18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

182. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. þetta á nokkrum fundum og auk þess átt viðræður við fulltrúa fjmrn. og ríkisskattstjóra um málið. Hér er gerð tillaga um það að á næsta ári verði innheimt gjald að upphæð 1000 kr. á hvern gjaldanda sem skuli renna til Framkvæmdasjóðs aldraðra með þeim undanþágum þó sem getið er um í 10. gr. laga um málefni aldraðra.

Í þessari 10. gr. er einnig getið um það að þær tölur sem þar greinir, annars vegar gjaldið og hins vegar skattleysismörk um þá sem undanþegnir séu þessu gjaldi, skuli breytast árlega í samræmi við skattgjaldsvísitölu. Við skoðun á málinu varð það því niðurstaða nm. að breyta þyrfti þessum tölum á þann hátt að þær yrðu miðað við áætlaða hækkun skattvísitölu á næsta ári 1000 kr. og því þyrfti talan nú í þessu frv. að vera 735 kr. á hvern gjaldanda og miðað við það að skattvísitölu verði breytt í 136 stig þá yrði sú tala á næsta ári 1000.

Til þess síðan að halda sama hlutfalli á milli upphæðarinnar, sem greind er sem skattleysismörk, 115 500 kr. á hvern gjaldanda, til þess að halda sama hlutfalli milli þessarar tölu annars vegar og ellilífeyris og tekjutryggingar hins vegar á milli áranna 1984 og 1985 og síðan á milli áranna 1985 og 1986 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að einnig þyrfti að breyta tölunni 115 500 kr. í 122 058 kr. Framreiknist sú tala síðan með skattvísitölunni 136 stig, þá mundi hún á næsta ári nema 166 þús. kr. og þá yrði hlutfallið óbreytt milli þessara tveggja pósta sem ég nefndi áðan.

Því leggur nefndin til að fluttar verði brtt. við þetta frv., sem fram koma á þskj. 313 og hljóða svo, að við 1. gr. frv. komi breyting þannig að greinin orðist svo:

„2. málsl. 1. tölul. 10. gr. laganna hljóði svo:

Skal gjaldið nema 735 kr. á hvern gjaldanda.

Í stað „115 500“ í 3. málsl. 1. tölul. 10. gr. komi: 122 058.“

Síðan bætist við þetta frv. ný grein sem verði 2. gr. og orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Um þessar breytingar varð samstaða í nefndinni. Undir nál. rita Guðmundur Bjarnason, Guðrún Agnarsdóttir, Friðrik Sophusson, Guðrún Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson, Ólafur G. Einarsson og Guðmundur H. Garðarsson. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt svo breytt sem ég hef nú gert grein fyrir.