18.12.1985
Neðri deild: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér í þetta áhugaverða mál um þingsköp. Mér virðist vera augljóst að hér er í raun og veru bæði að efni til og næstum því að formi til um tvær tillögur að ræða.

Við skulum líta á fyrirsögnina. Þar stendur: „Breytingartillögur“ og að efni til eru töluliðirnir gerólíkir. Þess vegna fellst ég algerlega á skýringu forseta að það megi skipta þessu í tvennt. Ég hygg í raun og veru að það sé fremur um mistök að ræða í uppsetningu, að það standi ekki till. nr. 1 eða 2 og þó finnst mér að það megi vel líta svo á að svo sé.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þetta séu tvær tillögur og þess vegna sé alveg hægt að draga aðra þeirra til baka til 3. umr. ef mönnum sýnist svo, án þess að gengið sé á svig við þingsköp.