24.10.1985
Neðri deild: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er margt sem er ekki í lagi með hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og eitt af því er að það skilur hann ekki nokkur maður. Frásagnarlist manns nokkurs er þannig lýst af fornri bók að hann ló til víða og ég hygg að það megi hafa svipuð orð um hvernig hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vann úr ræðum mínum hér og var í samanburði við þær þvers og kruss. Það mátti helst á hans máli heyra að hann hefði alls ekki á þær hlýtt, svo fjarri var hann þeim efnisþræði sem ég flutti í mínu máli.

En herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að þreyta hv. þm. á því að fara vandlegar yfir timburmenn Alþfl. í þessu máli. Það er greinilegt að þeir hafa slæma samvisku yfir því að geta ekki á sjálfan kvennafrídaginn fylgt að málum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er sá eini úr þeim þingflokki sem rætt hefur þessi mál af þekkingu og viti í kvöld.

En ég nota þetta tækifæri, herra forseti, úr því að ég er hér á annað borð staddur, til að koma að endingu á framfæri almennum mótmælum við þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð. Ég tek það fram að það beinist ekki að fundarstjórn virðulegs forseta, heldur að vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. sem auðvitað ræður ferðinni í þessu máli og kúskar sjálfsagt einhverja af lítilvægum fylgisveinum sínum hér til að una þessari málsmeðferð og hef ég þá ekki fleiri orð um það.

Ég gæti rætt, herra forseti, nokkuð um heyskap og annað sem hér hefur borið á góma, en kýs að geyma það til betri stundar. Það er nú orðið ljóst að þó að hæstv. ráðherrum líki vel við nýju stólana komast þeir upp úr þeim og geta haft sig upp í ræðustólinn þó með erfiðismunum sé, en rýr eru svörin og vonar maður að bregði nú til betri áttar með það þegar þeir venjast stólunum og komast að því að það er nú víðar þægilegt að vera en í nýjum ráðherrastólum.