18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég efasemdum mínum um hversu rétt það væri að Hæstiréttur skipaði tilgreinda rannsóknarnefnd. Þær efasemdir eru enn til staðar. En það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan, með sínum tillöguflutningi og málflutningi hér í þinginu, hefur knúið fram þetta stjfrv. og í meðferð þess hefur verið tekið tillit til veigamikilla tillagna sem við lögðum fram í nefndinni. Það hefur verið komið til móts við þau sjónarmið og verið gerðar breytingar á frv. sem eru verulega til bóta. Það ber auðvitað að virða. En ég undirstrika mikilvægi þess að samþykkt verði sú brtt. sem liggur hér fyrir, um að Alþingi fái aðstöðu til að gegna eftirlitshlutverki sínu með því að fylgjast með framgangi málsins. Og með tilliti til þessa þá tel ég að þessi rannsókn sé í bærilega viðunandi farvegi og ekki stætt á því að leggjast gegn frv. eins og það nú er vaxið, en lýsi þeirri von að við berum gæfu til að samþykkja þá brtt. sem liggur fyrir við 4. gr., og því segi ég já.