18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

182. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir þær upplýsingar sem fram komu í máli hans. Ég vænti þess að tillögur nefndarinnar eða drög að tillögum stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra liggi hér fyrir áður en 3. umr. um fjárlögin fer fram. Ég fyrir mitt leyti vil helst ekki þurfa að eiga nein eftirkaup um þessi efni og ég geri ráð fyrir því að það eigi við aðra þm.

Ég kvaddi mér hljóðs ekki aðeins til að þakka hv. þm. heldur einnig til að mótmæla honum sérstaklega. Ég vil vara mjög við þeim hugsunarhætti, sem fram kemur hjá hv. þm., að leggja niður þessa sérstöku sjóði, Framkvæmdasjóð fatlaðra og Framkvæmdasjóð aldraðra. Þessir sjóðir hafa mjög þýðingarmiklum verkefnum að sinna og það er ekki nokkur vafi á því að það hefur tekist að stórauka uppbyggingu í þágu aldraðra og fatlaðra í landinu vegna þess að hér hefur verið um sérsjóði að ræða. Ég vil vara við öllum hugmyndum um það að taka þá fjármuni, sem í þessa sjóði fara, beint inn í ríkissjóð. Ég er sannfærður um það að útkoma þessara málaflokka með þeim hætti yrði miklu, miklu lakari en verið hefur.

Ég held að það sé ljóst að í málefnum fatlaðra og aldraðra hafa Íslendingar staðið að baki grannlöndum sínum mjög verulega og jafnvel lengra að baki þar en á öðrum sviðum félagslegrar þjónustu. Ég tel að við þurfum þarna áð vinna upp langan slóða liðinna ára og áratuga og þess,vegna megi ekki undir neinum kringumstæðum fara að höggva í þessa sjóði eða leggja þá niður og láta þá peninga sem þar eru renna í ríkissjóð beint eins og staðan er. Miklu eðlilegra er að þeir sem þekkja til í þessum málum, málefnum aldraðra og fatlaðra, hafi áhrif á úthlutun úr þessum sjóðum og viðkomandi fagráðuneyti fari með endanlegt vald í þeim efnum. Ég held að það sé miklu skynsamlegra og heppilegra fyrirkomulag, enda sýnist mér að fjvn. hafi yfirleitt í nógu að vasast.