18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

182. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þeirra orða hv. síðasta ræðumanns að í þessu tilviki væri framkvæmdavaldið að hrifsa til sín verkefni. Það er nú ekki aldeilis svo, heldur er þetta eitt af mörgum dæmum um það að Alþingi sjálft setur lög um það að setja skuli nefnd í þessu eða hinu skyni. Og í þessu tilviki stendur það skýrum stöfum í lögunum um málefni aldraðra að stjórn sjóðsins skuli vera í höndum samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem geri tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Um þetta standa skýr lagafyrirmæli og þess vegna vísa ég því algerlega á bug að framkvæmdavaldið hafi verið að hrifsa til sín eitthvað meira en Alþingi hefur falið því í þessu sambandi. Einnig vísa ég því á bug að hér sé verið að fela eitthvert tiltekið verkefni einhverjum mönnum úti í bæ. Hér er um að ræða lög sem sett voru árið 1982. Vissulega er þarna farið inn á þá braut sem oft er varað við en menn leggja þó æ oftar út á samt. Það eru hinir mörkuðu tekjustofnar. Neyðin í þessum efnum ýtti mönnum vissulega út á þá braut og mönnum þótti sanngjarnt að hver einasti borgari í landinu innan við tiltekinn aldur og yfir tilteknum tekjumörkum greiddi þessa fjárhæð, innan við 1000 kr., sem verður raunar 1000 kr. nú á næsta ári, á einu ári til þess að stuðla að því að hinu aldraða fólki verði búin bærileg aðstaða á sínum efstu árum.

Þannig horfir þetta mál við og ég er ekki frá því m.a.s. að hv. fjvn. sjálf hafi óskað þess við stjórnarnefndina að hún gerði tillögur um úthlutun 14 millj., sem á að vera í höndum fjárveitingavaldsins hér að úthluta, og að svo hafi verið gert. Algjört samráð hefur því verið haft á milli þessara aðila. Frá þessu vildi ég skýra.