18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

182. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. 1 tilefni af þessari fsp. hv. 3. þm. Reykv. skal ég greina frá því að þessi áætlun sem hann spyr um - eða drög að áætlun - um úthlutun stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra úr þeim sjóði fyrir árið 1986 hefur ekki legið frammi í heilbr.- og trn. og var ekki eftir því gengið eða um það beðið.

Hv. þm. spurðist einnig fyrir um það hvort þessi áætlun hafi legið fyrir hjá fjvn. Það hefur hún ekki gert. Mér er ekki kunnugt um það hvort stjórn Framkvæmdasjóðsins hefur nú þegar gert einhverjar tillögur um úthlutun úr sjóðnum, enda sýnist mér að það hljóti að vera nokkuð erfitt fyrir hana á þessu stigi, þar sem hér er gerð tillaga um verulega hækkun á því fjármagni sem verður til ráðstöfunar úr sjóðnum. Og eins og hv. þm. benti einnig á í sinni ræðu, þá urðu við 2. umr. fjárlaga breytingar á því fé sem sjóðnum hafði verið áætlað í fjárlagafrv. Hins vegar ber að geta þess að þær 14 millj. kr., sem teknar voru af liðnum Framkvæmdasjóður aldraðra, voru aðeins færðar til og þeim var úthlutað undir öðrum lið af fjvn.

Ég vil þá líka nota þetta tækifæri til þess að láta þá skoðun mína í ljós að ég lít svo á að því fjármagni sem ráðstafað er í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra ætti að úthluta hér af fjárveitingavaldinu. Það ættu að koma tillögur um það frá fjvn. og það síðan að meðhöndlast hér af Alþingi á sama hátt og aðrar fjárveitingar til framkvæmda. En það er annað og stærra mál. En mér fannst tilvalið tækifæri til að koma þeirri skoðun minni hér á framfæri að ég tel að fjárveitingar úr þessum sjóðum ættu að meðhöndlast á sama hátt og aðrar fjárveitingar sem fara til framkvæmda af fjárlögum en ekki vera úthlutað af sérstakri nefnd eða stjórn sem sé algerlega óháð þeim tillögum sem héðan koma.

Það er sjálfsagt að reyna að verða við þeim óskum hv. 3. þm. Reykv. að fara fram á það við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra að tillögur þær sem þar kunna að liggja fyrir verði sendar fjvn. og þá eftir atvikum afhentar þm., ef mönnum finnst ástæða til, fyrir 3. umr. fjárlaganna, séu þessar tillögur fyrir hendi nú þegar. Um það veit ég ekki en ég get borið þessa ósk hv. þm. fram. Það verður síðan á það að reyna hvort þær koma, hvort þær liggja nú þegar fyrir.

Þetta frv. sem hér er til umræðu á að sjálfsögðu eftir að fara til Ed. og þá gæti einnig heilbr.- og trn. Ed. kannað það mál, hvort þessi áætlun liggur nú þegar fyrir hjá stjórn sjóðsins.