18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur haft mál þetta til umfjöllunar og hefur nefndin orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. en þrír nm. skrifa undir með fyrirvara.

Hér er um að ræða mál sem fjallar um greiðsluvanda íbúðareigenda með hliðsjón af áliti nefndar um húsnæðismál sem hefur starfað að undanförnu og nýlega skilað frá sér áliti. Ég hygg að segja megi að öll ákvæði frv. hnígi að því að bæta í nokkru hag húsbyggjenda og íbúðareigenda þar sem um er að ræða skattafrádrætti vegna vaxtagreiðslna og verðbóta o.s.frv. Það er aðeins eitt ákvæði sem kann að verða talið íþyngjandi, en það er að skattfrelsismörk vegna eignarskatts verði miðuð við 28% sem er meðalhækkun fasteignamats en ekki 36% sem er meðalhækkun verðbólgu, en það kemur mjög lítið við þá sem eru með meðalíbúðir eða kannske lítið eitt stærri. Það er þá kannske aðeins einhver íþynging á þeim sem meiri fasteignir eiga.

Ég held að ástæðulaust sé að skýra þetta mál frekar. Það hefur verið gert hér bæði í framsögu við 1. umr. og eins er þetta allt rækilega rakið í athugasemdum. Í þessari tímaþröng geri ég ekki ráð fyrir að menn æski þess að frekar verði farið út í þá sálma. Ég vísa til þess að nefndin er sammála um samþykkt frv. en þrír nm. skrifa að vísu undir með fyrirvara.