöðuna að það sé skynsamlegt að halda áfram á þeirri braut að Rafmagnsveitur ríkisins verði það fjárhagslega veikar, það fjárhagslega ósjálfstæðar, að þær þurfi eilíflega að sækja undir annan aðila með kaup á raforku og muni þannig um ófyrirsjáanlega framtíð þurfa að selja hana á hærra verði til sinna aðila eða þá að vera upp á þá náð komnar að verðjöfnunargjaldi verði beitt. Mér sýnist að þarna séu menn að innleiða vissa hluti sem þeir hafi ekki hugleitt til botns.

Mér sýnist að það hefði verið full þörf á því að doka nú við og reyna að gera sér einhverja heildargrein fyrir því hvaða stefna það er sem menn ætla að framfylgja. Því hefur verið fleygt að það eigi að leggja niður verðjöfnunargjaldið. Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því hvernig það fær þá staðist að rafmagnsverð geti orðið hliðstætt hvar sem er í landinu. Er það hugsanlegt að það yrði stefna stjórnvalda að líta á það sem eðlilegan hlut, svo við tökum dæmi, ef það risi nú stórborg við Ölfusárósa - Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn mundu mynda eina stórborg á Íslandi sem vel gæti hugsast - er það þá hugsunin á bak við það frv. sem hér er til umræðu á Alþingi Íslendinga að nú verði tekin um það ákvörðun að þannig verði gengið frá afhendingu auðlinda landsins að það sé fyrirsjáanlegt að þeir aðilar sætu uppi með það að greiða hærra orkuverð en þeir sem búa t.d. hér í Reykjavík? Er einhver rökræn ástæða fyrir því að við göngum þannig frá málum? Er eitthvað sem þvingar okkur til þess?

Ég vil undirstrika það að ég vil seinastur manna verða til þess að standa þannig að málflutningi að við etjum saman landshlutum. Og ég vil vissulega horfa á hin sögulegu rök sem voru fyrir því að þannig var af stað farið á sínum tíma. Vegna framtaks borgarstjórnar Reykjavíkur hafði hún eignast ákveðna virkjun og hún lagði hana inn í þetta dæmi á móti ríkinu þegar farið var í virkjanirnar við Þjórsá. Spurningin á þessu stigi er aðeins þessi: Er ekki öllum ljóst að það verða notendurnir sem borga niður virkjanirnar en svo eru það aðrir sem eru skráðir eigendur?

Ég játa að mér er hreinlega ekki ljós tilgangur þess að leggja slíkt ofurkapp á það að safna inn til Landsvirkjunar virkjanarétti sem er fyrirsjáanlegt að hún mun ekki nota fyrir árið 2000. Hvað knýr þá alþingismenn Íslendinga sem voru kosnir til fjögurra ára til þess að líta svo á að þeir eigi að hafa forræði í þessu máli fyrir þeim sem hér verða kosnir á þing eftir árið 2000? Hvað knýr þá til þess að líta svo á að þeim beri slíkt forræði? Síst af öllu ætti óttinn að koma frá þessu svæði landsins þar sem fyrirsjáanlegt er að mun meira vald verður þá staðsett á þessum landshluta heldur en er nú. Hvers vegna þá þessa rosalegu áherslu á að sameina þessar auðlindir undir Landsvirkjun eins og hér er verið að gera? Hver er skýringin á þessu? Ég fyrir mína parta tel mig ekki eiga að taka þær ákvarðanir fyrir framtíðina sem hér er verið að leggja til að verði teknar. Ég tel að þingmenn framtíðarinnar á Alþingi Íslendinga verði fullfærir um að taka þær ákvarðanir. Og ég tel eðlilegt að ríkið haldi sínum landsréttindum fyrir norðan, bíði með að afhenda þau, sjái til, það er enginn að snúast gegn því, verði það skipan mála árið 2000 að menn telji þetta eðlilegt, þá er enginn að snúast gegn því að þessi aðstaða verði notuð og það verði virkjað á þessum stöðum fyrir landið í heild. En er það nokkuð sem knýr okkur í dag til að taka þessa afstöðu? Er einhver brennandi þörf á Alþingi Íslendinga núna rétt fyrir jólaleyfi að fara að afgreiða mál sem ekki verða í brennidepli hvað virkjun snertir fyrr en eftir árið 2000? Og hvaðan kemur mönnum þá sú hugsun að það sé þeirra, sem kosnir voru í dag, að taka slíkar ákvarðanir? Hvaðan kemur mönnum slík hugsun?

Þetta minnir mann stundum, því miður, á það þegar gömlu nýlenduveldin voru orðin alvarlega hrædd um það að þau væru að missa yfirráðin yfir einhverri nýlendunni. Þá snéru þeir sér að því að ganga frá því að auðlindirnar skyldu ekki fylgja með. Þá var þeim safnað inn til þess ríkis sem drottnaði. Það er dálítið merkilegt að skoða t.d. afsöl, eða veðbókarvottorð réttara sagt, af jörðum á Vestfjörðum. Þá rekst maður stundum á það að Hið konunglega danska námufélag hafi um 1900 orðið eigandi að öllum námuréttindum á viðkomandi jörð þó að menn almennt viti ekki til þess að þar sé annað að hafa en grjót og sand. En fyrirhyggjan var slík að halda þessum auðæfum eftir.

Ég sé ekki að þau vinnubrögð að ganga frá þessu hér og nú til slíkrar framtíðar eigi nokkurn rétt á sér. Ég sé ekki með neinu móti að hvorki höfuðborg Íslands né Akureyri sé stefnt í voða þó að þessi réttindi séu áfram hjá íslenska ríkinu. Og mér er til efs að alþingismenn hafi hugsað það mál í botn hvort samþykkt t.d. hér á 2. gr. á nokkurt erindi inn í þá ákvörðun sem þó er yfirskrift þess frv. sem hér er á dagskrá. Því yfirskrift frv., með leyfi forseta, er ákaflega einföld: „Frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu.“ Fyrirsögnin felur ekkert í sér sem bendir til þess að 2. gr. eigi erindi inn í frv.

Það var ekki ætlun mín, herra forseti, að lengja hér umræður. En þegar það gerist að mál eru jafnlítt kynnt eins og þetta og innihald jafnfjarri þeirri nafngift sem er á frv. þá er ekki undarlegt þó maður spyrji sjálfan sig: Hver er tilgangurinn með slíkum vinnubrögðum?