18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það kom fram við 1. umr. málsins að um það hefur verið ágreiningur með hvaða hætti ætti að haga rannsókn þessa máls. Við Alþýðubandalagsmenn höfum borið fram till. í báðum deildum þingsins þar sem gerð er till. um, í samræmi við skoðanir okkar á þessu máli, hvernig rannsókn skuli hagað. Ágreiningurinn hefur snúist um það: 1. hverjir eigi að skipa rannsóknarnefndina, 2. hverjir eigi að vera möguleikar Alþingis til eftirlits með rannsókninni og 3. hversu víðtæk og almenn rannsóknin skuli vera.

Ég gagnrýndi það við 1. umr. málsins að ríkisstj. skyldi ekki leita samstarfs við stjórnarandstöðuna við undirbúning þessa máls og taldi það mjög forkastanlegt hvernig að því hefði verið staðið og nefndi það að sennilega væri það einsdæmi í máli af þessu tagi að ekki væri leitað samstarfs við stjórnarandstöðu. Mér er ljúft að játa það að þegar að nefndarstörfum kom í fjh.- og viðskn. var allt annað upp á teningnum. Þar var leitast við að ræða væntanleg vinnubrögð í sambandi við þessa rannsókn á málefnalegan hátt og fullt tillit var tekið til allra sjónarmiða sem þar komu fram og þau a.m.k. málefnalega rædd. Mér er líka ljúft að viðurkenna það að ýmsar ábendingar um breytingar á frv. sem við settum fram náðu fram að ganga við meðferð málsins. Þannig lagði ég fram fjórar hugmyndir um breytingar á frv. og ég tel að það hafi verið komið til móts við þrjár þessara hugmynda. Aftur á móti var ein hugmyndin um breytingu ekki samþykkt, þ.e. að Sþ. kjósi sex alþm. samkvæmt tilnefningu þingflokka til að fylgjast með rannsókn þessari. Hafi þeir rétt til að hlýða á yfirheyrslur og kynna sér gögn málsins. Vissulega er þetta grundvallaratriði að okkar áliti og rannsóknin yrði með allt öðrum hætti, og að okkar hyggju færi hún fram á betur unandi hátt, ef þetta væri gert. En engu að síður verð ég að viðurkenna það að ríkisstjórnarmeirihlutinn tók gott tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar í þessu máli þótt ekki væri fallist á allar till. hennar.

Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt: Ég tel að á annan veg ætti að standa að þessari rannsókn, og að það væri hyggilegra, og vísa í því efni til till. sem við höfum flutt einmitt hér í deildinni. En vegna þess að hún nýtur ekki stuðnings annarra flokka og þar sem nauðsynlegt er að mál þetta verði rannsakað, þá tel ég eftir atvikum að það verði þá að una við það að rannsóknarnefndin verði kosin í samræmi við það frv. sem hér liggur fyrir og þá sérstaklega að teknu tilliti til þeirra breytinga sem fram fengust við meðferð málsins í nefnd.

Við Alþýðubandalagsmenn munum leggja áherslu á það að brtt. stjórnarandstæðinga, sem hér hefur verið lögð fram og gerð grein fyrir, verði samþykkt. Við leggjum á það þunga áherslu að Alþingi fái möguleika til að hafa eftirlit með þessari rannsókn og fylgjast með henni. En engu að síður, jafnvel þótt hún nái ekki fram að ganga, þá munum við styðja frv. og tryggja því framgang því meginatriði málsins er að sjálfsögðu það að rannsókn fari fram.