18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

182. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Vafalaust munu um það skiptar skoðanir hvort fjárveitingavaldið eigi að vera í höndum Alþingis eða framkvæmdavaldsins. En í umræðu um slíka hluti er rétt að minnast þess að verið var að fara í fjárfestingar af hálfu ríkisins upp á 110 millj. án þess að slíkt mál hafi á vinnslustigi verið lagt fyrir fjvn. eða þm. almennt um það vitað. Þannig er framkvæmdavaldið að hrifsa til sín stærri og stærri ákvarðanir um fjárveitingar sem þó eiga að vera í höndum Alþingis. Og það er dálítið erfitt að sitja undir því að menn geti ekki talað hér hreint um málið og blandi því saman hvort verið er að tala um að leggja niður sjóði eða hvort verið er að tala um það hvort Alþingi eigi að taka ákvarðanir um það hvernig þessum fjármunum sé ráðstafað til sömu þarfa og verið er að tala um.

Ég held að Alþingi hljóti að fara að gera það upp við sig í framtíðinni í miklu ríkari mæli hvort það er yfir höfuð líðandi að framkvæmdavaldið haldi áfram á þeirri braut að hrifsa stöðugt til sín meiri og meiri ákvörðunarrétt um fjárlög og geri það m.a. með bindandi samningum samkvæmt útboðum, geri það með því að fela einhverjum nefndum úti í bæ að dreifa fjármagninu eða geri það með því að fara út í það að fjárfesta í húsum og afhenda þau svo til ákveðinna stofnana.